fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Jafnar sig eftir strætisvagnsslys í Reykjavík og vill spila fyrir heiminn

Lefty Hooks & The Right Things

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 2. febrúar 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég brosti framan í fólk en lengi vel var ég lítill í mér og töluvert niðurdreginn eftir slysið. Það má segja að þetta hafi dregið aðeins úr mér kjarkinn um tíma. En núna er ég allur að koma til. Ég þarf bara að fara varlega í hreyfinguna og vera þolinmóður,“ segir tónlistarmaðurinn Lefty Hooks en hann lenti í óvenjulegu umferðarslysi í Reykjavík í síðastliðnum nóvember.

DV greindi frá þessu slysi og náði þá viðtali við Lefty rétt eftir atburðinn. Þar segir meðal annars:

Lefty var farþegi í vagninum og þó að hann hafi ekki setið framarlega slasaðist hann lítillega við það að sæti fyrir framan hann brotnaði og marðist hann nokkuð. Lefty er eðlilega mjög brugðið eftir atvikið. Hann segir að gríðarlegt högg hafi orðið af árekstrinum, hávaðinn hafi verið engu líkur og mikill titringur:

„Ég er enn í sjokki en um leið var þetta dýrmætt augnablik. Bílstjórinn er pólskur, ég er bandarískur, það voru þarna Íslendingar og fólk af öðru þjóðerni. Á svona augnabliki þá verður fólk hins vegar mjög náið hvert öðru, allir verða eins og allir eru jafnir. Maður gerir sér grein fyrir því hvað lífið er dýrmætt. Ég á eftir að fara í skoðun en ég virðist hafa sloppið vel. Ég er hins vegar ennþá í sjokki og það mun taka mig dálítinn tíma að átta mig á þessu og jafna mig andlega. Ég marðist dálítið vegna þess að sætið fyrir framan mig brotnaði í hamaganginum. Þetta var rosalegt, síminn minn flaug úr höndunum á mér. Ég er bara glaður að enginn virðist hafa slasast alvarlega. Þetta var mjög undarleg upplifun en ég hef aldrei fyrr á ævinni lent í umferðarslysi eða neinu slíku.“

Því miður slapp Lefty ekki eins vel og virtist í fyrstu. Hann hefur þjáðst af bakverkjum sem leiða upp í hnakka: „Læknirinn minn segir að þetta sé eðlilegt og ég verði að vera þolinmóður. Þar sem þetta var strætisvagn en ekki fólksbíll var höggið miklu harðara og svo var ég auðvitað ekki í öryggisbelti.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Linda Hartmanns, félagi Lefty í hljómsveitinni Lefty Hooks & The Right Things, tengist líka þessu óvenjulega umferðarslysi þó að hún hafi ekki verið í vagninum. En vinur hennar var um borð og handleggsbrotnaði hann og marðist víða um líkamann.

Linda Hartmanns og Lefty Hooks voru hins vegar bæði í sjöunda himni er þau hittu blaðamann og ljósmyndara DV í stuttu kaffispjalli í Kringlunni. Ástæðan er sú að þau er nýbúin að fá staðfesta tónleika sem þau munu halda í Finnlandi og Póllandi næsta sumar. „Við erum að reyna að ganga frá tónleikum í Noregi og stefnum á að búa til góðan tónleikatúr úr þessu,“ segir Lefty.

Lefty hefur búið á Íslandi meira og minna síðustu 12 árin og hefur íslenskan ríkisborgararétt. Hann syngur, rappar og semur texta. Lindu Hartmann þekkja margir úr þættinum Voice þar sem hún komst í 12 liða úrslit en hún átti líka lag í undankeppni RÚV fyrir Eurovision. Linda hefur samið eitt af þeim lögunum sem Lefty Hookz & The Right Thingz hafa sent frá sér.

Hljómsveitin, sem telur tíu manns þegar mest lætur, spilar melódískt reggae-popp undir afrískum áhrifum. Þau hafa verið töluvert áberandi í tónleikalífi borgarinnar, spilað á Dillon og Hressó og komu fram á Secret Soltice hátíðinni í fyrra.

Linda og Lefty segja bæði að tónlistarbransinn á Íslandi sé nokkuð lokaður og erfitt að komast að með tónlist í útvarpinu. Linda hefur til dæmis átt erfitt með að fá spilum á nýju lagi sínu. Ekki síst þess vegna leita þau núna út fyrir landsteinana.

Lefty, sem er frá New York, nýtur þess að búa á Íslandi og hefur eignast marga vini hér. Hann hefur upplifað fordóma hér á landi, meðal annars kynþáttafordóma, en segir: „Það jákvæða sem ég hef upplifað á Íslandi og það dásamlega fólk sem ég hef kynnst hér vegur miklu þyngra en neikvæða upplifunin.“

Í spilaranum hér að neðan má hlýða á nýtt lag með Lefty Hookz & The Right Thingz

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“