fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Viðar kemur þingmönnunum til varnar og vitnar í Jesú: „Fólk á líka að fá að haga sér heimskulega“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 6. desember 2018 12:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur og Sjálfstæðismaður, kemur þingmönnunum sex sem sátu á sumbli á barnum Klaustur til varnar og segir að almenningur ætti að fyrirgefa þeim, líkt og Jesú hefði gert. Hann segir að allir eigi það til að tala ógætilega en það sé alvarlegra að slík samtölu séu tekin upp og birt í fjölmiðlum. Þetta segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

„Íslenskir fjölmiðlar birtu á dögunum leynilega upptöku sem gerð var á einkasamtali sex þingmanna á ölstofu. Virtist allt ætla um koll að keyra því þingmennirnir létu frá sér vanhugsuð ummæli sín á milli, í ölæði. Fremstir í fordæmingunni voru m.a. annálaðir orðsóðar. Auðvitað er það góður mannkostur að haga sér og tala vel um annað fólk en það er svo sem ekkert nýtt að menn segi eitthvað vanhugsað í einkasamtölum, hvað þá þegar öl er við hönd. Slíkt búningsklefatal, manna og kvenna, er eitthvað sem allir hafa gerst sekir um. Sá sem neitar því að hafa sagt eitthvað ógætilegt, hvað þá undir áhrifum áfengis, ætti að hafa eftirfarandi í huga: „Að ljúga að öðrum er ljótur vani, að ljúga að sjálfum sér, hvers manns bani.“,“ segir Viðar.

Hvað hefði Jesú gert?

Viðar minnir á boðskap Jesús. „Fyrir eitthvað um tvö þúsund árum (gróflega áætlað) fæddist maður sem gekk fram með slíkri manngæsku og ást á náunganum að enn þann dag í dag lifum við eftir hans hugsjón. Breytir engu hvort menn eru trúaðir eða ekki. Hver sem Jesús var þá breytti hann heiminum með því að vera góður, að fyrirgefa og með því að ganga fram með góðu fordæmi. Ekki dómhörku og einelti. Þegar dómstóll götunnar ætlaði að grýta til bana konu sem var staðin að framhjáhaldi sagði Jesús þessi merku orð: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“ Það þekkja flestir þessa setningu en hugsanlega færri það sem á eftir kemur og boðskapinn. Þegar dómstóll götunnar heyrði þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum. Jesús var einn eftir, rétti sig upp og sagði við konuna: „Kona, hvar eru þeir? Sakfelldi enginn þig?“ Konan svaraði: „Enginn, herra.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú; syndga ekki upp frá þessu.“,“ segir Viðar.

Hann segir að þingmennirnir séu lagðir í einelti af samfélaginu. „Það er margt hægt að læra af þessari sögu. Einn lærdómurinn er sá að dómstóll götunnar getur verið hættulegur. Einnig sá hluti samfélagsins sem kyndir undir ófriði í bakgrunni og þykist alsaklaus. Annar lærdómur, og sá er ekki síður mikilvægur, er fyrirgefningin. Fyrirgefningin er nefnilega okkar stærsta auðlind. Mannvonska, einelti og dómharka eru andstæður fyrirgefningarinnar. Það sem sexmenningarnir eru að upplifa þessa dagana er nefnilega einelti. Opinber smánun af þessari stærðargráðu er ekkert annað en einelti og stór hluti samfélagsins virðist taka þátt í eineltinu og stærstu gerendurnir eru fjölmiðlarnir,“ segir Viðar.

Þingmenn lagðir í einelti

Hann telur alvarleika málsins snúast fyrst og fremst um að einkasamtal þingmannanna hafi verið tekið upp og birt opinberlega. „Við þurfum öll að horfa í okkar eigin barm og ef við viljum breyta samfélaginu er best að ganga fram með góðu fordæmi; sinna fjölskyldunni, sinna börnunum okkar, ala þau rétt upp sem foreldrar og reyna að betra okkar eigin framgöngu. Slíkur hugsunarháttur getur breytt heiminum. Ekki dómharka. Ekki einelti. Mál sexmenninganna er alvarlegt en alvarleiki málsins felst ekki í því hvort þingmennirnir töluðu ógætilega um hina og þessa heldur fremur hvort við sem samfélag samþykkjum að brotið sé á grundvallarmannréttindum fólks. Hvort við samþykkjum að einkasamtöl séu tekin upp, að einstaklingar séu hleraðir án dómsúrskurðar. Jafnframt hvort við sem samfélag ætlum að vera það refsiglöð, að ógætilegt orðaval eigi að verða til þess að mönnum sé úthýst, þeir séu opinberlega niðurlægðir, missi vinnuna; jafnvel húsið og fjölskylduna í framhaldinu,“ segir Viðar.

Hann telur að fjölmiðlar hafi kynt undir ófrið með því að greina frá samtali þingmannanna. „Fólk á að fá að eiga sín einkasamtöl án þess að þau séu tekin upp og birt opinberlega. Menn segja stundum ógætilega hluti í tveggja manna tali. Fólk á líka að fá að haga sér heimskulega. Jafnvel þótt tækniframfarir séu þess eðlis að auðvelt sé að hlera fólk eða taka það upp á laun. Það þarf dómsúrskurð fyrir hlerun og það er ástæða fyrir því. Það er satt að segja ótækt að fólk sé tekið upp án heimildar og að fjölmiðlar birti upptökurnar til þess að koma á fót dómstóli götunnar og kynda undir ófriði. Slík vinnubrögð eru ömurleg og engin furða að traust til fjölmiðla sé fast í alkuli. Það er áunnið vantraust. Sennilega eru þessi sjónarmið hér að ofan bannfærð hjá „góða fólkinu“ en í því samhengi er eftirtektarvert hversu margir, sem hafa sagt engu skárri hluti í vitna viðurvist, fóru snögglega að sækjast eftir að vera teknir í dýrlingatölu „pólitísku rétttrúnaðarkirkjunnar“. Glöggt er auga á annars lýti,“ segir Viðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala