fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Guðni orkumálastjóri segir Kona fer í stríð sýna ofbeldi: „Fólk sem hatar rafmagn“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 18. desember 2018 15:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri fer hörðum orðum um kvikmyndina Kona fer í stríð í leikstjórn Benedikts Erlingssonar í jólaerindi sínu. Hann lýsir aðgerðum aðalpersónu myndarinnar, Hölla, sem er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur, sem ofbeldi. Myndin hefur verið ausin lofi úr flestum áttum og vann til SACD verðlaunanna á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Guðni fjallar sérstaklega um myndina í sérkafla í jólaerindi sínu sem ber millifyrirsögnina „Fólk sem hatar rafmagn“. Þar segir hann söguþráðinn einfaldan og fordæmir aðgerðir Höllu. „Nýjasta kvikmynd Benedikts Erlingssonar fer nú sigurför um heiminn og vinnur til verðlauna víðast hvar þar sem hún er sýnd á kvikmyndahátíðum. Söguþráðurinn er einfaldur, kona á besta aldri er búin að fá nóg af nýjum virkjunum, rafmagnslínum og iðjuverum sem breyta ásýnd landsins og og leggur til atlögu við ófreskjuna. Hún laumast um heiðar landsins með boga í hönd og örvamæli á bakinu og skýtur málmþræði yfir háspennulínur sem mynda skammhlaup og slá út raforkukerfinu. Rafmagn fer af stóriðjuveri en einnig hjá stórum hluta landsmanna. Við sem höfum á unga aldri drukkið í okkur frásagnir af Hróa Hetti og köppum hans förum létt með að trúa því að bogi og örvar séu öflugt vopn í baráttu gegn vondum öflum og til þess að bjarga fögrum konum úr klóm misyndismanna,“ segir Guðni.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri

Hann segir að ofbeldið sem birtist í myndinni sé úrelt. „Það er áleitin spurning hversu mikið vit er í því að leggja vinnu í vandaða umfjöllun og lýðræðislega afgreiðslu mikilvægra og erfiðra mála ef framhaldið er síðan á valdi einstaklinga sem telja sig hafa svo góðan málstað að verja að þeir geti tekið sér vald til þess að ráðast með ofbeldi gegn uppbyggingu mannvirkja og atvinnustarfsemi sem byggir á  lýðræðislegri og málefnalegri niðurstöðu bærra stofnana og yfirvalda og er til komin í samræmi við gildandi lög í landinu. Reyndar er það þannig að ofbeldið í þessari mynd er jafn úrelt og bogi og örvar sem stríðstól,“ segir Guðni.

Hann bendir á að aðgerðir Höllu myndu valda gífurlegu tjóni í raunveruleikanum. „Það efnahagslega tjón fyrir framkvæmdaaðilann sem hægt er að valda með skemmdarverkum á mannvirkjum og búnaði eru hreinir smámunir miðað við það fjárhagslega tjón sem hægt er að valda með því að leggja fram tilefnislausar kærur vegna verkefna sem eru að nálgast framkvæmdastigið og skapa þannig tafir og óvissu um áframhaldið, sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar t.d. fyrir fjármögnun verkefnisins. Þær réttarbætur sem voru innleiddar til þess að veita almenningi aðkomu að ákvörðunum um framkvæmdir voru einfaldlega vanhugsaðar þannig að kæruheimildir liggja alltof aftarlega í ferlinu. Það þýðir annars vegar að samfélagslegur kostnaður vegna þeirra tafa og breytinga sem kærur geta leitt til verður mjög hár, eins og nýlegt dæmi vegna laxeldis á Vestfjörðum sýnir okkur, og hins vegar að góðar ábendingar koma í alltof mörgum tilfellum of seint fram til þess að geta haft áhrif á verkið nema til þess að tefja framkvæmd þess,“ segir Orkumálastjóri.

Hann telur að Benedikt Erlingsson sé í mótsögn við sjálfan sig. „Í framhaldinu hefur síðan höfundur myndarinnar lagt ofuráherslu á að halda myndinni fram sem innleggi í umræðuna um loftslagsmálin. Þar er hann, eins og ungt ljóðskáld benti á í viðtalsþætti í ríkisútvarpinu, kominn í augljósa mótsögn við meginstef myndarinnar sem er að berjast gegn framleiðslu vistvænnar orku og nýtingu hennar fyrir þau framleiðsluferli sem mannkynið telur sér nauðsynleg og fá nú orkuna frá brennslu kola og annars jarðefnaeldsneytis,“ segir Guðni

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi