Svipti barnaperra frelsinu og var sendur á Litla-Hraun í 3 ár: Barnaperrinn fékk mánuð - „Ég er mjög góður maður“

„Ég fékk þrjú ár, vinur minn fékk tvö og hálft ár og barnaníðingurinn fékk mánaðar skilorðsbundinn dóm. Hann missti vinnuna, það var það eina góða í þessu,“ segir hinn pólski Daniel Arciszewski sem árið 2012 hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir að hafa svipt mann frelsi sínu og beitt hann ofbeldi. Daniel kveðst hafa verið að taka lögin í eigin hendur með þessum hætti en fórnarlamb árásarinnar, Björn Finnsson hlaut ári síðar dóm fyrir vörslu á barnaklámi.

Daniel, sem oft er kallaður Danni pólski, er einn af viðmælendum Jóns Ársæls Þórðarsonar í sjónvarpsþættinum Paradísarheimt en hann afplánar um þessar mundir dóm sinn í fangelsinu á Hólmsheiði.

Daniel var 18 ára gamall þegar hann flutti til Íslands en systir hans hafði þá flust búferlum hingað til lands og komið sér fyrir á Snæfellsnesi. „Það var annaðhvort að fara í herinn úti, eða fara í fangelsi eða koma hingað,“ sagði Daniel í þættinum en eftir að hann flutti til Íslands fór hann að starfa í fiskvinnslu og fór síðan á sjó. Seinna fluttist hann til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem dyravörður á Goldfinger. Hann sökk djúpt í neyslu fíkniefna og gerðist handrukkari.

Hann segir dópneysluna ástæðuna fyrir því að hann er í fangelsi. „Ég þarf að kenna neyslunni minni um það. Fyrst var það aðallega amfetamín. Svo fór þetta aðbreytast, og vera kókaín með og mikið áfengi líka. Svo fór þetta versnandi.“

Aðspurður um hvað hann gerði af sér til að verðskulda það að sitja inni svarar Daniel: „Ég tók barnaníðing í gíslingu. Frelsissvipti hann.“ Þá bætir hann við á öðrum stað: „Lögreglan gerði ekkert í sínum málum og ég og félagi minn ákváðum að refsa honum aðeins.“

Fórnarlamb frelsisviptingarinnar, Björn Finnsson starfaði á sínum tíma á frístundaheimili en hann var síðar sakfelldur fyrir vörslu á barnaklámi.
Fórnarlamb frelsisviptingarinnar, Björn Finnsson starfaði á sínum tíma á frístundaheimili en hann var síðar sakfelldur fyrir vörslu á barnaklámi.

Kenndi börnum föndur

Í september 2012 var Daniel sakfelldur fyrir að hafa í félagi við Snorra Sturluson, svipt mann frelsi sínu á heimili hans og beitt hann ofbeldi auk þess sem þeir þvinguðu hann til að afhenda sér fé.

Við yfirheyrslur tjáðu Daniel og Snorri lögreglu að fórnarlamb árásarinnar, Björn Finnsson væri barnaperri. Björn, sem var 63 ára þegar árásin átti sér var þá starfsmaður á frístundaheimili í Breiðholti auk þess sem hann hafði starfað með börnum á öðrum stöðum en starf hans fólst í því að kenna börnum föndur.

Frétt DV um dóminn yfir Birni Finnsyni. Ljósmynd/Skjáskot af vef DV.is.
Frétt DV um dóminn yfir Birni Finnsyni. Ljósmynd/Skjáskot af vef DV.is.

Í kjölfar árásarinnar haldlagði lögreglan tölvu Björns sem reyndist innihalda mikið magn af barnaklámi: alls 168 ljósmyndir og fimm hreyfimyndir. Björn játaði vörslu barnakláms fyrir dómi og hlaut mánaðarlangan skilorðsbundinn dóm. DV greindi frá málinu árið 2013.

Í dómnum yfir Daniel frá árinu 2012 kemur fram að hann og Snorri hafi haldið Birni nauðugum í íbúðinni frá klukkan fimm til klukkan rúmlega 11 að morgni 6. júlí. Meðal annars ýttu þeir Birni í stól í stofu íbúðarinnar og bundu hann við stólinn með límbandi. Þá kemur fram að Daniel hafi skipað honum að skrifa undir skjal þess efnis að hann skuldaði þeim fjármuni.

Á öðrum stað í ákærunni kemur fram að þeir Daniel og Snorri hafi fært Björn inn á baðherbergi íbúðarinnar þar sem Snorri ýtti honum ofan í baðkar, batt hann á höndum og fótum með rafmagnssnúru sem hann festi við blöndunartæki, tróð tusku upp í munn hans og setti límband fyrir munninn.

Daniel játaði brotið fyrir dómi en sagðist þó ekki ekki hafa beitt eins miklu ofbeldi og lýst var í ákærunni. Á þessum tíma hafði hann alls fimm sinnum sætt viðurlögum fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni, síðast þann 11. janúar 2012, þegar hann sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann hafði þar með rofið skilorð og var dæmdur í þriggja ára fangelsi, en Snorri hlaut tveggja ára fangelsisdóm.

Ljósmynd/Skjáskot af vef RÚV.
Ljósmynd/Skjáskot af vef RÚV.

Tveggja barna faðir

Í þætti Paradísarheimtar í gærkvöldi sagði Daniel að hann ætlaði að nýta sér fangelsisvistina til góðs. „Það er kominn tími til að breyta til og vera edrú. Áður fyrr var ég bara að reyna að vera edrú. Nú ætla ég að gera það. Mig langar að fara að tengjast aftur fjölskyldunni minni. Ég hef ekki heyrt í þeim lengi,“ sagði Daniel en hann er tveggja barna faðir. Aðspurður um hvort hann hefði framið hroðaleg brot á borð við manndráp svaraði hann neitandi.

„Ég er mjög góður maður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.