Segir strætóbílstjóra hafa neitað að hleypa sér út: „Þetta var frelsissvipting“

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Unglingsstúlka segir farir sínar ekki sléttar af Strætó. Hún segir strætóbílstjóra hafa neitað að hleypa sér út úr vagninum. Að sögn Bríönnu komst hún ekki út fyrr en hún hótaði að hringja á lögregluna. Atvikið byrjaði þegar krakkar sem stúlkan þekkir ekki ýttu óvart á stopp takkann:

„Ég var í strætó og einhverjir krakkar ýttu á stopp takkann en það fór enginn út og strætóbílstjórinn varð reiður og öskraði á krakkana að fara út. En þau sögðu að þau ýttu óvart á takkann og bílstjórinn var þrjóskur og beið þangað til einhver ætlaði út úr vagninum en enginn fór út, svo hann lagði af stað eftir mínútu bið,“ segir hún.

Næsta strætóstoppistöð var stöðin þar sem hún þurfti að fara út úr vagninum. „Ég ýtti á stopp takkann til að fara út en hann keyrði fram hjá. Ég stóð upp og sagði honum fallega að stoppa en hann sagði nei við mig. Ég sagði þá að ég hafði ýtt á stopp og þá ætti hann að stoppa. Hann sagði nei aftur þannig ég varð reið og tók meðfylgjandi myndband upp,“ segir hún.

„Þetta er vinnan hans. Honum ber skylda að stoppa og hvernig hann kom fram við mig var óviðeigandi. Ég skal viðurkenna að ég er frekar dónaleg í myndbandinu. Það var samt því ég var nýbúin að vinna og var að drífa mig heim og hann ætlaði að láta mig ganga frá Grafarholtinu til Úlfarsfellinu.“

Stúlkan segir að hún hafi að lokum komist út úr strætóvagninum nálægt sinni stoppistöð. „Ég endaði með því að ganga nær honum og sagði að ef hann myndi ekki hleypa mér út úr vagninum myndi ég hringja á lögregluna. Hann horfði brjálaður á mig en opnaði hurðina. Allir í vagninum voru byrjaðir að öskra á hann að opna,“ segir stúlkan í samtali við DV.

„Þetta er bara ein saga af þúsund. Fólk er að benda mér á að ég get kært þetta á marga vegu. Þetta var frelsissvipting og fleira.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.