fbpx
Þriðjudagur 11.desember 2018
Fréttir

Nafn mannsins sem lést á Kvíabryggju

– Annar fanginn á innan við ári – Fjórir sálfræðingar sinna yfir 600 föngum

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 19. febrúar 2018 09:00

Fanginn sem lést á Kvíabryggju þann 13. febrúar hét Styrmir Haukdal Kristinsson. DV hafði samband við Pál Winkel fangelsismálastjóra vegna málsins. Hann staðfesti að hið voveiflega dauðsfall hefði átt sér stað á Kvíabryggju en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Hann sagði þó að starfsfólk og fangar væru harmi slegin vegna atburðarins. Er þetta annað sjálfsmorðið í íslenskum fangelsum á innan við ári. Eiríkur Fannar Traustason, sem afplánaði dóm fyrir hrottalega nauðgun í Hrísey, svipti sig lífi í fangelsinu á Akureyri í mars í fyrra.

Fráfall Eiríks varð til að vekja upp umræður um að geðheilbrigðismál fanga væru í lamasessi en ekkert hefur verið aðhafst í þeim málum síðan þá. Ljóst er að Styrmir þurfti sárlega á sálrænni aðstoð að halda en Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, greindi frá því í samtali við Fréttablaðið að Styrmi hefði verið boðið að ræða við sálfræðing í gegnum Skype.

„Það er náttúrlega mjög ópersónulegur máti til að eiga í samskiptum við sálfræðinga,“ sagði Guðmundur. Fangaverðir sem DV hefur rætt við segja ljóst að Styrmir hafi átt við andleg veikindi að stríða og hann verið vistaður á röngum stað. Styrmir var ellefu sinnum dæmdur fyrir brot og fimm sinnum í fangelsi, fyrst árið 1994. Þá hafði hann setið vel á sjötta ár innan veggja fangelsa landsins.

Glímdi við geðklofa

Í viðtali við hann í DV í maí 2004 kom fram að hann hefði skorið móður sína á háls þremur árum fyrr. Styrmir var dæmdur ósakhæfur vegna geðklofa en blessunarlega lifði móðir hans árásina af og hlaut ekki varanlegan skaða. Styrmir sagði í viðtali við DV það ár:

„Ég hafði lengi verið í geðveikisástandi áður en þetta gerðist og þakka guði fyrir að ekki fór verr en ég var úrskurðaður ósakhæfur vegna geðklofa. Ég get ekki útskýrt hvað gerðist þennan örlagaríka dag en hér á Sogni fékk ég fyrst meðferð vegna sjúkdómsins. Ég býst við að ástand mitt hafi verið að versna ár frá ári og endað með þessum skelfiega atburði.“ Þá sagði Styrmir einnig með vonarglampa í augum:

„Ég á mér þann draum að geta lifað eðlilegu lífi í óvernduðu umhverfi og það er kannski dálítið barnalegt að segja það en vitaskuld langar mig að eignast fjölskyldu í framtíðinni. Mig langar að standa á eigin fótum, vera eðlilegur án vímuefna og lifa samkvæmt því.“

Styrmir losnaði af Sogni og missti seinna tök á lífi sínu og var dæmdur í fangelsi á ný. Þeir sem þekkja vel til Styrmis eru allir á einu máli um að hann hafi þurft aðstoð vegna sálrænna veikinda. Í júlí 2017 greindi DV frá átökum milli tveggja fanga á Litla-Hrauni sem enduðu með hrottalegum hætti. Þar voru á ferðinni Styrmir og Baldur Kolbeinsson, sem hefur reglulega ratað í fréttir vegna átaka við samfanga sína.

Varð þeim sundurorða á gervigrasvelli fangelsisins og brutust út átök í kjölfarið. Styrmir hafði Baldur undir í slagsmálunum en þeim lauk með því að Baldur beit efri vör Styrmis í sundur og spýtti holdinu út úr sér á gervigrasið. Kunnugir segja að Styrmir hafi aldrei náð sér almennilega eftir þessa alvarlegu árás og hann hefði þurft mikla hjálp.

Styrmir hafði náð tíma án áfengis og dreymdi um betra líf. Var hann samkvæmt heimildum DV vel liðinn af fangavörðum og föngum.

Þriðjungur reynt sjálfsvíg

Afar mikilvægt er að fangar fái sálfræðiþjónustu en í rannsókn Boga Ragnarssonar, nema í félagsfræði við HÍ, sem var birt 2013 kom fram að 54–69 prósent fanga glímdu við þunglyndi. Þá hefur um þriðjungur fanga reynt sjálfsvíg. Tveir fangar hafa nú látist á einu ári og sex frá árinu 2001. Í júní 2014 greindi Pressan frá því að tveir fangar hefðu reynt sjálfsvíg í einum og sama mánuðinum og gagnrýndi þá Guðmundur Ingi, formaður Afstöðu, enn og aftur að ekki væri sálræn aðstoð til staðar til að sinna öllum þeim sem þyrfti á henni að halda.

Í fangelsum á Íslandi starfa fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum. Verkefni þeirra er ærið, nánast óyfirstíganlegt. Sálfræðingarnir eiga að sinna öllum föngum sem eru í afplánun, öllum þeim sem eru á reynslulausn. Eru þetta hvorki meira né minna en 600 einstaklingar. Ofan á þetta bætist að sálfræðingarnir eiga að sinna starfsfólki og vinna áhættumat vegna þeirra einstaklinga sem eru að sækja um úrræði eins og reynslulausn eða Vernd.

Blóðugur niðurskurður

Nýlega var greint frá því að fjárveitingar til lögreglunnar yrðu auknar um 270 milljónir króna milli ára. Óhætt er að reikna með því að aukinn slagkraftur í störfum lögreglu leiði af sér fleiri skjólstæðinga Fangelsismálastofnunar. Það skýtur því óneitanlega skökku við að framlögin til fangelsismála voru skorin niður um 14 milljónir milli ára.

Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum unnið ítarlegar úttektir um stöðu fangelsismála. Þar hefur ítrekað komið fram sú niðurstaða að framlög til geðheilbrigðismála fanga væru alltof lág og þjónustan í lamasessi. Samkvæmt heimildum DV hefur verið kallað eftir viðbrögðum hjá hinu opinbera til að auka fjármagn en dómsmálaráðuneytið ekki orðið við því. Þeir fangaverðir og aðstandendur sem DV hefur rætt við telja nauðsynlegt að ráðist verði strax í að bjarga föngum sem eiga við þunglyndi og geðsjúkdóma að stríða. Tvö dauðsföll á innan við einu ári staðfesti það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

18 ára piltur dæmdur fyrir að bíta lögregluþjón

18 ára piltur dæmdur fyrir að bíta lögregluþjón
Fréttir
Í gær

Sonur Önnu verður fyrir einelti á Íslandi: „Það er verið að segja ljót orð við hann og taka dótið hans“

Sonur Önnu verður fyrir einelti á Íslandi: „Það er verið að segja ljót orð við hann og taka dótið hans“
Fréttir
Í gær

Fjórir sjúklingar smitast af ýmsum sýkingum á Landspítalanum daglega

Fjórir sjúklingar smitast af ýmsum sýkingum á Landspítalanum daglega
Fréttir
Í gær

Ölvaður maður veittist að fólki – Fjöldi ökumanna í vímu

Ölvaður maður veittist að fólki – Fjöldi ökumanna í vímu
Fyrir 2 dögum

Elsie, Norman og Bessie

Elsie, Norman og Bessie
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Borgin hyggst innheimta gjald af öðrum sveitarfélögum vegna íbúa sem nýta þjónustu neyðarskýla

Borgin hyggst innheimta gjald af öðrum sveitarfélögum vegna íbúa sem nýta þjónustu neyðarskýla
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þekktur lögmaður segir að Ágúst Ólafur sé að skrópa í vinnunni – „Hann á bara að mæta“

Þekktur lögmaður segir að Ágúst Ólafur sé að skrópa í vinnunni – „Hann á bara að mæta“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einn ríkasti maður Íslands fékk felldar niður skuldir upp á 33,7 milljarða

Einn ríkasti maður Íslands fékk felldar niður skuldir upp á 33,7 milljarða