fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

13.4 milljónir í tvo nýja bíla fyrir mæðginin í Krýsuvík: 300 metrar í vinnuna – Starfsmenn furðu lostnir

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 5. febrúar 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ýmislegt athyglisvert kemur í ljós þegar bílaviðskipti Krýsuvíkursamtakanna eru skoðuð. Þannig fjárfesti Lovísa Christiansen framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna í glænýrri Skoda Octavia-bifreið fyrir sjálfa sig í nóvember 2012. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna. Það verður að teljast einkennileg ráðstöfun á meðferðarheimili, sem að sögn forsvarsmanna nær varla endum saman. Lovísa starfar í Hafnarfirði og er skrifstofa Krýsuvíkursamtakanna um 300 metrum frá heimili hennar. Frá árinu 2012 til 2016 var bílnum ekið rúmlega 40 þúsund kílómetra. Samkvæmt heimildum DV á hún afar sjaldan erindi á meðferðarheimilið sjálft í Krýsuvík sem segja að þangað komi hún um einu sinni í mánuði. Upphæðin var um 7 prósent af þeirri upphæð sem Krýsuvíkursamtökin fengu frá ríkinu það árið.

Lovísa býr að Kirkjuvegi 15 í Hafnarfirði en skrifstofa Krýsuvíkursamtakanna er að Austurgötu 8. Útaf einstefnu er aksturfjarlægðin um 1,1 kílómetri en fótgangandi er vegalengdin um 300 metrar.
300 metrar í vinnuna Lovísa býr að Kirkjuvegi 15 í Hafnarfirði en skrifstofa Krýsuvíkursamtakanna er að Austurgötu 8. Útaf einstefnu er aksturfjarlægðin um 1,1 kílómetri en fótgangandi er vegalengdin um 300 metrar.

Lovísa lét svo samtökin greiða 8.7 milljón króna fyrir glænýjan pallbíl handa syni hennar Þorgeiri Ólasyni. Þorgeir starfar sem forstöðumaður meðferðarheimilisins. Glæsikerran var keypt í maí í fyrra. Þá greiddu Krýsuvíkursamtökin yfir hálfa milljón í breytingar á bílnum. Var því greitt vel á tíundu milljón fyrir bílinn handa forstöðumanni lítillar meðferðarstöðvar. Krýsuvíkursamtökin fengu 112 milljónir af almannafé á síðasta ári og hefur stjórnarformaðurinn, Sigurlína Davíðsdóttir, víða, bæði í ræðu og riti, talað um hversu litla fjármuni samtökin hafa á milli handanna. Tryllitækið sem Þorgeir forstöðumaður fékk frá framkvæmdastjóranum móður sinni kostaði því um 10 prósent af þeim fjármunum sem samtökin fengu á fjárlögum frá ríkinu á síðasta ári. Hvorki framkvæmdaráð né aðrir stjórnarmenn en þær Lovísa og Sigurlína vissu af bílakaupunum. Starfsmenn voru furðu lostnir að svo dýr bíll væri keyptur fyrir peninga ríkisins fyrir jafnlítinn vinnustað.

Einkennileg bílaviðskipti

Bíllinn kostaði 8,7 milljónir króna en síðan var umtalsverðum upphæðum eytt í breytingar. Þá keyptu samtökin stærri dekk fyrir 300 þúsund krónur undir bílinn en á sama tíma var ekki til peningur fyrir nagladekkjum undir bíl sem flutti starfsmenn og skjólstæðinga á meðferðarheimilið.
8.7 milljónir Bíllinn kostaði 8,7 milljónir króna en síðan var umtalsverðum upphæðum eytt í breytingar. Þá keyptu samtökin stærri dekk fyrir 300 þúsund krónur undir bílinn en á sama tíma var ekki til peningur fyrir nagladekkjum undir bíl sem flutti starfsmenn og skjólstæðinga á meðferðarheimilið.

Mynd: Skjáskot af vef Heimsbíla

Þá hafa ýmisleg einkennileg viðskipti átt sér stað en rúmlega 30 ökutæki hafa verið keypt af samtökunum. Til dæmis keypti títtnefndur Þorgeir Ólason Dodge Ram 250 af Krýsuvíkursamtökunum í júní árið 2001 en þá höfðu samtökin haft afnot af bifreiðinni í þrjú ár. Þorgeir átti bifreiðina í tæp átta ár áður en hann seldi hana áfram í byrjun árs 2008. Þá keypti hann einnig Chevrolet-bifreið af samtökunum um mitt ár 2004 en áfram seldi hana síðan nokkrum mánuðum síðar. Þá keypti meðferðarheimilið dráttarvél af Þorgeiri í desember 2005 en þá hafði hann eingöngu átt vélina í rúma þrjá mánuði. Þá eignaðist barnabarn Lovísu forláta Suzuki Vitara-bifreið sem var áður í eigu samtakanna. Samkvæmt heimildum DV var sá gjörningur sagður vera laun til piltsins sem þá var 18 ára gamall.

Ekki til peningur en samt til peningur

Framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna fjárfesti í glænýrri Skoda Octavia-bifreið árið 2012 til eigin afnota. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna. Forsvarsmenn samtakanna hafa ítrekað talað opinberlega um að fjárhagsstaða félagsins sé afar slæm og því gæti þurft að loka meðferðarheimilinu. Um þrjú hundruð metrar eru frá heimili framkvæmdastjórans og að skrifstofu samtakanna.
Kvarta yfir peningaleysi Framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna fjárfesti í glænýrri Skoda Octavia-bifreið árið 2012 til eigin afnota. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna. Forsvarsmenn samtakanna hafa ítrekað talað opinberlega um að fjárhagsstaða félagsins sé afar slæm og því gæti þurft að loka meðferðarheimilinu. Um þrjú hundruð metrar eru frá heimili framkvæmdastjórans og að skrifstofu samtakanna.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í yfirlýsingu frá Krýsuvíkursamtökunum var sagt að hægt væri að festa á hann snjótönn til að ryðja veg til Krýsuvíkur. Aldrei hefur verið fest snjótönn á þennan bíl og þá hafði lítið sést til forstöðumanns eftir að upp komst að Þorgeir forstöðumaður hafði átt í óeðlilegum samskiptum við kvenkyns skjólstæðing. Þorgeir var sendur í sumarfrí og þegar DV spurðist fyrir um bílinn var hann settur á sölu.

Aðrir starfsmenn heimilisins ferðast saman til Krýsuvíkur, í ódýrum skrjóðum, og hefur staðgengill Þorgeirs, undanfarin misseri, tekið fram að hún þurfi ekki sérstakan vinnubíl heldur ferðist með öðrum starfsmönnum. Þá hefur DV heimildir fyrir því að fjárhagsstaða samtakanna hafi verið svo slæm að ekki voru keypt nagladekk undir bíl sem flytur starfsmenn milli staða. Á svipuðum tíma voru stærri dekk keypt undir lúxusbíl Þorgeirs fyrir um 300 þúsund krónur.

Í sömu yfirlýsingu svöruðu Krýsuvíkursamtökin fyrir harða gagnrýndi Landlæknisembættisins sem þykir fyrir neðan allar hellur að enginn starfsmaður eða starfsmenn séu á heimilinu eftir klukkan fjögur á daginn til níu á morgnanna. Ekki stendur til að breyta því þar sem ekki er að sögn stjórnarmanna Krýsuvíkur til fjármunir fyrir slíku, því eru sjúklingarnir einir í Krýsuvík í sirka 15 til 17 klukkutíma. Sú yfirlýsing um skort á fjármunum sé að kenna til að standa straum að því að tryggja öryggi sjúklinga vekur vitaskuld athygli þegar hægt er að eyða vel á annan tug milljóna í glæsikerrur fyrir peninga frá ríkinu fyrir mæðginin sem stjórna meðferðarstöðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu