fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Olga upplýsingafulltrúi spítalans: „Sunna var skorin upp vegna áverka af völdum umferðarslyss“

Talsmaður spítalans segir fullyrðingar Sunnu fjarstæðukenndar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 26. febrúar 2018 23:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsmaður spítalans í Malaga, þar sem Sunna Elvira Þorkelsdóttir lá inni frá miðjum janúar til síðasta föstudags, segir að hún hafi ekki legið inni á spítalanum eftir fall eða slys á heimili sínu í Marbella heldur vegna umferðarslyss. Spítalinn hafnar því einnig alfarið að Sunna hafi ekki fengið góða þjónustu á meðan hún lá þar inni og fullyrðingar hennar í íslenskum fjölmiðlum standist ekki skoðun.

Tekið skal fram að það þýðir ekki að Sunna hafi ekki fallið á milli hæða líkt og hún segir, en þetta eru þær upplýsingar sem eru skráðar í kerfið á spítalanum um Sunnu Elvíru og heldur talsmaður spítalans þessu ítrekað fram við DV. Jón Snæhólm, sem hefur verið talsmaður fjölskyldunnnar, vísar þessari yfirlýsingu spítalans alfarið á bug.

„Sunna var lögð inn á sjúkrahúsið 16.janúar, þar var hún skorin upp vegna áverka af völdum umferðarslyss“

Sjá einnig: Sunna verður að komast heim: Þríhryggbrotin og lömuð eftir hræðilegt slys – Söfnun hrundið af stað

DV sendi ítarlega fyrirspurn til Hospital Universitario Virgen de la Victoria eftir að Sunna Elvira fullyrti í viðtölum við Stöð 2 og Fréttablaðið að hún fengi litla sem enga þjónustu á sjúkrahúsinu og fjölskylda hennar þyrfti að vera henni innan handar. „Það er enginn stofugangur eða neitt. Það koma ekki læknar reglulega til að athuga hvernig ég hef það, það er ekki tekinn blóðþrýstingur hjá mér. Það eru voða lítil afskipti af mér í rauninni, fyrir utan algjöra grunnþjónustu,“ sagði Sunna í viðtali við Fréttablaðið.

Spítalinn í Malaga þar sem Sunna Elvira lá inni frá miðjum janúar til síðasta föstudags þegar hún var flutt til Sevilla.

Spítalinn í Malaga þar sem Sunna Elvira lá inni frá miðjum janúar til síðasta föstudags þegar hún var flutt til Sevilla.

Mynd: Hospital Universitario Virgen de la Victoria

Lýsti hún því að spítalinn hafi ekki einu sinni gefið henni vatnsglas til að skola niður íbúfentöflu. „Mér var sagt að fara fram í sjálfsala til að kaupa vatn. Það er auðvitað engin leið fyrir mig að komast fram í sjálfsala, þannig ég mátti bara kyngja þessum töflum af íbúfeni, hryggbrotin og rifbeinsbrotin. Það er alveg til skammar hvernig þetta er hérna. Enda eru allar sjúkrastofur hér fullar af fjölskyldum sem eru að hugsa um sjúklingana.“

Talsmaður spítalans, Olga Ruiz Guerrero, segir fullyrðingar Sunnu í íslenskum fjölmiðlum fjarstæðukenndar. Allir sjúklingar séu með hnapp til að óska eftir þjónustu. Þar að auki sé túlkaþjónusta í boði 16 klukkutíma á sólarhring. „Hún fékk alla þá þjónustu sem hún þurfti á meðan hún lá inni á sjúkraþjálfunarsviði,“ segir í svari Olgu.

Greint var frá því í íslenskum fjölmiðlum að Sunna hefði fallið milli hæða á heimili sínu um miðjan janúar. Það stemmir ekki við upplýsingar spítalans. „Sunna var lögð inn á sjúkrahúsið 16.janúar, þar var hún skorin upp vegna áverka af völdum umferðarslyss.“

Talsmaður spítalans gat ekki svarað því hvar sjúkrabíllinn sótti Sunnu, það eina sem spítalinn hafi skráð niður um tildrög hryggbrots Sunnu sé að hún hafi lent í umferðarslysi. Spítalinn tók það sérstaklega fram í svarinu að lögreglan hafi heimsótt Sunnu ítrekað þegar hún lá inni en að hún hafi hafi verið flutt á sjúkrahús í Sevilla síðastliðinn föstudag. Eins og að framan greinir þýðir það ekki að Sunna hafi ekki fallið á milli hæða líkt og hún segir, en þetta eru þær upplýsingar sem eru skráðar í kerfið á spítalanum um Sunnu Elvíru og segja að hún hafi farið í aðgerð vegna áverka sem hafi verið tilkomnir vegna umferðarslyss.

„Þetta var ekkert bílslys“

„Ég hef séð teikningarnar af áverkunum og sé að þetta var ekkert bílslys“

Hvorki Sunna né foreldrar hennar svöruðu skilaboðum DV. Jón Kristinn Snæhólm, sem hefur verið talsmaður fjölskyldu Sunnu, segir að svar spítalans standist ekki skoðun. Hann hafi verið þarna sjálfur og aðbúnaðurinn hafi verið ólýsanlegur.

„Ég hef séð teikningarnar af áverkunum og sé að þetta var ekkert bílslys. Hún er lömuð upp að brjósti og það eru engir slíkir áverkar á henni að hún hafi verið lamin eða lent í bílslysi eða neitt slíkt. Skurðurinn er frá herðablöðunum niður að mjöðm,“ segir Jón Kristinn. Greint var frá í helgarblaði DV að eigandi bílaleigu í Torrevieja ætli að kæra Sunnu og föður hennar fyrir bílþjófnað. Bíll sem parið tók á leigu hefur ekki skilað sér til eiganda bílaleigunnar. Jón Kristinn segist ekkert vita um bílinn né um hús Sunnu og eiginmanns hennar sem er á sölu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hann segir að aðbúnaðurinn á Hospital Universitario Virgen de la Victoria sé ólýsanlegur.

„Hún er kominn á þennan nýja spítala. Þar var hún spurð hversu oft var skipt um þvaglegg og hún sagði aldrei. Þá fengu þeir bara taugaáfall.“

En spítalinn hafnar þessum ásökunum og segir til dæmis að allir sjúklingar séu með hnapp?

„Þú ýtir ekkert á hnapp til að láta skipta um þvaglegg. Þú ýtir á hnapp ef þig vantar vatn eða eitthvað slíkt. Ég var þarna og það er ekkert hægt að lýsa þessum aðbúnaði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”