Kýldi lögreglumann og klóraði í andlitið

Karlmaður fæddur árið 1981 hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni. Var hann sakfelldur fyrir að hafa ráðist á lögreglumann en árásin átti sér stað á heimili mannsins í Reykjanesbæ í maí 2016.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi að kvöldi laugardagsins 28. maí ráðist á lögreglumann sem hafði verið kallaður að heimili hans. Greip maðurinn í vesti lögreglumannsins og sló hann nokkrum sinnum í andlitið með krepptum hnefa.

Þá klóraði hann lögreglumanninn í andlitið, með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut mar og bólgu yfir nefi, klórför yfir vinstri hlið nefs og vinstri hlið andlits undir auga, þreifieymsli í neðri hluta kjálka og mikil eymsli yfir efri góm hjá framtönnum og skrámur yfir hægri hluta háls og eymsli í hálsi.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi en samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki áður sætt refsingum. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að atlaga mannsins að lögreglumanninum hafi verið „ ófyrirleitin og ofsafengin.“

Þótti hæfileg refsing þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem manninum er gert að greiða rúmlega 260 þúsund krónur í sakarkostnað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.