Maður dæmdur fyrir manndráp af gáleysi, reyndi framúrakstur í vímu

Frá vettvangi á Öxnadalsheiði
Smárúta Frá vettvangi á Öxnadalsheiði

Héraðsdómur norðurlands eystra dæmdi karlmann á fimmtugsaldri í átta mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir manndráp af gáleysi. Auk þess var hann sviptur ökuréttindum í eitt ár og dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Vísir greinir frá þessu en atvikið átti sér stað á Öxnadalsheiði í júnímánuði árið 2016.

Í vímu og á ónýtum bíl

Maðurinn reyndi framúrakstur en keyrði aftan á bíl sem kastaðist framan á smárútu sem kom úr gagnstæðri átt. Erlendur maður á sjötugsaldri sem keyrði þeim bíl lést samstundis og farþegi í smárútunni, kona á sjötugsaldri, slasaðist einnig.

Sá sem reyndi framúraksturinn keyrði á allt að 162 km/klst hraða og var þar að auki á ónothæfum bíl. Fjölmargt var að bílnum, þar á meðal ljósleysi, slæmir hemlar í framhjóli, þunnir hemlaklossar í afturhjólum, ónýts höggdeyfis, ryðmyndunar og fleira.

Í blóðprufu sem tekin var af manninum mældust sljóvgandi efni, alprazólam og oxazepam og á hann langan sakaferil að baki og hefur ítrekað verið sektaður fyrir vímuefnaakstur.

Játaði strax

Málið var dómtekið 3. nóvember á síðasta ári og játaði hann brot sitt samstundis. Dómur var kveðinn upp 5. febrúar síðastliðinn.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa skilaði af sér skýrslu um málið. Samkvæmt nefndinni gefur þetta mál, auk banaslyss í Hrútafirði árið 2012, tilefni til þess að endurskoða löggjöf er lýtur að áfengis og vímuefnaakstri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.