fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Elínborg: „Á Íslandi líta menn á fátæklinga eins og jólasveina“

Auður Ösp
Föstudaginn 23. febrúar 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ólst ekki upp við fátækt, en ég ólst upp við fátækrafóbíu; ég þyrfti að mennta mig til þess að forðast fátækt. En mér finnst það fáu breyta, að minnsta kosti ekki í þeim umönnunarstörfum sem konur sinna. Á Íslandi talar fólk yfirleitt ekki um fátækt út af fátækrafóbíunni,“ segir háskólaneminn Elínborg sem starfar í Klifurhúsinu. Hún telur mikilvægt að hefja hin hefðbundu „kvennastörf“ til vegs og virðingar.

Elínborg er ein þeirra sem stíga fram í átaki sem nýlega var hrundið af stað af Vor í verkó, hreyfingu Sólveigar Önnu Jónsdóttur frambjóðanda til formanns Eflingar.

Átakið heitir „Fólkið í Eflingu“ en á facebooksíðu átaksins má finna sögur nokkurra meðlima stéttarfélagsins.

Elínborg vinnur í Klifurhúsinu með náminu í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskólann. „Ég tek ekki námslán, vinn frekar með skólanum. En ég er líka svo heppin að mamma leigir mér, bróður mínum og kærustunni íbúð á sanngjörnu verði. Annars væri þetta ekki hægt.“

Hún segir skiðulagsfræðina hafa vakið sig a til umhugsunar um samfélagsformið og feminískar greiningar á borgarskipulaginu hafa sérstaklega vakið áhuga hennar.

„Hvernig ólaunuð störf kvenna á heimilum eru orðin stofnanavædd. Börnin fóru af heimilinu á leikskóla og konan flutt þangað að sjá um börnin. Gamla fólkið á elliheimili og konan þangað. Konurnar elda í mötuneytum og við flytjum inn konur í þrifin. Störf kvenna eru ekki metin að verðleikum, þær geta varla brauðfætt sig upp á eigin spýtur eða lifað sjálfstæðu lífi á kaupinu. Samt eru þetta oft mikilvægustu störf samfélagsins.

Ég vil taka kvenna- og umönnunarstörfin og veita þeim athygli og virðingu þegar við skipuleggjum umhverfi okkar. Það vantar mikið upp á jafnrétti og mér finnst íslenskur femínismi snúast um blekkingu ef markmiðið er að konur fái sömu tækifæri og karlar til að komast í valdastöður og kúga jafnt og þeir.

Ég og vinir mínir teljum jólasveina táknmyndir fátæktar en við okkur blasa óknyttapiltar, ef ekki beinlínis glæpamenn. Jólasveinasögurnar eru um pilta að leita björgunar; hanga á glugga og horfa inn á fólkið sem sat að snæðingi. Reyndu bara að næla sér í bita og svo framvegis, þeir voru fátækir og svangir. Á Íslandi líta menn á fátæklinga eins og jólasveina.“

Nánast ómögulegt að koma sér upp þaki yfir höfuðið

Eddi Bjarki er annar meðlimur Eflingar sem stígur fram í tengslum við átakið en hann hefur starfað við innflutning á hjólbörðum í meira en þrjá áratugi.

„Mér finnst allt mjög svo bogið við að venjulegt verkafólk í fullri vinnu nái ekki endum saman. Því er gert nánast ómögulegt að koma sér upp þaki yfir höfuðið en það hlýtur að vera frumskilyrði fyrir tilvist okkar, ekki síst hér norður undir pól. Hvað þá að leyfa sér að njóta þess sem telst til lífsgæða og kostar peninga.

Eddi Bjarki. Ljósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó
Eddi Bjarki. Ljósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó

Þetta segir mér að eitthvað stórkostlegt sé að og að þetta reikningsdæmi gengur ekki upp. Þetta hlutabréfa-, arðsemis- og græðgisæði sem allir virðast svo uppteknir af. Allir þurfa að græða ofboðslega mikið, nema sá sem vinnur verkin.”

Sárnar þegar talað er níðrandi um útlendinga

Pontus segir einnig sögu sína en hann er félagsliði á elliheimili og hefur starfað þar í átta ár. Hann segir starfið mjög gefandi.

„Umönnun er ákaflega nauðsynlegt starf og maður þarf að leggja töluvert á sig til að fá aðra til að brosa. En þegar það tekst er það svo ótrúlega gefandi. Skjólstæðingarnir þjást margir af alzheimer eða elliglöpum, þeim fylgja oftar en ekki andleg þyngsli og depurð og því er mikil áskorun að létta mönnum lundina. Gamla fólkið er oftast lúið eftir langa starfsævi og á rétt á góðu ævikvöldi.“

Pontus hefur einnig unnið á leikskóla og segir störfin að mörgu leyti svipuð.

„Bæði líkamleg erfiðisstörf, mikið borið og bograð. Þrátt fyrir að krakkarnir séu fullir af orku þurfa þeir svipaða aðhlynningu og ástúð og gamla fólkið. Hins vegar er sorglegt að starfsmannaskipti eru tíð vegna lágra launa því störfin eru ekki metin að verðleikum.

Pontus. LJósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó
Pontus. LJósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó

Þó eru allir sammála um að börn og aldraðir eigi rétt á að búa við öryggi, rétt á að ganga að starfsfólki sínu vísu. Á Íslandi starfar fjöldi útlendinga við umönnun og mér sárnar þegar talað er niðrandi um þá. Unglingur í sumarstarfi sem talar góða íslensku kemur seint í stað hlýrrar og lífsreyndrar konu af erlendri grund þótt hún tali bjagaða íslensku.“

Átti að ganga í hjónaband í Gana

Ruth er starfsmaður í býtibúri á Landspítalanum og hefur starfað þar í rúmlega tvö ár. Hún er fædd í Akkra í Gana en í heimalandinu stóð henni ekki annað til boða en að ganga í hjónaband.

„Pabbi minn er höfuð fjölskyldu af aðalsættum og ættmenni mín telja réttast að ganga að eiga skyldmenni, til að halda blóðinu „hreinu“. Mér var ætlað að gera það en vildi ekki. Ég vildi komast í burtu, langt, langt í burtu. Ég lauk stúdentsprófi og síðan lá leiðin í tækniskóla þar sem ég lauk ritaranámi.

Ruth. Ljósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó
Ruth. Ljósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó

Frænka mín hafði flutt til Íslands, gifst og eignast börn. Hún var ekki heilsuhraust og bauð mér að koma til sín, sjá um heimilið og börnin í eitt ár. Ég sló til og að árinu loknu heimtaði pabbi að ég kæmi heim og gengi í hjónaband. Ekki hugnaðist mér það enda ástfangin af ótrúlega heillandi Íslendingi. Við gengum í hjónaband, eigum tvö börn og búum í eigin íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Ég er íslenskur ríkisborgari.“

Ruth starfaði fyrst um sinn við ræstingar á Íslandi en upplifði ósanngjarnar kröfur um vinnuframlag.

„Ég starfaði fyrst hjá stórfyrirtæki sem sér meðal annars um þrif, ég var send í leikskóla og kunni því ágætlega. Þegar ég kom úr fæðingarorlofi höfðu kröfur og aðstæður breyst nokkuð; mér var gert að þrífa meira, hraðar og fyrir lægri laun. Ég var ófrísk af öðru barninu þegar mér var skipað að þrífa sundlaug. Klórinn í sundlauginni fór illa í mig, barnshafandi, og læknir ráðlagði mér að hætta. Ég sagði upp því upp.“

Ruth er nú í 80 prósent starfi á Landspítalanum en með aukavinnu nær hún að leggja fyrir 220.000 krónur á mánuði. Hún lætur sig dreyma um að setjast á skólabekk í framtíðinni.

„Ég er svo heppin að tengdafjölskylda mín stendur með mér í einu og öllu, ég læt ekki bjóða mér yfirgang og kúgun.“

Örugg á Íslandi

Roxana er starfsmaður á American Style en hún kemur frá Rúmeníu og flutti hingað til lands fyrir tilstilli systur sinnar sem hefur verið búsett á Íslandi í nokkur ár. Roxana er með háskólagráðu í frönsku og frönskum bókmenntum og vann við túlkun og þýðingar áður en hún flutti til Íslands. Eiginmaður hennar er grafískur hönnuður og vinnur enn þá fyrir sitt fyrirtæki frá Íslandi.

„Ég og dóttir mín fluttu frá Nýju Dhelí til Reykjavíkur síðasta sumar. Damyia dóttir mín er fimm ára og pabbi hennar er indverskur en fjölskyldan sameinaðist á ný í Reykjavík þegar hann kom fyrir tveim mánuðum síðan. Við erum bara að prófa og sjá til hvort við fjölskyldan getum búið okkur til líf á Íslandi. Við eigum húsnæði og eigur sem við skildum eftir í Delí og getum því alltaf snúið aftur. Það var vegna öryggis dóttur okkar sem hugmyndin um Ísland sem heimili kveiknaði. Okkur leið ekki eins og við værum örugg með barn í Delí, það getur allt gerst, börn hafa jafnvel verið numin á brott á miðjum skóladegi.“

Roxana. LJósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó
Roxana. LJósmynd/Fólkið í Eflingu #voríverkó

Við systurnar vinnum báðar á American Style á sitthvorri 2-2-3 vaktinni. Þannig skiptumst við á að sinna dóttur minni sem er á leikskóla í Reykjavík. Dóttir mín saknar vina sinna í Delí en henni gengur vel hérna og hefur lært íslensku. Mér finnst tilbreyting að vera frá tölvunni og fá að afgreiða kók og hamborgara. Hérna hitti ég fólk. Hérna nota ég tungumálakunnáttu mína og franskir ferðamenn eru hæst ánægðir þegar heyra mig svara sér á frönsku.“

Nánar má lesa um átakið á facebooksíðunni Fólkið í Eflingu #voríverkó.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“