fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Vilja gjörbylta danska flóttamannakerfinu – Ekki verður lengur hægt að sækja um hæli í Danmörku

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 5. febrúar 2018 07:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mette Frederiksen, formaður danska sósíaldemókrataflokksins (jafnaðarmanna), kynnir í dag tillögur flokksins um gjörbyltingu á danska flóttamannakerfinu. Samkvæmt tillögunum mun flóttafólk ekki geta sótt um hæli í Danmörku í framtíðinni, það er að segja með því að koma að landamærunum og biðja um hæli eða gefa sig fram einhversstaðar í Danmörku og biðja um hæli. Einnig verður sett þak á þann fjölda flóttafólks sem verður tekið við árlega og það sama á við um hversu margt flóttafólk fær heimild til að fá ættingja sína til sín, svokallaðar fjölskyldusameiningar.

Eins og kerfið er í dag þá getur fólk beðið um hæli þegar það kemur að dönsku landamærunum eða með því að gefa sig fram við þar til bær yfirvöld innanlands. En þessu vilja jafnaðarmenn nú gjörbylta.

Hugmyndir flokksins ganga út á að allir þeir sem koma til Danmerkur og sækja um hæli verði strax sendir í flóttamannamiðstöð í þriðja landi og er þá helst horft til einhvers lands í norðanverðri Afríku. Þar eiga Danir að reisa og reka flóttamannamiðstöð samkvæmt tillögum jafnaðarmanna. Í þessum miðstöðvum eiga hælisleitendur að dvelja meðan mál þeirra eru tekin til afgreiðslu. Tillögurnar verða kynntar í dag en þær hafa fengið heitið „Retfærdig og Realistisk“ (Réttlát og raunhæft). Samkvæmt þessum tillögum mun flóttafólk ekki fá aðgang að Danmörku frekar en þeir sem má flokka sem innflytjendur, fólk sem er að leita að vinnu og nýjum dvalarstað en er ekki að flýja ofsóknir eða stríðsátök í heimalöndum sínum.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Frederiksen að það sé brýn nauðsyn að búa til nýtt kerfi hvað varðar flóttafólk, kerfi sem sé mannúðlegra en kerfið sem er við lýði í dag en rætt var við hana í kvöldfréttum í gærkvöldi. Hún sagði að staðan sé einfaldlega sú að fleira flóttafólk hafi komið til Evrópu en ríki álfunnar ráði við að taka við. En staðan sé að megninu af þessu flóttafólki sé ekki hjálpað.

Til að vega á móti þessu vilja jafnaðarmenn á nýjan leik hefja móttöku kvótaflóttafólks frá Sameinuðu þjóðunum og gæti fjöldinn orðið meiri en 500 en tekið var á móti þeim fjölda árlega áður en hætt var að taka við kvótaflóttafólki.

„Það er að minnsta kosti möguleiki á að ef hælisleitendur koma ekki til Danmerkur eins og í dag þá getum við verið í þeirri stöðu, sem ég vil helst sjá, að við ákveðum sjálf hversu margir koma til Danmerkur.“

Sagði Frederiksen.

Að auki á að setja þak á hversu margir innflytjendur og/eða flóttamenn frá ríkjum utan Vesturlanda fá að koma til Danmerkur. Danska þingið á samkvæmt tillögunum að ákveða þetta þak árlega.

„Ég vil gjarnan þvinga okkur Dani til að hugsa okkur um hvað varðar útlendingapólitíkina og gera það árlega. Í dag ber enginn ábyrgð á hversu margir koma hingað. Ég held raunar að Danir vilji, ég á mér sjálf þá ósk, að við náum stjórn á þessu á nýjan leik og þorum að ákveða hversu margir fá að koma hingað til að við getum látið samþættinguna ganga upp.“

Sagði Frederiksen.

Það eru tvö markmið með nýju tillögunum. Þær eiga að gera upp við kerfi þar sem þeir heppnu og sterkustu af flóttafólki heimsins komast til Evrópu. Frederiksen sagði að núverandi kerfi sé hrunið og margir láti lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhaf.

„Ef við eigum að vera alveg hreinskilin við hvert annað þá hjálpum við aðeins fáum af flóttamönnum heimsins þegar við hjálpum þeim í Evrópu.“

Hitt markmiðið er að stjórna og takmarka aðgang að Danmörku fyrir fólk frá ríkjum utan Vesturlanda.

„Það hafa margir komið til Danmerkur og það hafa margir komið til Evrópu, fleiri en við höfum getað samþætt samfélaginu á fullnægjandi hátt.“

Sagði Frederiksen og bætti við að þetta sé mikil áskorun fyrir samfélagið og hvernig það hangir saman og skipti máli um hvort hægt sé að reka velferðarsamfélag, af þeim sökum leggi jafnaðarmenn nú fram svona umfangsmiklar hugmyndir um breytingar í málaflokknum. Hún sagði að til að ná samkomulagi við ríki í Norður-Afríku um uppsetningu flóttamannamiðstöðvar þurfi að bjóða peninga, það sé lykillinn að góðum samningi þar um. Hún tók einnig fram að með tillögunum verði tryggt að Danir virði alþjóðlega samninga um málefni flóttafólks.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu