Hann fékk starf sem skurðlæknir – Sagði örlítið ósatt í atvinnuviðtalinu

Mynd: 123RF.com

Margir kannast kannski við að hafa „fegrað“ ferilskrána sína aðeins til að auka líkurnar á að fá draumastarfið. Það var einmitt það sem Sudip Sarker, 48 ára skurðlæknir, gerði en málið hefur haft alvarlegar afleiðingar.

Þegar hann fór í atvinnuviðtal á Alexandra sjúkrahúsinu í Redditch í Worcestershire á Englandi sagðist hann hafa gert 51 ristilnáms aðgerðir en staðreyndin var að aðgerðirnar voru aðeins 6. En þessi lygi hans skilaði árangri og hann fékk þessa eftirsóttu skurðlæknisstöðu með árslaun sem svara til um 12 milljóna íslenskra króna.

Metro skýrir frá þessu. Fram kemur að Sarker hafi verið ráðinn sem yfirmaður skurðlæknateymis en hafi verið vikið úr starfi eftir aðeins 14 mánuði því ekki var hægt að horfa framhjá reynsluleysi hans.

Sjálfur telur Sarker ekki að hann hafi logið til um fjölda skurðaðgerða, hann hafi bara komið með lauslegt mat á fjöldanum.

Málið er nú fyrir dómi í Lundúnum og var saksóknari málsins ekki sammála Sarker um að hann hefði ekki logið og sagði að um vel útfærða lygi hefði verið að ræða.

Dómari sakfelldi Sarker fyrir svindl. Refsing hans verður ákveðin á næstu dögum en hann mun þurfa að greiða sekt eða jafnvel fara í fangelsi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.