fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Unnar byrjaði að brjótast inn 6 ára: Hefur setið í fangelsi stóran hluta ævinnar – Missti systur sína úr of stórum skammti

Unnar Sigurður Hansen sagði sögu sína í þættinum Paradísarheimt

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 5. febrúar 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er búinn að vera í neyslu í 30 ár. Þetta hefur kostað mig mikið,“ sagði Unnar Sigurður Hansen, síbrotamaður og fangi á Litla-Hrauni, í þættinum Paradísarheimt sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi.

Í þáttunum, sem eru í umsjá Jóns Ársæls Þórðarsonar, er ljósi varpað á líf fanga á Íslandi.

Fyrst í fangelsi 18 ára

Unnar Sigurður, sem yfirleitt er kallaður Siggi, fæddist í Reykjavík og ólst upp í Yrsufelli í Breiðholti. Að því er fram kom í þættinum hófst afbrotaferillinn þegar hann var sex ára með innbrotum í dúfnakofa en fyrst fór Unnar í fangelsi þegar hann var 18 ára. Sigurður er rúmlega fimmtugur, fæddur árið 1966, og hefur hann setið í fangelsi stóran hluta sinna fullorðinsára.

Í umfjöllun DV árið 2009 kom fram að Unnar hefði frá árinu 1985 hlotið 33 dóma og alls setið inni í rúm 16 ár. Síðan þá eru liðin níu ár og hefur Sigurður hlotið dóma síðan þá. Þegar viðtalið var tekið fyrir þáttinn sem sýndur var í gær átti Sigurður eftir að sitja inni í rúm þrjú ár.

Mynd: Skjáskot RÚV/Paradísarheimt

Oft verið gripinn við neyslu

Sigurður, sem er sagður vinsæll meðal samfanga; léttur og dagfarsprúður, hefur verið í neyslu lengi. „Ég hef verið að fá mér hérna,“ sagði Sigurður sem bætti við að fangelsisyfirvöld tækju hart á neyslu.

„Ef það kemst upp um mig þá missi ég fríðindi, seinkanir á öllum hlutum, þú missir tölvuna þína, missir dagsleyfin, seinkar að þú getir komið í opið fangelsi. Það er mjög mikið sem þú missir ef þú ert tekinn í neyslu.“

Jón Ársæll: Hefurðu verið tekinn?

Sigurður: „Já, mörgum sinnum.“

Fínt heimili en drykkja

Á sínum yngri árum notaði hann aðallega kannabisefni og brennivín. „Þegar ég fór að braggast meira var það amfetamín og kannabis og svo byrja ég í róandi töflum – og það þegar ég kem hérna á Litla-Hraun. Í dag er það amfetamín, kókaín og róandi sem ég hef verið að misnota.“

„Já, ég man að fyrsti sopinn sem ég fékk mér var í fermingarveislu bróður míns. Ætli ég hafi ekki verið sex eða sjö ára.“

Unnar átti tvíburasystur sem var fíkill eins og hann. Hún lést eftir að hafa tekið of stóran skammt. Þegar hann var spurður hvernig fjölskyldulífið hafi verið þegar hann var að alast upp, sagði Sigurður að hann hefði alist upp á ágætu heimili.

„Þetta var fínt heimili en það var dálítil drykkja á því sko, aðallega um helgar. Stundum gat þetta verið ofsafengið. Stundum kveið manni fyrir helgunum,“ sagði Sigurður sem bætti við að mamma hans og pabbi hefðu drukkið. Mikið áfengi hafi verið á heimilinu og alltaf nóg til.

Sjálfur sagðist Sigurður hafa tekið fyrsta sopann þegar hann var sex eða sjö ára.

„Já, ég man að fyrsti sopinn sem ég fékk mér var í fermingarveislu bróður míns. Ætli ég hafi ekki verið sex eða sjö ára. Pabbi kom að mér og hann var virkilega vondur,“ sagði hann og rifjaði upp að stundum hafi börnin verið slegin með ketilsnúru. „Við vorum ekki lamin mikið en látin vita að við værum að gera vitleysu.“

Fannst þetta hálf eðlilegt

Sigurður hefur setið inni fyrir margvísleg brot, aðallega þjófnaði og umferðarlagabrot, og segist hann hafa byrjað ungur að brjótast inn og stela.

„Við náðumst á Reykjavíkurflugvelli á leiðinni til Færeyja, snarruglaðir.“

„Ég veit ekki út af hverju ég byrjaði á því. Það var bara alls staðar hægt að fá peninga í öllum fyrirtækjum. Það var eiginlega ekkert lokað á þessum tíma, engar þjófavarnir. Maður vissi ekkert hvort maður var að gera rétt eða rangt. Manni fannst þetta bara hálf eðlilegt,“ sagði Sigurður.

Sagaði sig út úr fangelsinu

Sigurður rifjaði upp í þættinum þegar hann flúði úr fangelsi. Það hefur hann gert oftar en einu sinni. Eitt sinn sagaði hann rimlana á Litla-Hrauni ásamt öðrum fanga og strauk.

„Já, og hoppaði út um gluggann beint fyrir framan varðstöðina og tók leigubíl í bæinn,“ rifjaði hann upp.

„Við fórum tveir, við vorum í þrjá daga að saga rimlana og svo þegar það var búið þá biðum við í sólarhring til að tékka hvort þetta hefði komist upp. Það var svo mikill hávaði þetta heyrðist um allt hús.“

Enginn varð þó var við gjörning Sigurðar og samfanga hans og komust þeir út í frelsið þennan kalda vetrardag.

„Það var svo kalt og þegar við komumst upp á Selfoss þá gátum við brotið buxurnar þær voru svo frosnar,“ sagði hann og bætti við að leigubílstjóri hefði skutlað þeim í bæinn. Strokið hefði ekki komist upp fyrr en við innilokun um kvöldið. Sigurður viðurkennir að þetta hafi verið spennandi. „Þetta var rosa spenna. Kikkið að fara út, þetta var alveg ofboðslegt adrenalínkikk, þetta var svo gaman.“

Sigurður var frjáls í tvo daga en gaf sig síðan fram að beiðni fjölskyldu sinnar. Í þættinum rifjaði hann einnig upp þegar hann, ásamt nokkrum öðrum föngum, struku af Skólavörðustígnum. „Við fórum sex eða sjö og það var ævintýri sko. Það var bara eltingarleikur út um allt. Við náðumst á Reykjavíkurflugvelli á leiðinni til Færeyja, snarruglaðir,“ sagði hann.

Þættirnir Paradísarheimt eru sýndir á sunnudagskvöldum en alls verða sýndir sex þættir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Í gær

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri