fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Hótar að kæra Sunnu og föður hennar: „Hringdu og ég útskýri. Keli“

Kjaftasögur draga Annþór inn í mál Sunnu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. febrúar 2018 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Farsinn á Spáni, mál Sunnu Elviru Þorkelsdóttir, heldur áfram að vinda upp á sig og taka nýjar stefnur. Eigandi bílaleigu á Spáni hefur hótað að kæra Sunnu og föður hennar fyrir bílþjófnað. Steve Hicks, eigandi bílaleigunnar, staðfestir það í samtali við DV.

Kjaftasögur á kreiki

Kjaftasögur berast á milli manna og taka breytingum og góðir sögumenn bæta jafnvel í áður en þeir hvísla henni til næsta manns í heita pottinum eða í matarhléinu í vinnunni á meðan aðrir illkvitnir spinna lygaþræði. Í þessari umfjöllun er farið yfir það helsta sem hefur gerst í málinu sem og nýjar vendingar. Sumir halda fram að Sunna hafi hent sér sjálf niður af annarri hæð í glæsihýsinu á Marbella á meðan aðrir eru vissir um að þarna hafi verið um að ræða handrukkun sem fór úrskeiðis. Sjálf hefur Sunna sagt að um hafi verið að ræða slys og þau hafi verið þrjú heima, hún, Sigurður Kristinsson og barnið þeirra. Hún er viss um að Sigurður hafi ekki slasað hana en kveðst ekki muna eftir hvað hafi gerst. Aðrir vilja meina að Sunna sé höfuðpaurinn í málinu og sé að fara með ósannindi í hverju orði. Fáir taka mark á slíkum ljótum sögum. Ljóst er að Sunna er fórnarlamb og hefur slasast alvarlega og þarf nauðsynlega á læknisþjónustu að halda svo von sé að hún nái bata.

Þá er ein saga sem hefur borist oftar en einu sinni inn á íslenska fjölmiðla og hún er að Annþór Kristján Karlsson hafi verið valdur að slysinu. Annþóri sárnar sú umræða og skilur hvorki upp né niður í þessum kjaftasögum. Hann hafi ekki farið til útlanda í marga mánuði.

Þjóðin hefur fylgst agndofa með málinu eins og áður segir. Sunna Elvira liggur lömuð á sjúkrahúsi í Malaga eftir að hafa að hafa fallið milli hæða á heimili sínu í spænsku borginni. Hefur hún biðlað til íslenskra yfirvalda um aðstoð við að komast á betra sjúkrahús sem getur veitt henni nauðsynlega meðferð við meiðslum hennar. Spænsk lögregluyfirvöld hafa þó virt þær óskir að vettugi og segir Sunna Elvira að henni sé í raun haldið í gíslingu þar ytra. Það sé gert til þess að setja pressu á hana um að veita upplýsingar um umfangsmikið fíkniefnamál, kennt við Skáksamband Íslands, sem eiginmaður Sunnu Elviru, Sigurður Kristinsson, er flæktur inn í.

Já, við vorum öll heima. Ég, maðurinn minn og dóttir mín.

Skáksmyglsmálið svokallaða hófst þegar pakki frá Spáni barst til skrifstofu Skáksambands Íslands í Faxafeni. Reyndist hann innihalda um sex kíló af fíkniefnum sem falin voru í verðlaunagrip fyrir skák. Sendingin barst frá fyrirtækinu Marmoles y granitos interlap í Altea á Spáni.

Örlagarík vika

Sunna Elvira var í löngu viðtali á Stöð 2. Í þessari umfjöllun ætlum við að skoða hvað hafi gerst síðan þá en óhætt er að segja að vikan hafi verið örlagarík. Þegar Sunna var spurð hvort þau hefðu verið öll heima sagði Sunna: „Já, við vorum öll heima. Ég, maðurinn minn og dóttir mín.“

Í samtali við DV fljótlega eftir slysið sagði Sigurður að hann hefði ekki verið til staðar. Hvort hann hefði ekki verið á heimilinu, því svaraði Sigurður ekki. Þá sagði Sunna að eiginmaður hennar væri ekki ofbeldismaður. Sigurður er hins vegar með dóm á bakinu. Þá sagði Sunna að hún hefði ekki séð Sigurð í nokkra daga og skyndilega heyrt af honum á Íslandi og ekki vitað að hann væri flæktur í málið. Í Fréttablaðinu er fullyrt að Sigurður hafi viðurkennt smyglið fyrir Sunnu áður en hann fór til Íslands. Hann hefur einnig sagt að Sunna hafi ekki átt neina aðkomu að málinu. Sunna Elvira hefur einnig haldið fram að ævintýraþráin ein hafi leitt hana og eiginmanninn til Spánar. Raunveruleikinn er sá að Sunna Elvira flúði til Spánar ásamt eiginmanni sínum, sem skildi eftir sig slóð svika hér á landi.

Mynd frá húsi Sigurðar og Sunnu í Marbella. Það er nú til sölu.
Mynd frá húsi Sigurðar og Sunnu í Marbella. Það er nú til sölu.

Þá greindi Vísir frá því að hús Sunnu og Sigurðar hefði verið sett á sölu fyrir litlar 172 milljónir. Þá sagði DV frá því að sjúkraflugið kostaði 4,1 milljón en ekki 5,5 eins og fjölskyldan hefur stöðugt haldið fram. Það skal tekið fram að eftir að DV kannaði verð á sjúkraflugi á milli Íslands og Spánar kom í ljós að verðið var á milli 3,5 til 4 milljónir. Það var Jón Kristinn Snæhólm sem hafði milligöngu um að láta DV fá í hendur pappíra sem sýndu að verðið væri 1,5 milljónum lægra en áður hafði verið haldið fram og gerði hann það með glöðu geði og taldi að um misskilning hefði verið að ræða með verðið á flugfarinu.

David López Cobos, maðurinn sem sendi pakkann til Íslands.
David López Cobos, maðurinn sem sendi pakkann til Íslands.

Voru saman á pósthúsinu

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Sigurður og Sunna Elvira hafi komið á pósthús DHL í Altea nokkrum dögum áður en pakkinn var póstlagður. Altea er nálægt Alicante, rúma 350 kílómetra frá heimili þeirra Sigurðar og Sunnu í Marbella. Sá sem er skráður fyrir pakkanum heitir David López Cobos og fór hann með pakkann í póst þann 26. desember. Pakkinn kom til Íslands í byrjun janúar og var svo afhentur Skáksambandinu 9. janúar eftir að hafa verið tollafgreiddur. Lögreglan vissi af fíkniefnunum í pakkanum og handtók fjóra vegna málsins, bæði á skrifstofu Skáksambandsins og í húsnæði Hvíta riddarans í Mosfellsbæ.

Mynd af vef Mármoles y Granitos Interlap.
Mynd af vef Mármoles y Granitos Interlap.

Marmoles y granitos interlap sérhæfir sig í smíði hluta úr marmara og graníti, ásamt því að útvega borðplötur og slíkt þá er einnig hægt að panta hjá þeim fíngerðari hluti úr marmara líkt og skákverðlaunagrip. Pakkinn sem sendur var til Íslands var ansi þungur, samkvæmt heimildum DV var hann 80 sentimetrar á allar hliðar og vó rúmlega 30 kíló. Sendingarkostnaðurinn var í samræmi við það, 463 evrur eða rúmlega 57 þúsund krónur. Fyrirtækið segir að aðilinn sem hafi pantað vöruna hafi fengið pakkann í sína vörslu áður en starfsmaðurinn fór með hann til DHL. Fyrirtækið hefur ekki viljað svara fyrirspurnum DV um hver hafi pantað vöruna. Þá hefur annar maður en David López svarað síma hans og sagt að hann sé ekki við.

Eigandi bílaleigu hótar að kæra

Á jóladag 2017 leigðu Sigurður Kristinsson og Sunna Elvira Þorkelsdóttir Renault Megane-bifreið í einn mánuð af bílaleigu í smábænum La Fuenta. Sigurður sendi skilaboð til eiganda bílaleigunnar um að þau gistu við El Plantío-golfvöllinn í Alicante og hvort hægt væri að fá bílinn sendan þangað. Hann þyrfti að fá bíl daginn eftir í síðasta lagi og spurði hvort það væri þak á kílómetrafjöldanum. „Hann verður aðeins notaður í fjölskylduerindum núna. Spyr bara sem varúðarráðstöfun.“

Sigurður sendi skilaboð á eiganda bílaleigunnar um jólin og bað um að fá að leigja bíl. Samskipin voru kurteisisleg.
Fyrstu samskiptin Sigurður sendi skilaboð á eiganda bílaleigunnar um jólin og bað um að fá að leigja bíl. Samskipin voru kurteisisleg.

Annan dag jóla fengu þau Hyundai-bifreið leigða til að sækja foreldra Sunnu á flugvöllinn og 28. desember fengu þau Renault-bifreiðina afhenta í Torrevieja og greiddu 100 evra tryggingu. Skila átti bílnum klukkan 13.00 þann 26. janúar en þegar það gerðist ekki sendi eigandi bílaleigunnar eftirfarandi skilaboð til Sigurðar:

„Getið þið haft samband við okkur á WhatsApp sem allra fyrst því að bílnum átti að vera skilað í dag eins og samið var um … Við erum búin að leigja hann aftur út þar sem þið sögðust ekki hafa meiri not fyrir hann.“

Dæmi um samskipti eiganda bílaleigunnar við manninn sem kallaði sig Kela.
Samskiptin við Kela Dæmi um samskipti eiganda bílaleigunnar við manninn sem kallaði sig Kela.

Faðir Sunnu tvídæmdur

Þá var haft samband við bílaleiguna úr síma Ólafs Þorkels Þórissonar, föður Sunnu Elviru, og beðið um heimild til að hafa bifreiðina til 3. febrúar. Þegar hringt var í síma Ólafs Þorkels vildi viðkomandi ekki ræða við blaðamann. Ólafur Þorkell, faðir Sunnu Elviru, hefur í tvígang hlotið fangelsisdóm vegna fíkniefna, fyrst árið 1986 og svo aftur árið 2016. Á níunda áratugnum var hann dæmdur í sjö mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir smygl á 2,3 kílóum af hassi til landsins. Samkvæmt dómi þá keypti hann hassið í Amsterdam í Hollandi og flutti til landsins í því skyni að endurselja það. Hann var handtekinn við komu til landsins í október árið 1984.

Ólafur Þorkell skýrði þá málsatvik svo að hann hafi farið til Hollands til að kaupa bíl. Hann hafi þó frétt af því frá þáverandi unnustu sinni, sem er ekki nafngreind í dómnum og því óvíst hvort sé móðir Sunnu Elviru, sem fæddist ári eftir að dómur féll, og bróður sínum að tollverðir hygðust fara í verkfall. Því gæti það verið vænlegur kostur að festa kaup á fíkniefnum í Hollandi með það í huga að flytja til landsins meðan tollverðir væru uppteknir við stéttabaráttu. Það gekk þó ekki því tollverðir fundu fíkniefnin í farangri hans.

Það eru tíu ár síðan og ég hef ekki komið nálægt fíkniefnamálum síðan.

Nokkrum árum síðar, eða árið 1994, flæktist Ólafur Þorkell aftur í smyglmál, þá kókaínsmygl. Rétt er að taka skýrt fram að hann hlaut ekki dóm fyrir það. Í vikublaðinu Eintak frá þessu ári var greint frá því að Þór Karlsson, þá um þrítugt, hafi verið handtekinn á flugvelli í Kólumbíu með 250 grömm af kókaíni á sér. Ferðafélagi Þórs í þeirri ferð var Ólafur Þorkell.

Í viðtali við Eintak sagðist Ólafur Þorkell hafa verið að heimsækja fjölskyldu sína í Kólumbíu og Karl hafi slegist í för. Hann sagðist ekki hafa komið nálægt smyglinu og hafa grunað félaga sinn um að vera flæktan í slæm mál. „Ég hafði ekkert með þetta að gera og þykir leiðinlegt ef verið er að bendla mig við málið,“ sagði Ólafur Þorkell. Hann var enn fremur spurður út í dóminn sem hann hlaut á níunda áratugnum og svaraði hann þá: „Það eru tíu ár síðan og ég hef ekki komið nálægt fíkniefnamálum síðan.“

Auk þessa fékk Ólafur Þorkell þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í hittifyrra fyrir fíkniefnalagabrot. Hann var gómaður í nóvember árið 2015 með 50 kannabisplöntur á heimili sínu í Hveragerði. Hann var auk þess dæmdur fyrir að hafa flutt til lands 250 grömm af Bali Shag-reyktóbaki sem fannst við leit tollvarða við komu hans frá Bretlandi. Í þeim dómi kom fram að Ólafur Þorkell hefði einu sinni áður hlotið dóm, þá fyrir hasssmyglið á níunda áratugnum.

Samskiptin við bílaleiguna

Eigandi bílaleigunnar segir að hann ætli að kæra Kela og dóttur hans fyrir að stela bílnum.
Síðustu samskiptin Eigandi bílaleigunnar segir að hann ætli að kæra Kela og dóttur hans fyrir að stela bílnum.

Eftir að bíllinn skilaði sér ekki sendi eigandi bílaleigunnar skilaboð í síma Þorkels:

„Skilið svo bílnum á réttum tíma núna. Skila átti bílnum síðasta miðvikudag áður en maðurinn endaði í fangelsi. Ef enginn hefði haft samband hefðum við tilkynnt hann stolinn.“

Þann 31. janúar var samið um að hafa bílinn til 9. febrúar en bílnum var ekki skilað. Þann 12. febrúar fékk bílaleigan senda stöðumælasekt frá þeim tíma er Sigurður og Sunna höfðu bílinn og 13. febrúar sendi Þorkell svohljóðandi skilaboð:

„Það virðist sem bílnum hafi verið stolið. Hringdu og ég útskýri. Keli.“

Ég þarf tilkynna til lögreglunnar að þú og dóttir þín hafi stolið bílnum mínum.

Eigandinn svaraði:

„Láttu mig vita undir eins. Bíllinn var leigður Kris og dóttur þinni. Þú ert fjölskyldan hennar og hún getur ekki keyrt þannig að ég gerði ráð fyrir að þú keyrðir bílinn. Ég hefði aldrei leyft neinum öðrum að keyra bílinn sem ég hef engar upplýsingar um.“

Föstudaginn 16. febrúar bauð eigandinn þeim þá að kaupa bílinn til að losna við málið. 1.000 evrur fyrir bílinn og 340 fyrir leiguna og sektina og tók Þorkell því boði.

Á laugardeginum hafði bílnum hvorki verið skilað né greitt fyrir hann. Bíllinn fékk sektarmiða af lögreglunni í Alicante þann 14. febrúar, við það varð eigandinn mjög ósáttur. Hann sendi svo eftirfarandi skilaboð:

„Það hringdi maður í mig í gær og sagði að bílnum yrði skilað í dag. Ég veit ekki hvað er í gangi hjá þér, honum eða dóttur þinni en ég þarf tilkynna til lögreglunnar að þú og dóttir þín hafi stolið bílnum mínum.“ Síðan hefur eigandinn ekkert frétt af bílnum.

Kjaftasögur – „Er fólk í alvörunni að segja þetta?“

Ég og Siggi erum vinir og ég á ekkert sökótt við hann.

Líkt og greint hefur verið frá eru ýmsar kjaftasögur á kreiki varðandi slysið og dópinnflutninginn. Ein af þeim er að Annþór Kristján Karlsson sem var töluvert í fréttum á árum áður fyrir handrukkun tengist málinu. Slúðrað er um að hann hafi hrint Sunnu Elviru og hefur sú saga borist inn á borð DV úr nokkrum áttum sem og á fleiri fjölmiðla. Þessi kjaftasaga er tóm þvæla og segist Annþór í samtali við DV ekki einu sinni hafa farið til útlanda síðan hann losnaði úr fangelsi nýverið.

Annþór Karlsson.

Annþór Karlsson.

Mynd: Björn Blöndal

Annþór virðist hafa ákveðinn húmor fyrir þessu þótt honum þyki það miður að svona sé talað um hann þar sem hann sé nú á beinu brautinni. „Er fólk í alvörunni að segja þetta? Ég er bara ekki að trúa þessu. Ég hef ekki einu sinni farið til útlanda eftir ég losnaði,“ segir Annþór og hlær.

Hann telur líklegast að þessi kjaftasaga hafi sprottið upp úr annarri kjaftasögu, um að íslenskir handrukkarar hafi farið til Spánar og beri ábyrgð á falli Sunnu. „Það eru auðvitað einhverjar kjaftasögur um það að það hafi farið einhverjir til að handrukka þau úti, frá Íslandi. Ég held að það sé nú líka algjört rugl. Ætli þetta sé ekki eitthvað sprottið upp úr því, einhver segir að Íslendingar hafi farið út og þá segir annar: „Það er pottþétt Annþór“. Ég og Siggi erum vinir og ég á ekkert sökótt við hann. Það væri nú auðvelt að kanna hvort ég hafi verið á faraldsfæti á þessum tíma eða ekki,“ segir Annþór.

Hann segir að það sé helst að frétta hjá sér að hann sé bara á fullu í vinnu eftir að hann losnaði við ökklabandið í desember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”