fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Vagnstjóri horfði á House of Cards í akstri – „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 4. nóvember 2018 20:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vagnstjóri á leið 21 Kauptún horfði látlaust á Netflix í akstri í dag. Atvikið átti sér stað um hálffjögur-leytið og brot af því náðist á myndband er fimmtán ára unglingur tók það upp. Er unglingurinn varð var við að vagnstjórinn var að horfa á sjónvarp í akstri varð hann áhyggjufullur og hafði samband við móður sína sem sagði honum að taka þetta upp. Móðirin, Helga Kristín Olsen, hafði fyrst samband við Strætó en ekki svaraði. Hún hringdi þá í lögregluna sem kvaðst ætla að tilkynna málið til forsvarsmanna Strætó.

Pilturinn gaf sig á tal við vagnstjórann, sem var kona af erlendu bergi brotin, og benti henni á að það væri ólöglegt að horfa á sjónvarp í akstri. Konan skildi hann ekki fyrst og skipti pilturinn þá yfir í ensku. Þá sagðist konan ekkert horfa á sjónvarpið, hún væri bara að hlusta.

„En hún var með skjáinn í sérstöku statífi einmitt til að geta horft á þetta. Og hún eyddi tíma og fyrirhöfn í að velja sér mynd sem hún slökkti á, skrollaði síðan niður og valdi sér aðra mynd og horfði á þátt úr The House of Cards á meðan hún ók strætisvagninum,“ segir Helga. Hún segist stolt af syni sínum fyrir að hafa brugðist við: „Í staðinn fyrir að sitja bara og gera ekkert þó að hann vissi að þetta væri rangt. Maður keyrir ekki og talar í síma nema með handfrjálsum búnaði – og því síður horfir maður á myndband á meðan maður ekur.“

Forsvarsmönnum Strætó og Kynnisferða brugðið: „Þetta mál verður tekið föstum tökum“

Leið 21 er ein af tíu leiðum sem Kynnisferðir reka sem undirverktaki hjá Strætó en leiðin liggur frá Sólvangi í Hafnarfirði, um Kauptún í Garðabæ og Smáralind í Kópavogi, og endar í Mjódd.

DV hafði samband við Guðmund Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúa Strætó, og var honum mjög brugðið yfir þessu. „Það er alvarlegt brot að horfa á sjónvarp í akstri og hvað þá ef maður ekur hópferðabifreið. Við fordæmum svona hegðun og það verður að rannsaka þetta.“

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að einhver brögð séu að snjalltækjanotkun bílstjóra í akstri en þetta atvik sé þó sérstaklega gróft og með eindæmum. „Við höfum verið í samstarfi við strætó við að reyna að stemma stigu við þessu á meðal okkar starfsfólks. Í rútunum höfum við verið í samstarfi við Slysavarnarfélagið þar sem okkar bílstjórum hefur verið boðið að kvitta undir samning um að nota ekki þessi tæki í akstri. Við förum reglulega yfir þessi mál og við fögnum því að sektir hafa verið hækkaðar til muna fyrir brot af þessu tagi og vonumst til að lögreglan taki hart á þessum málum. Það er sérstaklega alvarlegt að hópferðabílstjóri geri svona, þetta eru atvinnubílstjórar á þungum tækjum og oft margir farþegar um borð.“

Eftir að bæði Guðmundur og Björn höfðu fengið að sjá myndbandið ákvað Björn að hafa samband við Helgu vegna málsins. Guðmundur sagði þá við DV: „Það er ömurlegt að horfa á þetta. Svona hegðun kastar rýrð á þjónustuna og aðra starfsmenn Strætó sem eru almennt til fyrirmyndar í umferðinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt