fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Erla er látin, aðeins 33 ára að aldri – Átti sér þann draum að vera jörðuð á Íslandi – „Hvíldu í friði fallega rósin mín“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 8. nóvember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erla Jóhannsdóttir lést þann 30. október síðastliðinn eftir áralanga og hetjulega baráttu við erfið veikindi. Hún var aðeins 33 ára gömul og skilur eftir sig 13 ára gamlan son. Erla var búsett á Englandi en átti sér þá ósk heitasta að vera jarðsett á Íslandi, í kirkjugarðinum á Akranesi. Fjölskylda Erlu vill láta þá ósk rætast.

Hrakaði hratt

Erla var 9 ára gömul þegar hún fluttist til Bandaríkjanna ásamt móður sinni og bandarískum fósturföður. Þremur árum síðar flutti fjölskyldan síðan til Thetford í Englandi þar sem Erla sótti gagnfræðaskóla. Þar voru þau búsett í sjö ár. „Við fluttum síðan aftur til Bandaríkjanna og hún valdi að vera eftir,“ segir Birna Rúnarsdóttir móðir Erlu í samtali við DV.

Veikindi Erlu hófust  í kringum 14 ára aldur en þá var hún greind með sykursýki. Hún varð ófrísk að stráknum sínum Lashaughn þegar hún var tvítug og tók meðgangan mikið á hana líkamlega.

„Hún fór síðan að fá stöðugar sýkingar í nýrun og í ljós kom að það var vöxtur í blöðrunni sem eyðilagði nýrun. Hún þurfti að fara í blóðskiljun þrisvar í viku sem var mikið álag á líkamann. Út frá því fékk hún heilablóðfall og í kjölfarið missti hún sjónina, en sjónin hennar var þegar orðin léleg út af sykursýkinni.“

Birna flutti aftur til Englands árið 2013 til að sinna dóttur sinni og barnabarninu, sem þá var orðinn átta ára gamall. Heilsu Erlu hrakaði mikið síðustu ár. Heilablóðfallið olli því að hún missti skammtímaminnið. Hún varð stöðugt veikbyggðari og glímdi við margvíslega líkamlega kvilla sem fylgja nýrnabilun. Ónæmiskerfi hennar var orðið lélegt og hún fékk stöðugt sýkingar.

Erla fékk að sögn Birnu heimahjúkrun en minni hennar hafði hrakað svo mikið að það var hreinlega orðið hættulegt að hafa hana heima. Að lokum afréðu læknar að koma henni á sjúkradeild fyrir alzheimersjúklinga, þar sem hún var 40 til 50 árum yngri en allir aðrir.

„Henni leið þó ekki illa þar. Starfsfólkið var hreint út sagt yndislegt og vildi allt fyrir hana gera. En það var orðið mjög mikið álag að hafa hana heima,“ segir Birna sem hefur sinnt fullri vinnu síðustu ár samhliða umönnun Erlu.

Ljóst í hvað stefndi

 Aðdragandinn að andláti Erlu hefur því verið mjög langur að sögn Birnu. Hún var á biðlista eftir gjafanýra en hún var tekin af listanum eftir að hún fékk heilablóðfallið.

Viku áður en Erla dó var Birnu tjáð af læknum að ekkert meira væri hægt að gera fyrir dóttur hennar.

„Það var ljóst að skiljunin væri einungis að ná að halda henni á lífi. Þegar læknirinn hringdi og tilkynnti að það yrði ekki meiri skiljun þá vissi ég um leið í hvað stefndi.“

Faðir Erlu býr á Íslandi og að sögn Birnu hafa þau ætíð haldið góðu sambandi. „Hann var komin út tveimur dögum eftir að við fengum fréttirnar.“

Barnsfaðir Erlu hefur að sögn Birnu lítið verið inni í myndinni og hefur ekki sýnt vilja til þess að umgangast son sinn. Það hefur því ekki annað komið til greina en að Birna verði hans forsjáraðili. „Þau mæðgin voru ofboðslega náin og hann hefur alltaf verið mikill mömmustrákur.“

Falleg að innan og utan

Undanfarna daga hafa fjölmargir ritað gullfalleg minningarorð um Erlu á Facebook. Vinkona hennar hefur hrundið af stað söfnun á Gofundme.com til að létta undir með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum. Í kynningartexta kveðst hún vonast til þess að „hin fallega bláeygða Erla fái ósk sína uppfyllta.“

„Hún var gullfalleg að innan og að utan.“

Æskuvinkona Birnu minnist Erlu sem „hvíthærðum engli með prakkarasvip“

„En ég veit þú ert komin á betri stað og finnur ekki lengur til. Birna amma passar lilla, eins og við köllum hann alltaf.“

„Við í fjölskyldunni höfum alltaf hlegið að því hvað Erla er lík mömmu minni, sem var alltaf rosalega bleik og „bling bling“, algjör skvísa. Erla var nákvæmlega eins, algjör gella, alltaf að skipta um hárgreiðslur og vandlega máluð. Hún eignaðist marga vini í Ameríku og hérna í Englandi,“ segir Birna í samtali við blaðamann.

Erla með syni sínum sem nú er 13 ára

„Hvíldu í friði fallega rósin mín“

Erla var kistulögð í gærdag og var athöfnin fámenn og falleg.

„Elsku fallega dóttir mín var kistu lögð í dag, þetta var falleg lítil stund sem við foreldrarnir fengum með henni, hjarta okkar er brotið hvíldu í friði fallega rósin mín,“

ritaði Birna í færslu á facebook.

„Hún vildi ekki hafa jarðarför í Englandi, hún vildi vera jörðuð á Akranesi, á milli afa síns og ömmu. Við virðum það að sjálfsögðu og ætlum að láta það verða að veruleika. Hún var mjög náin ömmum sínum og öfum, en hún er fyrsta barnabarn foreldra minna og svo er hún alnafna ömmu sinnar í Sandgerði.“

Lík Erlu verður brennt að sögn Birnu en kostnaðurinn í kringum brennsluna og útförina á Íslandi er umtalsverður.

Styrkur frá ríkinu dekkar aðeins hluta kostnaðarins sem hleypur á 2.500 pundum.

„Erla var einkadóttir mín og hún var eina barnið mitt. Ég var bara 18 ára þegar ég átti hana og við áttum ofboðslega gott mæðgnasamband. Fólk hefur furðað sig á því að ég skuli leggja svona mikið á mig við að sinna henni í veikindum hennar, enda hef ég sett líf mitt algjörlega á pásu. En fyrir mér er það sjálfsagt. Það hefur aldrei neitt annað komið til greina,“ segir Birna að lokum og bætir við að það sé styrkur í sorginni að eiga dóttursoninn, sem er með sömu blágráu augu og móðir sín.“

Þeir sem vilja styðja við bakið á fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum er bent á eftirfarandi styrktarreikning:

 Reikningsnúmer: 0537 -26 -260672. Kennitala: 260672-6069.

 Einnig er hægt að leggja söfnunni lið í gengum vefsíðu Gofundme.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu