fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Sigurlaug 19 ára fær ekki launin sín: Eigandinn situr í bankaráði Landsbankans – „Ná ekki einu sinni að borga leigu […] Fjölskyldufólk fær ekkert greitt“

Auður Ösp, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Laugardaginn 3. nóvember 2018 20:45

Sigurlaug 19 ára fékk ekki launin sín

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veitingastaðnum Rústik við Ingólfstorg hefur verið skellt í lás. Veitingastaðurinn er í eigu La Dolce Vita ehf og var stjórnarformaður og einn af eigendum þess félags Samúel Guðmundsson, en hann situr í bankaráði Landsbankans. Þá hefur Samúel verið innkaupastjóri Olís til margra ára og er eigandi ráðgjafafyrirtækisins Sjávarkaupa. Hefur hann víða komið við í íslensku viðskiptalífi. Samúel ásamt Sæmundi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra félagsins, og Jóni Guðmundi Ottóssyni keyptu veitingastaðinn í apríl 2017 af fyrri eigendum staðarins og tóku algjörlega yfir rekstur hans.

Þegar tilkynningar til Ríkisskattstjóra eru skoðaðar sést að flótti stjórnarmanna úr félaginu hefst 19. september síðastliðinn þegar Samúel segir sig úr stjórn félagsins. Sæmundur fylgdi svo fast á eftir, þann 25. september. Þrátt fyrir að nokkuð augljóst hafi verið í hvað stefndi í september, samkvæmt þeim gögnum sem DV hefur undir höndum,  var starfsfólki ekki tilkynnt fyrr en í lok október að staðurinn væri að fara að hætta rekstri. Í Facebook-skilaboðum sem send voru á starfsfólk er ástæðan sögð vera „rekstrarerfiðleikar og uppsögn á leigusamningi.“ Starfsfólki staðarins var tilkynnt á fimmtudagskvöld að laun yrðu ekki greidd fyrir októbermánuð. Áður hafði verið haldinn fundur og fullyrða starfsmenn við DV að þeim hafi verið lofað að laun yrðu greidd.

Ung kona, 19 ára, Sigurlaug Sunna Hjaltadóttir hefur unnið sem þjónn á Rústik allt frá opnun veitingastaðarins.  Í samtali við DV segir hún að fregnirnar hafi komið öllum að óvörum. „Við vorum að vinna á laugardeginum og svo er okkur sagt þetta á sunnudagskvöld.“ Sigurlaug er nú í þeirri stöðu að fjárhagslegt öryggi hennar er í uppnámi.

Meðfylgjandi skilaboð í Facebook-hóp starfsmanna á sunnudagskvöld en þar kemur fram að vegna rekstrarerfiðleika og uppsagnar á leigusamningi verði Rústik lokað.

Að sögn Sigurlaugar var boðað til fundar með starfsmönnum síðastliðinn mánudag þar sem rekstrarstjóri kom áleiðis skilaboðum frá eiganda þess efnis að allir myndu fá greidd laun þann 1.nóvember næstkomandi.

Á fimmtudagskvöld birtust hins vegar ný skilaboð inni á fyrrnefndum Facebook-hóp þar sem rekstrarstjóri staðarins tilkynnti að engin laun yrðu greidd út. Var starfsfólkið hvatt til að hafa samband við viðkomandi stéttarfélag og skrá sig atvinnulaust hjá Vinnumálastofnun.

„Eigandinn kom oft með vinum og fjölskyldu að borða og keypti dýrasta vínið. Reikningurinn endaði oftast upp á um 200 þúsund krónur. Mér finnst furðulegt að hann gat gert það en ekki borgað svo starfsfólki sínu laun sem þau unnu fyrir“ segir Sigurlaug í samtali við DV.

Kveðst Sigurlaug hafa leitað til Eflingar vegna málsins og verið beðin um að mæta þangað með launaseðil eftir helgina. Hún bætir við að óvissan sé mikil á meðal starfsfólksins. Staðan hjá fyrrverandi starfsfólki er sú að sumir geta ekki greitt leigu og framtíð þeirra því í óvissu.

„Tveir úr hópnum ná ekki einu sinni að borga leigu, og sömuleiðis er þarna fjölskyldufólk sem fær ekkert greitt.“

DV reyndi ítrekað að ná sambandi við Samúel Guðmundsson vegna vinnslu fréttarinnar en án árangurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu