fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Margrét Erla þarf lífvörð vegna áreitni: „Ekki manni í þessari stöðu sæmandi“

Hjálmar Friðriksson
Fimmtudaginn 1. febrúar 2018 11:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Erla Maack, fjölmiðla- og kabarettkona, segir í pistli á Kjarnanum að hún hafi orðið fyrir miklu áreiti á sama tíma og metoo-umræðan stóð sem hæst. Það hafi gerst þegar hún skemmti hjá rótgrónu fyrirtæki sem hefur fengið ýmsar jafnréttisviðurkenningar. Hún gagnrýnir harðlega viðbrögð þessa fyrirtækis eftir að hún greindi stjórnendum frá hegðun manns á skemmtun fyrirtækisins..

„Í byrjun desember á árinu sem leið lenti ég í óþægilegu atviki hjá fyrirtæki sem ég hef oft starfað fyrir áður án alls svona vesens og ákvað því að taka ekki með mér sjapperón í þetta skiptið. Ég sendi mannauðsstjóranum bréf eftir þetta partý vegna manns sem lét mig ekki í friði, og ég veit að með því að tjá mig um þetta á þessum vettvangi verður mér ekki boðið aftur að skemmta fyrir þetta fyrirtæki. Þannig virkar þöggun, ef ég segi frá á ég hættu á að skerða tekjumöguleika mína, en áreitarinn er enn þá í fínni stöðu,“ segir Margrét Erla.

Hélt það væri fyndið

Hún segir að á þessari skemmtun hafi einn karlmaður ekki hætt að áreita hana. „Áreitnin byrj­aði sakleysislega en þróaðist út í það að maður nokkur, kallaður S hér fyrir svín, þráspurði mig um hvort hann mætti klípa mig í rassinn og svo almennan dólg og dónalegheit, sem ég margbað hann að hætta og leyfa mér að vinna í friði. Það er ekki fyrr en eftir að hann gerir sér grein fyrir að kona í skemmtinefnd er vitni OG sér mig ræða þetta við hátt setta konu innan fyrirtækisins að hann ætlar að biðjast afsökunar, sem gengur ágætlega, þar til:

S: „En hey, ég spurði um leyfi.”
M: „Hélstu í alvöru að ég myndi segja já?”
S: „Nei.”
M: „Hver var þá tilgangurinn?”
S: „Mér fannst þetta bara fyndið… svona út af þessu #metoo.”
M: „Þetta er ekki fyndið. Þetta er veruleiki kvenna í öllum störfum. Ég lendi í svona ógeðisköllum eins og þér í öðru hvoru giggi og það er sorglegt.”

Neyðist til að hafa lífvörð

Margrét bendir á að þessi hegðun sé þessu tiltekna fyrirtæki ekki sæmandi. „Það að upplýstum, menntuðum manni, í flottri stöðu hjá rótgrónu fyrirtæki, þyki svona lagað fyndið er banalt. Að halda að #metoo-byltingin sé enn eitt tilefni til að gera lítið úr konum og að gera sexist “grín” er ekki manni í þessari stöðu sæmandi. Að hegða sér svona gagnvart utanaðkomandi aðila í veislu á vegum fyrirtækis er fyrirtækinu öllu til skammar,” segir Margrét Erla.

Hún bætir við að þessi hegðun stangist á við jafnréttisstefnu fyrirtækisins en þrátt fyrir það virðist lítið hafa verið gerst. Í stefnunni segir að áreitni verði ekki liðin. „Að eitthvað sé ekki liðið er loðið orðalag. Í þessu fyrirtæki þýðir það að maðurinn var skammaður og mannauðsstjórinn ætlaði svo að segja mér frá því hver næstu skref yrðu. Ég hef ekki heyrt frá honum síðan þarna í byrjun desember. Þess ber að geta að fyrirtækið hefur fengið ýmsar jafnréttisviðurkenningar og leggur sig fram að taka þátt í alls kyns jafnréttisverkefnum. Ég fékk auðvitað símtöl frá fullt af fólki sem var í partýinu og varð vitni að þessu um hvað það væri miður sín, og að hans hegðun er ekki dæmigerð fyrir alla starfsmenn. Það er ekki nóg að svara rétt á jafnréttisspurningalistanum sem þið fáið sendan, þið þurfið að gera eitthvað í því í alvörunni þegar svona mál koma upp,” segir Margrét Erla.

Hún segir að vegna þessa atviks og viðbragðanna við því hafi hún sett inn sérstaka klausu á heimasíðu sína vegna áreitni. „Þetta atvik og þessi „mjeh“ við­brögð urðu til þess að ég ákvað að skrifa klausu á heima­síð­una mína um áreitni. Ég nenni nefni­lega ekki að lenda í henni lengur og að tekjur mínar séu skertar því ég neyð­ist til að taka með mér „líf­vörð.” Klaus­una sendi ég svo á alla þá sem höfðu bókað mig næstu vik­urn­ar. Lang­flestir voru jákvæð­ir, en ég missti í alvöru tvo við­burði því að fólk gat ekki lofað því að ég yrði ekki fyrir áreitni, eða treysti sér til að taka á henni ef hún ætti sér stað. Svo þar, svart á hvítu, missti ég tekjur upp á 380.000 krónur því að ég mun ekki halda kjafti og láta áreitni yfir mig ganga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga