fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hrikaleg ákvörðun: Skilinn eftir á einu hæsta fjalli veraldar

Martröð á Dauðafjallinu Nanga Parbat í Pakistan

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 2. febrúar 2018 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Litlu mátti muna að franska fjallgöngukonan Elisabeth Revol ætti ekki afturkvæmt úr fjallgöngu á Nanga Parbat, níunda hæsta fjall veraldar, á dögunum. Göngufélagi hennar, Pólverjinn Tomasz Mackiewicz, var ekki jafn heppinn.

Elisabeth lýsir þeirri ákvörðun sinni að skilja Tomasz eftir á fjallinu þegar vont veður gerði skyndilega.

Vanir göngumenn

Það var á sunnudag sem björgunasveitir komu Elisabeth til bjargar, en þá höfðu tveir dagar liðið síðan þau kölluðu á aðstoð. Elisabeth, sem er 37 ára, og Tomasz, sem var 43 ára, voru bæði vanir fjallgöngumenn en um var að ræða fjórðu tilraun hennar til að komast á toppinn og þriðju tilraun hans.

Mjög kalt var á fjallinu og mikill vindur þegar þau ákváðu að kalla eftir aðstoð á föstudag í síðustu viku. Þá höfðu þau náð toppi fjallsins en á leiðinni niður skall á mikið óveður.

Þurfti að komast í 6.000 metra hæð

Vegna erfiðra aðstæðna reyndist hægara sagt en gert að koma þeim til hjálpar. Elisabeth var í fjarskiptasambandi við björgunaraðila og fékk þau skilaboð að hún þyrfti að komast niður í sex þúsund metra hæð til að hægt væri að sækja hana. Það sama átti við um Thomasz sem var illa haldinn af snjóblindu, kalsárum á höndum og fótum og auk þess er talið að hann hafi þjáðst af háfjallaveiki þegar þarna var komið við sögu. Elisabeth tók því þá erfiðu ákvörðun að skilja hann eftir.

Sársaukafullt og erfitt

Í samtali við franska fjölmiðla segir hún að ákvörðunin hafi verið mjög „sársaukafull og erfið“ í ljósi þess að þau voru góðir vinir og höfðu gengið í gegnum margt saman, í orðsins fyllstu merkingu. Hún rifjar upp það sem gerðist á leiðinni niður:

„Á einum tímapunkti talaði hann um að geta ekki andað. Hann tók af grímuna sem hann var með fyrir andlitinu og í kjölfarið fraus hann í kringum muninn. Nefið varð hvítt, svo hendurnar og fæturnir,“ segir hún og bætir við að ástand hans hafi versnað í kjölfarið. Blóð hafi lekið úr munni hans sem bendir til þess að hann hafi verið orðinn illa haldinn af háfjallaveiki.

Dvelur enn á sjúkrahúsi

Elisabeth ákvað að reyna að fikra sig niður fjallið en viðurkennir að hugur hennar hafi verið hjá félaga hennar sem var illa haldinn. Ekki mátti miklu muna að illa færi fyrir hana þar sem hún var byrjuð að finna fyrir einkennum háfjallaveiki rétt áður en henni var bjargað. Hún segir að það hafi verið tilfinningarík stund þegar hún kom auga á björgunarfólk, vitandi það að félagi hennar var hugsanlega látinn ofar í fjallinu.

Elisabeth var flogið til Islamabad og þaðan til Sviss áður en henni var flogið heim til Frakklands. Hún dvelur enn á sjúkrahúsi undir eftirliti lækna enda ekki enn útséð með það hvort hún missi útlimi vegna kalsára á hödnum og fótum.

Nanga Parbat er 8.126 metrar og stendur í Gilgit-Baltistan héraði í Pakistan. Það hefur verið kallað Dauðafjallið vegna fjölda fjallgöngumanna sem látist hafa á því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga