fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Margir minnast Hreins sem lést í Taílandi: „Ein magnaðasta persóna sem ég hef kynnst“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 7. desember 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hreinn Vilhjálmsson, kraftlyftingamaður, Íslandsmeistari í bekkpressu og rithöfundur, lést á dögunum í Taílandi. Margir minnast hans á samfélagsmiðlum og er honum lýst sem skrautlegum en mjög góðhjörtuðum manni. Árið 2005 gaf hann út bókina Bæjarins verstu þar sem lýsti opinskátt fíkniefnaneyslu sinni á árum áður.

Gísli Jökull Gíslason minnist Hreins í hópnum Gamlar ljósmyndir á Facebook. Hann segist hafa kynnst honum fyrst þegar hann var lögreglumaður meðan Hreinn var í neyslu. „Ég kynntist honum sem lögreglumaður og þá var Hreinn ekki á góðum stað. En hann var afar viðkunnanlegur og naut virðingar í þeim hópi sem hann var í enda skein góðmennska hans alltaf í gegn. Hreinn sagði mér að hans versti djöfull væri læknadópið og rítalín alverst. Okkur kom alltaf vel saman og áttum samskipti sem einkenndust af gagnkvæmri virðingu og hlýju. Í eitt skiptið gaf hann mér bókina sem hann skrifaði, „Bæjarins verstu“. Sem var enn meiri gjöf í ljósi þess að þá átti hann ósköp fátt. Hann var farinn í meðferð til Svíþjóðar áður en ég kláraði bókina. Sem ég hafði gaman af og er lipurlega skrifuð. Það var því gæfa að leiðir okkar lágu saman aftur hér á Facebook. Það kom til af myndinn við Camp Knox þar sem önnur stúlknanna er Kittý frænka hans. Við áttum ágætt spjall þar og hann sagði mér betur frá uppvaxtarárum sínum,“ skrifar Gísli og bætir við að heimurinn verði tómlegri án hans.

Lífið byrjaði í braggahverfinu

Hann vitnar svo í skrif Hreins en maðurinn á umræddri mynd var faðir hans sem var bandarískur hermaður. „Þessi mynd er af föður mínum Warren G Williams. Hann var í bandaríska hernum og móðir mín kynntist honum árið 1945 er hann gegndi herþjónustu í Camp Knox. Ég veit ekki hvaða barn þetta er. Ég kom vel inn á það í bókinni hvað við bræðurnir urðum fyrir skelfilegu aðkasti fyrir að vera synir bandarísks hermanns. Þetta var í braggahverfinu Camp Knox og þar byrjaði líf okkar bræðranna að vera á ská og skjön við það sem kallast eðlilegt. Hann vissi að mamma var ófrísk og lofaði henni gulli og grænum skógum en fór svo bara heim til eiginkonunnar sem mamma vissi ekkert um. Það heyrðist ekkert meira frá honum,“ skrifaði Hreinn.

Hann sagði að þetta hafi verið mjög erfitt fyrir móður sína. „Hún var ófrísk af mér og Leifi bróður og við ólumst upp í Camp Knox að mestu. Við bjuggum ekki í bragga heldur gömlu húsi við Kaplaskjólsveg. Mamma varúthrópuð hóra og við bræðurnir hórusynir og kynblendingar. Þarna í Camp Knox leið okkur bræðrunum samt vel innan um börnin þar sem komu mörg frá ansi brotnum heimilum en þarna byrjað líf okkar bræðranna líka að afvegaleiðast og við vorum engir englar, fullir af biturð og hatri út í fólk sem kom verulega illa fram við okkur. Börnin i kampnum voru indæl og ekki mikið að pæla í uppruna manns eða heimilisaðstæðum enda flest á svipuðu plani og ég og Leifur bróðir,“ skrifaði Hreinn.

Hann sagðist rétt hafa sloppið við að vera sendur til Breiðavíkur. „Við bræðurnir vorum samt heppnari en margir vinir okkar í kampnum sem voru sendir á Breiðuvík og allir vita nú hvernig það fór. Það átti að senda okkur líka í þetta helvíti sem Breiðuvík var en þeim var ekki stætt á því vegna þess að það var enginn drykkjuskapur eð óregla á heimili okkar og við mættum alltaf í skólann,“ sagði Hreinn.

Hreindýrið

Atli Steinn Guðmundsson blaðamaður minnist jafnframt Hreins á Facebook og segir að hann hafi verið hrein goðsögn. „Látinn er Hreinn Vilhjálmsson vaxtarræktar- og kraftlyftingamaður, Hreindýrið svokallaða, ein magnaðasta persóna sem ég hef kynnst um mína daga. Mér bárust tíðindin á miðjum Slayer-tónleikum í Ósló í kvöld sem segir reyndar meira en mörg orð um þennan óviðjafnanlega einstakling sem birtist mér í líki breiðra axla, hroðalegs kassa og grannvaxins kjálkabarðs í World Class í Skeifunni sem var og hét sumarið 1991, þá nýbakaður Norðurlandameistari öldunga í vaxtarrækt en einnig þekktur kraftlyftingamaður og hrein goðsögn fyrir að geta lyft í axlapressu því sem margir áttu í bekkpressu og var auk þess ósínkur á ráðahaginn í garð okkar yngri lyftingamanna.

„Heyrðu Atli, rosalega ertu orðinn mjór!“ öskraði Hreinn einhvern tímann á mig yfir hálfan salinn þegar ég taldi mig einmitt hafa æft eins og skepnu og að nokkuð væri þungt í mér pundið. Þetta var á útmánuðum 1997 skjöplist mér ekki. Ég nálgaðist hreindýrið klökkur, féll kjökrandi á kné og játaði að jú jú, ég hefði mátt vera iðnari við kolann undanfarið, hefði verið mikið að gera í næturlífinu og svo framvegis. Stökk þá grannvaxið andlit Hreins sundur í tröllahlátri og hann játaði fyrir mér hispurslaust að Pétur Leifsson æfingafélagi minn hefði fengið hann til að gera að mér gys. Hlógum við allir stórum að þessu…nema Pétur sem síst hló er síðast hló en verður sú saga ekki sögð fyrr en á efsta degi,“ segir Atli Steinn.

Sprautaði sig og fór með ljóð

Hann lýsir Hreini sem einstökum manni. „Ég vissi að Hreinn var alkóhólisti og ég hafði heyrt söguna af því er bróðir hans ástkær drakk sig í hel en ég vissi minna af fíknivanda hans, allir voru meira og minna í dópi á tíunda áratugnum. Á haustdögum 2009, skömmu áður en við hjón fluttum frá Íslandi, hittum við Hrein í miðbænum og hann bauð okkur heim með sér í kjallaraíbúð í Grafarvogi. Sprautaði Hreindýrið sig þar í æð með ritalíni af stjarnfræðilegri nákvæmni fyrir framan okkur á meðan það fór með frumsamin ljóð eftir sig. Ég man að mér hraus hugur auðvitað en áleitnasta hugsunin var þessi: Svona manni kynnist maður bara einu sinni í hverju lífi,“ segir Atli Steinn.

Hann hugðist heimsækja Hrein í Taílandi en ekki varð úr því. „Það reyndist rétt. Ég talaði aldrei aftur við Hrein eftir þetta haustkvöld 2009 en við áttum samtöl gegnum Facebook. Ég var á leiðinni að heimsækja Hreindýrið til Taílands en auðvitað beið ég of lengi með það og nú er axlapressumeistarinn og vaxtarræktarkóngurinn búinn að kveðja þennan heim. Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Ég kveð Hrein Vilhjálmsson með söknuði og virðingu, ég hef aldrei kynnst öðrum eins húmorista og valmenni. Takk fyrir árin í World Class, ég hef leitað í viskubrunn þinn oftar en hjörtu margra slá heilan mannsaldur.

Líkt og fyrr segir dvaldi Hreinn í Taílandi og er hans minnst í hópi unnenda landsins á Facebook. „Núna er hann vinur okkar Hreinn Vilhjálmsson búinn að kveða okkur það var sorgardagur þegar við fórum upp á hótel til að athuga með líðan hans og þá var hann búinn að kveða okkur í bili ég votta ættingjum og vinum hans samúð mína. Blessuð sé minning hans,“ skrifar Haukur nokkur innan hópsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ísraelar beðnir um að sýna stillingu eftir flugskeytaárás Írans

Ísraelar beðnir um að sýna stillingu eftir flugskeytaárás Írans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einfætt íþróttakona ósátt við að þurfa að kaupa skópar hjá Nike – Þarf að henda helmingnum í ruslið

Einfætt íþróttakona ósátt við að þurfa að kaupa skópar hjá Nike – Þarf að henda helmingnum í ruslið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heiða neitaði að spila lag með Hallbirni Hjartarsyni – „Næsti hlustandi sem náði inn öskraði á mig“

Heiða neitaði að spila lag með Hallbirni Hjartarsyni – „Næsti hlustandi sem náði inn öskraði á mig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Íranir vilji ekki stigmögnun átaka en hafi viljað senda sterk skilaboð

Segir að Íranir vilji ekki stigmögnun átaka en hafi viljað senda sterk skilaboð