fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hjörtur Howser dæmdur fyrir að hóta lögreglumönnum: „Ég ætla heim til þeirra og berja þá í andlitið“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 13. febrúar 2018 12:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjörtur Howser tónlistarmaður var í gær dæmdur í mánaðarlangt skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni og vopnalagabrot. Fyrri ákæran sneri að facebookfærslu sem Hjörtur ritaði og þótti fela í sér hótun um að beita lögreglumenn líkamlegu ofbeldi, en Hjörtur ritaði þar berum orðum að hann ætli „heim til þeirra og berja þá í andlitið“.

Hjörtur hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi í gegnum tíðina og leikið með ýmsum hljómsveitum á borð við Grafík, Kátir piltar og Vinir Dóra. Einnig lék hann um tíma með Mezzoforte og Fræbbblunum. Auk þess hefur hann um árabil verið undirleikari og tónlistarstjóri hjá Þórhalli „Ladda“ Sigurðssyni. Þá hefur hann einnig samið tónlist fyrir sjónvarpsþætti á borð við Heilsubælið í Gervahverfi (1987), Pappírs-Pésa (1988), Leyndarmál vísindanna (2013) og Töfrahetjurnar (2014).

Reiður vegna meðferðar á hælisleitendum

Fram kemur í ákæru að þriðjudaginn 28. júní 2016 hafi Hjörtur birt á facebooksíðu sinni tengil á frétt Stundarinnar en fyrirsögn fréttarinnar var: „Myndband: Lögreglumenn drógu hælisleitendur út úr kirkju.Mynd með fréttinni sýndi lögreglumenn í lögregluaðgerðum.

Ljósmynd/Skjáskot af vef Stundarinnar.
Ljósmynd/Skjáskot af vef Stundarinnar.

Í færslunni ritaði Hjörtur svohljóðandi hótun í garð tveggja lögreglumanna sem sjást á myndinni, ofan við tengilinn á fréttina:

VARÚÐ – HÓTUNARSTATUS! Ég vil fá að vita nöfn þessara tveggja lögreglubjána, útbólginna steraneitenda með hallærislegar „Game-of-Thrones“ klippingar sínar – því ég ætla heim til þeirra og berja þá í andlitið – nákvæmlega eins kjaftshögg og þeim finnst eðlilegt og sjálfsagt að berja mann í andlitið á kirkjutröppum – þar sem grið höfðu rofin og 16 ára gamall drengur dreginn burt með lögregluofbeldi

Fyrir dómi viðurkenndi Hjörtur að hafa skrifað þessi umæli á facebook en sagði að umrædd skrif hefðu ekki verið hótun í garð umræddra lögreglumanna. Færslan hefði verið rituð í reiði, í kaldhæðni og af dómgreindarleysi. Fyrst og fremst hefði reiði hans beinst að því hvernig málsmeðferð hælisleitenda væri háttað hér á landi, en ekki að þeim lögreglumönnum sem sjáist á myndbandi og fylgi hælisleitandanum út úr kirkjunni. Hins vegar hafi honum gramist að annar lögreglumannanna hafi slegið til ungs manns sem stóð utan kirkjunnar og hafði uppi athugasemdir við aðgerðir lögreglunnar.

Þá þvertók fyrir það að ætlun sín hafi verið að vekja ótta hjá umræddum lögreglumönnum, hvað þá að hann hafi haft í huga að fylgja skrifum sínum eftir með ofbeldi. Slíkt hafi aldrei verið ætlun hans og kvaðst hann reiðubúinn til að biðja lögreglumennina afsökunar hafi skrif hans vakið þeim ugg. Þá kvaðst hann ekki hafa verið í Laugarneskirkju umrætt sinn og hefði hann því aðeins séð aðgerðir lögreglunnar á myndskeiði sem fylgdi frétt á vefmiðli Stundarinnar.

Báðir lögreglumennirnir sögðu fyrir dómi að þeir hefðu tekið skrif Hjartar alvarlega og litið á þau sem hótun um ofbeldi í þeirra garð. Í kjölfarið hafi þeir orðið varari um sig en ella. Kvaðst annar þeirra allt eins hafa átt von á því að Hjörtur kæmi að heimili sínu og fylgdi hótun sinni eftir gagnvart sér, eiginkonu sinni eða barni.

„Þrátt fyrir neitun ákærða þykir sannað að í áðurnefndri færslu hans hafi falist hótun um að beita umrædda lögreglumenn líkamlegu ofbeldi, enda segir þar berum orðum að hann ætli „heim til þeirra og berja þá í andlitið“. Hótun þessi var til þess fallin að vekja hjá þeim ótta og kváðust þeir báðir hafa tekið hana alvarlega. Lögreglumennirnir voru í umrætt sinn að framfylgja fyrirmælum og sinna skyldustörfum sínum,“ segir í dómnum.

Með skammbyssur og skotfæri í stofunni

Þá var Hjörtur einnig sakfelldur fyrir vopnalagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 16. ágúst 2017, haft í vörslum sínum skammbyssu af gerðinni Astra Falcon Model 4000 22 cal., skotgeymi fyrir skammbyssuna og 3 stk. 22 cal. skotfæri án þess að hafa til þess tilskilið leyfi og fyrir að hafa ekki ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu til skammbyssunnar og skotfæranna. Fram kemur að lögreglan hafi fundið skammbyssuna, skotgeyminn og skotfærin í stofu á heimili Hjartar að Cuxhavengötu 1 í Hafnarfirði.

Hjörtur játaði sök í því máli og var þar af leiðandi sakfelldur fyrir báða ákæruliðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“