fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Myntsafn Seðlabankans á Safnanótt: „Tvö þúsund króna seðillinn sá eini sem við höfum fengið kvartanir yfir“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 2. febrúar 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Safnanótt hefur verið hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík frá árinu 2005. Þá er opið í flestum söfnum fram á nótt, ókeypis aðgangur og yfirleitt eitthvað um að vera á hverju safni, svo sem fyrirlestrar eða tónleikar. Myntsafn Seðlabankans og Þjóðminjasafns verður opið frá klukkan 19 til 23 af því tilefni í húsi Seðlabankans við Kalkofnsveg. Helsta áhersla safnsins að þessu sinni verða orður og heiðurspeningar. En einnig verður hin fasta sýning á íslenskri mynt til staðar.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, býður fólk velkomið og Sigurður Helgi Pálmason, safnstjóri, mun flytja erindi um opinberar orður og heiðurspeninga á Íslandi og orður sem Íslendingar hafa hlotið erlendis fyrir hernað og friðargæslustörf. Þar má meðal annars sjá Nóbelsverðlaunaorðu Halldórs Laxness og járnkross íslenska njósnarans Ib Árnasonar Riis, sem er 103 ára í dag og býr í Bandaríkjunum.

Skilaði henni þegar Ísland fékk sjálfstæði
Fálkaorða Kristjáns X konungs Skilaði henni þegar Ísland fékk sjálfstæði

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fálkaorður, Nóbelsverðlaun og járnkrossar

Á áttunda þúsund Íslendingar hafa hlotið orður eða heiðursmerki, þar af 7401 hlotið fálkaorðuna. Meðal annarra orða má nefna orðu Rauða krossins, sem menn hlutu fyrir mannúðarstörf, skjöld Danakonungsins Kristjáns X og lýðveldisorðuna frá 1944. Sigurður segir: „Hún var smíðuð í Bandaríkjunum og þegar hún kom til Íslands tóku þingmenn eftir því að á baki hennar stóð: Made in USA. Mönnum þótti það nú ekki nógu skemmtilegt á nýja lýðveldismerkinu okkar.“

Flestar orðurnar voru gerðar á sama tímabili, á fimmta og sjötta áratugnum. „Fálkaorðan kemur 1921 en var breytt 1944 og hefur haldist eins síðan. Þá breyttu þeir einnig mottóinu og dagsetningunni. Yngsti peningurinn er svo frá 2004.“

Óvíst af hverju sumir voru stimplaðir
Seðlar frá 18. öld Óvíst af hverju sumir voru stimplaðir

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Peningaútgáfa í pappírshallæri

Í hinni föstu sýningu er hægt að sjá seðla og mynt sem notuð hefur verið hér á landi síðan seint á 18. öld. „Fyrstu séríslensku seðlarnir komu til lands frá Danmörku 1778. Ríkisdalir sem voru auðir á bakhliðinni en íslenskur texti var prentaður fyrir seðlana sem voru sendir hingað. Hver einasti seðill var áritaður af bankastjóranum.“

Þegar seðlarnir sem notaðir hafa verið á Íslandi í gegnum aldirnar eru skoðaðir sést að pappírsskortur hefur háð peningaprentun, bæði erlendis og innanlands. Til að mynda lendi Íslandsbanki eldri í vandræðum og vantaði seðla í eitt skipti. Þá voru fengnir eldri seðlar og prentað yfir þá. Hér voru fyrstu seðlarnir prentaðir á stríðsárunum. „Þeir minna svolítið á Matador-peninga og voru svo þunnir að ef þú settir þá í rassvasann þá rifnuðu þeir. Þú sérð í gegnum hann og blekið lekur í gegn. Það var svo lítill pappír í landinu út af seinni heimsstyrjöldinni að þeir notuðu eina pappírinn sem var til.“

Rifnuðu við minnsta átak
Stríðsárapeningar Rifnuðu við minnsta átak

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Árið 1947 var meira til af pappír í landinu. Þá var gerð svokölluð eignakönnun til að skrá lausafjáreign landsmanna. Borgararnir þurftu að skila inn öllu handbæru fé og fengu nýja seðla í staðinn en nýju seðlarnir voru í öðrum lit.

„Þegar tvö þúsund króna seðilinn kemur inn til viðskiptabankanna þá fer hann ekki þaðan út aftur“
Stefán Jóhann Stefánsson „Þegar tvö þúsund króna seðilinn kemur inn til viðskiptabankanna þá fer hann ekki þaðan út aftur“

Mynd: VB

Kvartað út af nekt á tvö þúsund króna seðli

Á sýningunni má einnig sjá þá allar þá seðla og myntir sem nú er í gildi. Þar á meðal hinn umdeilda tvö þúsund króna seðil sem skartar mynd af Jóhannesi Kjarval listmálara. Seðillinn var gerður af því að of lítill munur reyndist á eitt þúsund og fimm þúsund króna seðlinum en engu að síður var hann það lítið notaður að hætt var að prenta hann.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri í Seðlabankanum, segir að tvö þúsund króna seðillinn hafi verið valinn fegursti seðillinn þegar gerð var könnun á safnanótt fyrir tveimur árum síðan, bæði af starfsmönnum og gestum. „Tvö þúsund króna seðillinn er sá eini sem við höfum fengið kvartanir yfir. Það er af því að á honum er nakin kona.“

Margir landsmenn eru ekki með það á hreinu hvort tvö þúsund króna seðillinn sé í gildi en Stefán fullvissar okkur um að svo sé. „Það hefur verið ákveðið að setja ekki meira af honum í umferð og það er tiltölulega lítið eftir af honum til. Þegar seðilinn kemur inn til viðskiptabankanna þá fer hann ekki þaðan út aftur.“ Verðmæti tvö þúsund króna seðla í umferð nú eru 220 milljónir sem gera 0,3 prósent af heildarverðmæti peningaseðla í landinu.

En hver er reynslan af tíu þúsund króna seðlinum?

„Mjög góð. Lang mest verðmæti, rúmlega 52 prósent eru í tíu þúsund króna seðlum.“ Til samanburðar má nefna að 35,5 prósent er í fimm þúsund króna seðlum, 9,5 prósent í þúsund króna seðlum og 2,4 prósent í fimm hundruð króna seðlum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu