Sjá viðskiptatækifæri í óveðrinu: „Skella í eitt stykki storm ævintýri“

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Á meðan ófáum viðburðum hefur verið aflýst í dag vegna veðurs þá vekur það óneitanlega athygli að íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki sér viðskiptatækifæri í óveðrinu. Fyrirtækið Whale Watching Reykjanes sendi póst á öll gistiheimili á Suðurnesjum og auglýsti „eitt stykki storm adventure.“ Vegagerðin og veðurfræðingar hafa keppst við að hvetja fólk til þess að halda sig innandyra í dag og hefur fyrrnefnda stofnunin meðal annars lýst yfir óvissustigi á Reykjanesbraut.

„Þetta er umdeilanlegt því það er búið að blása þetta mikið upp, þetta er bara stormur,“ sagði Axel Már, starfsmaður Whale Watching Reykjanes, í samtali við DV.

Hér að neðan má lesa póstinn sem Whale Watching Reykjanes sendi á öll gistiheimili á Suðurnesjum og auglýsti hina óvenjulegu ferð.

„Góðann daginn! Okkur langar að skella í eitt stk storm adventure þar sem margir eru fastir hérna vegna seinkunar á flugi. Planið er að fara á Reykjanesið og upplifa þennan ágæta storm með nokkrum sightseeing stoppum. Verðið er 10.900 á mann, erum með 14 sæti laus, en forum ekki nema með allavega 4 farþega í þetta ævintýri!

Farið verður kl 15.00

Endilega bókið með að ýta a reply, og við erum með snjógalla ef beðið er um!“

Ófært

Mikil hálka er á Reykjanesi og víða þungfært eða ófært eins og sést á meðfylgjandi mynd frá vegagerðinni.

Skjáskot/vegagerdin.is
Skjáskot/vegagerdin.is

„Bara stormur“

DV heyrði í Axel Má Waltersson sem sér um skoðunarferðir um Reykjanesið fyrir Whale Watching Reykjanes.

Nú hefur vegagerðin og veðurfræðingar hvatt fólk til að halda sig inni í þessu óveðri. Þykir þér ekki hættulegt að fara í skoðunarferð í þessu veðri?

„Þetta er umdeilanlegt því það er búið að blása þetta mikið upp, þetta er bara stormur. Þegar við vorum krakkar þá vorum við send með skólatösku og löbbuðum í 45 gráðum. Við erum á vel útbúnum bíl og höfum farið í svona ferðir áður. Erum alltaf með þessar Reykjanesferðir og ákváðum að fara í þetta í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn að það er 23 metrar á sekúndu á Íslandi. Hér keyra allar rútur um enn þá,“ segir Axel.

„Þetta hefur verið vinsælt og fólki hefur fundist það meiriháttar að sjá hvernig allt lítur út hér. Fólki finnst þetta meiriháttar og mikið ævintýri.“

Hafa margir bókað sig?

„Er ekki með það á hreinu, brottfarartíminn er klukkan þrjú.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.