fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Jóhann Jóhannsson, tónskáld, fallinn frá

Jóhann var 48 ára gamall – Tvívegis tilnefndur til Óskarsverðlauna

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 10. febrúar 2018 17:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn, aðeins 48 ára að aldri. Jóhann lést í gær, föstudaginn 9. febrúar, í Berlín en þar hafði hann verið búsettur um árabil. Tim Husom, umboðsmaður Jóhanns í Los Angeles, staðfesti þessi hörmulegu tíðindi í stuttu samtali við DV. „Ég er gjörsamlega miður mín. Ég hef misst vin minn sem var einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður og greindasti einstaklingur sem ég hef kynnst. Við gengum í gegnum ýmislegt saman,“ segir Huson,

Á þessari stundu er dánarorsök Jóhanns ókunn en DV sendir fjölskyldu Jóhanns og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Jóhann hafði unnið sér sess sem eitt allra virtasta kvikmyndatónskáld heims undanfarin ár og var þekktur fyrir að blanda saman raftónlist og klassískri tónlist á einstakan hátt. Hann var tvö ár í röð tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í myndunum The Theory of Everything (hátíðin 2015) og Sicario (hátíðin 2016). Þá hlaut hann Golden Globe-verðlaunin eftirsóttu fyrir fyrrnefndu myndina auk þess sem hann hlaut tilnefningar til BAFTA og Grammy-verðlauna.

Jóhann hlaut Golden Globe-verðlaunin árið 2015 fyrir tónlist sína við myndina The Theory of Everything.
Verðlaunaður Jóhann hlaut Golden Globe-verðlaunin árið 2015 fyrir tónlist sína við myndina The Theory of Everything.

Það var ekki síst samstarf Jóhanns og fransk-kanadíska leikstjórans Denis Villeneuve sem skaut Jóhanni upp á stjörnuhiminn kvikmyndatónlistarinnar. Jóhann samdi tónlistina fyrir þrjár stórmyndir Villenueve, Prisoners (2013), áðurnefnda Sicario (2015) og Arrival (2016). Þá stóð til að Jóhann myndi semja tónlistina fyrir stórmyndina Blade Runner 2049 í leikstjórn Villenueve en því miður slitnaði upp úr samstarfi hans og leikstjórans þegar vinnan við myndina var yfirstandandi. Við hlutverki Jóhanns tók hið heimsþekkta kvikmyndatónskáld, Hans Zimmer.

Síðustu verk Jóhanns á sviði kvikmyndatónlistar var frumsamin tónlist fyrir myndina Mandy (2018) eftir Panos Cosmatos sem skartar Nicholas Cage í aðalhlutverki. Þá stóð til að Jóhann myndi semja tónlist fyrir myndina Mother! eftir Darren Aronofsky en þegar verk Jóhanns var tilbúið ákváðu Aronofsky og Jóhann að hætta við notkun þess. Í staðinn var notuð afar blæbrigðarík hljóðmynd en Jóhann var titlaður tónlistar- og hljóðráðgjafi.

Áður en Jóhann lét til sín taka á sviði kvikmyndatónlistar gerði hann það gott með hljómsveitum á borð við Ham, Lhooq og Apparat Organ Quartet hér á Íslandi. Hann hóf síðan sólóferil sinn upp úr aldamótum en samdi jöfnum höndum tónlist fyrir leikrit og kvikmyndir. Fyrsta verkefni Jóhanns við kvikmyndir var tónlistin við myndina Íslenski draumurinn, árið 2000, og síðan fylgdu á eftir verk við myndir eins og Óskabörn þjóðarinnar (2000), Maður eins og ég (2002) og Dís (2004).

Fyrsta sólóplatan sem Jóhann gaf út hét Englabörn, árið 2002, en hún var byggð á tónlist fyrir samnefnt leikrit sem hann samdi tónlistina fyrir.

Jóhann samdi síðan tónlist fyrir fjölmargar stutt- og heimildarmyndir auk sjónvarpsþátta þar til að hann sló í gegn á heimsvísu með áðurnefndu samstarfi sínu við Villenueve.

Jóhann var um árabil búsettur í Berlín, höfuðborg Þýskalands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum