Ölvaðar ungar konur handteknar í miðbænum

Klukkan 23:40 í gærkvöldi var mjög ölvaður maður handtekinn í miðbænum fyrir mikil eignaspjöll á bifreið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar stendur enn fremur:

„Ökumaður og farþegi sátu í kyrrstæðri bifreiðinni þegar ölvaði maðurinn kom að og reyndi að komast inn í bifreiðina. Þegar honum var ekki hleypt inn barði hann og sparkaði í allar hliðar bifreiðarinnar og hafði í ofbeldishótunum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður þegar ölvíman rennur af honum.“

Lögreglan handtók tvær mjög ölvaðar ungar konur í miðbænum klukkan hálf tvö í nótt. Konurnar voru færðar á lögreglustöð en þeim hafði verið vísað út af skemmtistað vegna hegðunar. „Þegar út var komið sló önnur konan dyravörð og hin henti glerglasi í bifreið. Óvíst með kröfur, áverka og skemmdir á þessu stigi.“

Lögreglunni barst nokkrar tilkynningar um slagsmál í miðbænum fyrri hluta nætur. Minniháttar áverkar, enginn handtekinn og engar kröfur að sögn lögreglu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.