fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hann sendi 18 konum blóm en aðeins ein þeirra áttaði sig á af hverju hún fékk blóm

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. febrúar 2018 07:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestir þeir sem senda einhverjum blóm vita líklegast hverjum þeir vilja senda blóm. En það var ekki tilfellið hjá karlmanni sem býr í bænum Atherton í Bretlandi. Hann hafði margoft reynt að bjóða konu úr bænum á stefnumót með því að senda henni skilaboð á Facebook. Hún gaf lítið fyrir þessi boð hans og á endanum lokaði hún á hann á Facebook. Þá voru góð ráð dýr en manninum fannst hann hafa fundið góða lausn til að ná eyrum konunnar.

Hann áttaði sig þá á að hann hefði kannski verið aðeins of ákafur við að bjóða henni út og því ákvað hann að senda henni blómvönd sem afsökunarbeiðni. En þá stóð hann frammi fyrir ákveðnum vanda því það eina sem hann vissi um hana var að faðir hennar á bar í Atherton. En ekki nóg með það því það eru 18 barir í bænum. En ungi maðurinn dó ekki ráðalaus og sendi blóm til allra baranna og merkti þau ”til dóttur eigandans”. Með hverri sendingu fylgdi bréf sem á stóð: ”Fyrirgefðu”.

Manchester Evening News skýrir frá þessu.

Natasha Paige Freeborn var ein þeirra kvenna sem fékk blóm frá unga manninum. Hún skildi ekkert í þessu en tók mynd af blómunum og birti í Facebookhóp bæjarbúa og spurði hvort einhver þar vissi eitthvað um málið.

Fleiri konur gáfu sig þá fram og sögðust hafa fengið blóm en þær vissu heldur ekki af hverju eða hver hafði sent þá. Að lokum gaf Lyndsey Murray Sapiente, 34 ára, sig fram og sagðist hugsanlega vita um hvað þetta snerist.

Faðir hennar á barinn The Taphouse og þangað voru blómin til hennar send. Í samtali við Manchester Evening News sagði hún að ókunnugur maður hafi margoft boðið henni út en hún hafi alltaf afþakkað.

„Ég hef aldrei hitt hann nema á Facebook. Hann var stöðugt að bjóða mér út en ég sagðist eiga annríkt í vinnunni og væri ekki að leita að neinum. En hann spurði og spurði og á endanum neyddist ég til að loka á hann. Það er þetta sem hann er að reyna að biðjast fyrirgefningar á. Hann hefði ekki þurft að gera það. Hann gerði ekkert rangt. Ég er bara ekki að leita að neinum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt