fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Öll brotin eru á heimili félagsþjónustunnar í skjóli Reykjavíkurborgar“

Lögreglan og Barnavernd harðlega gagnrýnd – Þolandi sagði honum að leita sér hjálpar

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 5. febrúar 2018 19:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vann í sjálfum mér. Lokahnykkurinn í bataferlinu var að leggja fram kæru. Mín barnslega trú var að ef ég kærði myndi hann ekki sleppa ef annar þolandi myndi stíga fram. Samt slapp hann, slapp við að missa vinnuna. Það er ótrúlegt og á ekki að geta gerst.“

Þetta segir ungur maður sem kærði Guðmund Ellert Björnsson, starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur. Guðmundur, sem hefur unnið með börnum og unglingum í tvo áratugi, situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa beitt skjólstæðing stofnunarinnar kynferðisofbeldi. Ungi maðurinn er nákominn ættingi og segir að Guðmundur hafi brotið á honum frá 9 ára aldri þar til hann varð 15 ára. Þá kveðst systir mannsins hafa látið Barnavernd vita að meintur níðingur starfaði fyrir stofnunina. Tveimur árum síðar greindi móðir annars ungs manns tveimur lögregluþjónum frá því að Guðmundur Ellert hefði brotið á syni hennar á hrottalegan hátt. Í samtali við DV segir konan að hún hafi greint lögreglumönnunum frá hvar Guðmundur starfaði. Þolendur og ættingjar þeirra hafa fullyrt við fjölmiðla að tilkynnt hafi bæði verið til lögreglu og Barnaverndar að Guðmundur væri grunaður um skelfilegt ofbeldi. Þrátt fyrir þessar viðvaranir starfaði Guðmundur áfram eins og ekkert hefði í skorist þar til í vikunni að hann var loks úrskurðaður í gæsluvarðhald. Guðmundur var yfirmaður á skammtímaheimili á vegum Barnaverndar og átti þar heimili. Hann svaf því með fullt hús af börnum sem komu frá brotnum heimilum. Þá hefur frændi Guðmundar einnig kært hann og sakar hann um að hafa beitt hann ofbeldi á heimili félagsþjónustunnar.

„Þetta kemur allt á óvart“

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur:

„Í þessu máli virðast hafa verið svo mörg viðvörunarmerki sem hafa komið fram. Það er mjög sérstakt af hverju það hafi ekki verið tekið á þessu máli mikið fyrr. Þetta var komið upp á yfirborðið, þannig það er skrýtið hvernig þetta hefur farist fyrir. Ekki bara hjá lögreglu heldur hjá þeim aðilum sem hann vinnur. Þessi brot virðast vera mörg samkvæmt réttargæslumanni. Maður áttar sig ekki á því hvernig þetta allt getur farið fram án þess að einhverjir aðilar á þessari stofnun eða kringum þetta hafi raunverulega gert eitthvað. Þetta kemur allt á óvart,“ segir Helgi Gunnlaugsson og bætir við að þessi brotaflokkur er mjög dulin í samfélaginu og það sé mikið tabú í kringum hann.

Helgi að mikil fordæming sé á kynferðisbrotum gegn börnum í okkar samfélagi. „Það gerir það að verkum að einstaklingar sem hafa þessar hneigðir, komast ekki út með þessar tilfinningar. Það er ekki jákvætt fyrir samfélagið, geta raunverulega ekki tekist á við þær með aðstoð sérfræðinga því það er hægt að vinna á þessu, halda aftur á þessu. Það er sagt að það sé ekki hægt að lækna barnaníðinga, það er ýmislegt til í því. Það er ekki hægt að lækna en margt er hægt að gera. Það er hægt að koma í veg fyrir að þeir brjóti af sér. Þó þú hafir þessar tilhneigingar þá þarf ekki endilega að vera að þú brjótir af þér.“

Helgi tekur alkóhólisma sem dæmi og segir að þó fólk séu alkóhólistar þá geti það oft haldið sjúkdómnum í skefjum. „Það er kannski ekki hægt að lækna alkóhólisma en það þarf ekki þar með að segja að þú þurfir að drekka. Það er hægt að draga úr því að menn brjóti af sér, það er hægt að koma í veg fyrir það […] Ef [barnagirnd] kemur fljótt fram, í upphafi kynþroska og þegar menn eru ungir þá er hægt að gera ýmislegt til að koma í veg fyrir þetta, eins og ráðgjöf.“

Fram hefur komið að Guðmundur var einnig kærður í ágúst 2017. Sævar Þór Jónsson, lögmaður annars pilts sem hefur kært Guðmund, kveðst hafa rekið á eftir kærunni við yfirvöld. Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur sagt að ekki hafi verið mögulegt að sinna málinu vegna annríkis. Hefur lögregla verið harðlega gagnrýnd vegna málsins. Þá er málið enn eitt hneykslismálið sem upp er komið hjá Barnavernd.

Samfélagið hefur leikið á reiðiskjálfi eftir að málið komst í hámæli og á venjulegur leikmaður erfitt með að átta sig á hvernig maður grunaður um jafn skelfileg brot hafi fengið að starfa óáreittur með börnum og stýra heimilum þar sem brotin börn eiga sitt skjól.

DV hefur rætt við þolendur og ættingja sem og leitað svara hjá yfirvöldum og stofnunum sem hafa bent á hvert annað. Lögreglustjóri hefur nú viðurkennt að alvarleg mistök hafi átt sér stað og að læra þurfi af þessu skelfilega máli.

Ekki góður starfsmaður

„Ég kærði hann árið 2013. Það sem var erfiðast voru fyrstu viðbrögð dómsmálaráðherra og lögreglustjóra. Það virtist sem enginn ætlaði að bera ábyrgð á þessu skelfilega máli.“

Móðir annars drengs sem kærði Guðmund sakar hann um að hafa gefið syni hennar svefnlyf og síðan nauðgað honum. Segir hún ofbeldið hafa staðið yfir í mörg ár. Móðirin segir:

„Það er vont að verða vitni að því að fólk sé að tala um að hann hafi verið góður starfsmaður. Hann var ekki góður starfsmaður. Hann þóttist vera góður starfsmaður.“

Guðmundur Ellert hefur starfað á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti frá árinu 2010. Yfirmaður hans var Sigurður Hólm Gunnarsson. Samkvæmt heimildum DV voru Guðmundur og Sigurður Hólm félagar eða í sama vinahóp á yngri árum.

Mynd: ©DV ehf / Sigtryggur Ari

„Voru þið vinir áður en þú réðst hann í vinnu?“

„Nei, ég myndi ekki orða það þannig. Við vorum saman í FB,“ svarar Sigurður Hólm. „Við vorum kunningjar þar, en ég var ekki í neinu sambandi við hann frá árinu 1997 þangað til ég hóf störf hjá Barnavernd 2010. Ég var ekki í neinu sambandi við hann á þessu þrettán ára tímabili,“ segir Sigurður.

Grunaði fólk ekki neitt?

„Nei, ekki neitt,“ segir Sigurður. „Fólk er náttúrlega í áfalli að hann skuli vera grunaður um þetta, það má segja að hér innandyra sé sorgarstemning.“

Sigurður Hólm réð Guðmund í vinnu þegar heimilið í Breiðholti var opnað í breyttri mynd. Guðmundur hafði starfað á heimilinu sem hýsir brotin börn og unglinga, sem eiga erfitt heima fyrir. Þá bjó Guðmundur með unglingunum og svaf í húsinu í viku í senn á móti annarri konu.

„Þau bjuggu hér á meðan þau voru að vinna hérna og sváfu hérna eðlilega, einn á vakt, og héldu heimili hér. Svo var tekin ákvörðun af Barnavernd að breyta starfseminni, gera hana faglegri og víðtækari. Þá var auglýst eftir forstöðumanni til að taka við og móta þá starfsemi og ég var ráðinn til þeirra verka. Mitt fyrsta hlutverk var að auglýsa og ráða inn starfsfólk. Báðir starfsmennirnir sem voru að vinna hérna áður en þessu var breytt sóttu um, þar á meðal þessi maður.“

Var Guðmundur ráðinn og starfaði á heimilinu um árabil og svo síðar á öðru heimili. Í viðtali við Stöð 2 beygði Sigurður Hólm af þegar hann ræddi um málið.

Guðmund Ellert Björnsson. Skjáskot af Facebook.
Guðmund Ellert Björnsson. Skjáskot af Facebook.

Lét lögreglu vita árið 2008

Þolandi Guðmundar kveðst hafa leitað til Stígamóta og sagt fólki þar á bæ sem og lögfræðingi sínum að Guðmundur væri í vinnu með börnum. Þá hafi hann greint lögreglu frá því að þannig væri í pottinn búið.

„Lögregla fékk að heyra þetta, hvort sem þeir finna það í skránni eða ekki. Systir mín lét Barnavernd vita árið 2008, eða þegar ég trúði henni fyrir því ofbeldi sem ég var beittur. Þá var ég sjálfur á milli 19 og 20 ára.“

Árið 2009 veiktist ungi maðurinn af kvíða og þunglyndi. Hann ákvað að vinna í sínum málum og takast á við það sem hafði gerst í fortíðinni. Lokahnykkurinn var, eins og áður segir, að leggja fram kæru í þeirri von að ef fleiri myndu stíga fram þá væri möguleiki að stöðva Guðmund. Þrátt fyrir fleiri kærur og tilkynningar gerðist það ekki.

„Það var erfitt skref að kæra þar sem við erum náfrændur. En mér tókst það og öðlaðist ró. Ég lauk námi og er nú í góðri vinnu þar sem ég á góða að. En eftir að málið blossaði upp í fjölmiðlum hrundi ég niður. Ég á góða vinnufélaga og vini sem standa eins og klettur við bakið á mér. Þá veitir fjölskyldan mér einnig mikinn stuðning.“

Ungi maðurinn leitaði sér aðstoðar hjá Stígamótum í vikunni til að styrkja sig eftir að málið kom upp á nýjan leik.

„Hann brýtur á mér á heimili félagsþjónustunnar. Öll brotin eru á heimili félagsþjónustunnar í skjóli Reykjavíkurborgar,“ segir maðurinn. Ofbeldið stóð yfir í mörg ár. Hann hefur ekki hitt önnur meint fórnarlömb mannsins.

„Hann notaði engin lyf á mig. Hann þurfti þess ekki. Hann hafði fullkomið traust, hann var frændi minn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Í gær

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt
Fréttir
Í gær

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar