fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Borgin hyggst innheimta gjald af öðrum sveitarfélögum vegna íbúa sem nýta þjónustu neyðarskýla

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 9. desember 2018 11:00

Gistiskýlið við Lindargötu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavíkurborg ráðgerir að innheimta gistinóttagjald hjá sveitarfélögum fyrir gistingu í neyðargistiskýlum Reykjavíkjavíkurborgar, 17.500 krónur fyrir hverja gistinótt, þegar einstaklingur á lögheimili utan Reykjavíkur. Gjaldið verður innheimt ársfjórðungslega. „Við finnum fullan skilning frá nágrannasveitarfélögum að það er ekki sanngjarnt að útsvarsgreiðendur í Reykjavíki beri einir kostnaðinn við svo umfangsmikla þjónustu til íbúa annarra sveitarfélaga,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Reksturinn kostaði 200 milljónir árið 2017

Reykjavíkurborg rekur tvö neyðargistiskýli fyrir húsnæðislausa einstaklinga. Gistiskýlið við Lindargötu, sem er ætlað húsnæðislausum karlmönnum og Konukot, sem rekið er í samstarfi við Rauða krossinn í Reykjavík og er ætlað húsnæðislausum konum. Þjónustan er einstaklingum að kostnaðarlausu en í Gistiskýlinu er næturgisting í boði fyrir 25 gesti en 8 konur rúmast í Konukoti, auk fjögurra neyðarrýma. Dvöl einstaklinga í þessum gistiskýlum á að vera tímabundin á meðan unnið er að lausn á vanda gesta í viðkomandi sveitarfélagi.

Rekstarkostnaður við Gistiskýlið árið 2017 var 141 milljón króna auk þess sem Reykjavíkurborg lagði fram tæplega 60 milljón króna til Reykjavíkurdeildar Rauða Kross Íslands vegna reksturs Konukots. Úrræðin tvö kostuðu Reykvíkinga því um 200 milljón króna árið 2017. Á meðan húsrúm leyfir fá allir þurfandi aðgang að næturplássi. Teymi frá Reykjavíkurborg hefur síðan látið nærliggjandi sveitarfélög vita ef einstaklingar með lögheimili í þeim sveitarfélögum hafa nýtt sér þjónustuna til þess að viðkomandi sveitarfélag geti gripið til viðeigandi ráðstafanna.

40% gesta í Konukoti utan Reykjavíkur

helgarviðtal, samfylkingin
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Allt þar til um mitt ár 2017 hefur Reykjavíkurborg staðið undir kostnaði af rekstri neyðarskýlanna. Þá var gerður samningur við Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar varðandi hýsingu einstaklinga með lögheimili í Hafnarfirði. Skrefið sem nú er ráðgert að stíga þýðir því að önnur sveitarfélög verða einnig rukkuð um gjald fyrir þjónustuna. Eins og áður segir er hóflegt gjald talið 17.500 krónur, kostnaður við gistingu, mat og þrif er reiknaður út sem 12.500 og svo verður innheimt 30% umsýslugjald fyrir vinnu starfsfólks og utanumhald.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg dvöldu 17 karlmenn með lögheimili utan Reykjavíkur í Gistiskýlinu árið 2017. Þeir gistu í alls 93 nætur. Hlutfallslega voru þeir því 9% gesta en aðeins 1% gistinótta. Hlutfallið var margfalt hærra í Konukoti en sama ár dvöldu þar 44 konur með lögheimili utan Reykjavíkur. Alls gistu þessar konur í 689 nætur og voru 40% gesta það ár og 23% gistinátta. Ef Reykjavíkurborg hefði innheimt gjaldið árið 2017 hefðu nágrannasveitarfélögin þurft að reiða fram rúmlega 12 milljónir króna vegna Konukots en rúmlega 1,6 milljónir króna vegna Gistiheimilisins.

Í samtali við DV segist Heiða Björg vera bjartsýn á að gjaldtökunni verði vel tekið af öðrum sveitarfélögum. „Við fólum sviðsstjóra Velferðarsviðs að fara með þessar upplýsingar inn á samráðsvettvang félagsmálastjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Við erum með samning við Hafnarfjörð um að greiða fyrir þá þjónustu sem við veitum Hafnfirðingum og viljum ná samningum við hin sveitarfélögin líka. Við höfum fulla trú á að þau séu tilbúin til að greiða fyrir veitta þjónustu við sína íbúa. Best væri ef önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu kæmu með beinum hætti að rekstri einhverra úrræða fyrir þennan hóp sem við gætum þá greitt fyrir með sama hætti til þeirra,“ segir Heiða Björg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“