fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

„Það er algjörlega verið að leika sér með lífið okkar í rússneskri rúllettu“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 16. október 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég og margir aðrir óttumst að það verði í raun ekki gerðar neinar breytingar á heilbrigðisþjónustunni, ekki fyrr en eitthvað endar mjög illa, eins og með dauðsfalli,“ segir Margrét Steinunn Jónsdóttir, íbúi í Vestmannaeyjum en hún og unnusti hennar, Birkir Helgason eiga von á sínu fyrsta barni í desember. Í Vestmannaeyjum er starfrækt svokölluð ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta  sem þýðir að eingöngu konur með litla fæðingaráhættu geta sótt fæðingarþjónustu í bænum. Öðrum barnshafandi konum er vísað á  sjúkrahús í Reykjavík eða á Akranesi.

Engin skurðstofa

Breytingar urðu á þjónustustigi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum þegar skurðstofunni var lokað vegna niðurskurðar og manneklu. Eftir það hafa barnshafandi konur í Vestmannaeyjum ekki haft aðgang að skurð- og svæfingalækni, skurðstofu og ljósmæðravakt allan sólarhringinn.

Árið 2016 eignuðust 42 konur með lögheimili í Vestmannaeyjum börn. Þetta kom fram í frétt DV í febrúar í fyrra. Þar af völdu þrjár konur að fæða í Vestmannaeyjum. Flestar kvennanna áttu hins vegar sín börn á Landspítalanum.

„Ég póstaði þræði á grúppu á facebook sem heitir „Kvenfólk í Eyjum“. Þar var ég að leita af stuðning fyrir þessum bréfum. Égetti af stað þar óformlega skráningu og nafnalista sem endaði á tæplega 450 nöfnum. Bréfið sendi ég svo á alla þingmenn Suðurkjördæmis og á alla sitjandi ráðherra í ríkisstjón,“ segir Margrét Steinunn í samtali við DV.

Ömurleg staða

Þá hefur hún einnig sent bréfið á forstjóra HSU. Aðspurð segist hún hafa fengið svör frá nokkrum þingmönnum en bíði helst eftir svari frá heilbrigðisráðherra.

„Núna næst á dagskrá hjá mér er að setja af stað ennþá meiri þrýsting á endurbótum og einhverjum aðgerðum. Það er að segja ætla að opna formlegan og rafrænan undirskriftarlista sem verður aðgengilegur öllum. Enda er þetta ekki bara málefni sem varðar okkur í Vestmannaeyjum heldur alla landsbyggðina. Mjög margir byggðarkjarnar eru í þessari ömurlegu stöðu og jafnvel verri stöðu. En það sem gerir þetta svo rosalega erfitt fyrir okkur í Vestmannaeyjum er sú augljósa staðreynd að við búum á eyju, sem gerir okkur oft á tíðum lífið leitt með lélegum samgöngum og heilbrigðisþjónustu sem er ekki boðleg.“

Margrét Steinunn Jónsdóttir og Birkir Helgason.

Hér fyrir neðan má finna bréfið í heild sinni.

„Margrét Steinunn heiti ég, 27 ára fæddur og uppalinn Vestmannaeyingur, maki minn er Birkir Helgason 28 ára fæddur og uppalinn Vestmannaeyingur. Aldurinn skiptir kannski ekki öllu en hann gerir það núna út frá málefninu sem við viljum ræða. Ég er 27 ára og maki minn 28 ára, bæði FÆDD og uppalin í Vestmannaeyjum. Ég legg áherslu á orðið „fædd“ þar sem núna stöndum við í þeirri stöðu að vera að fara að eignast okkar fyrsta barn. Enn búsett í Vestmannaeyjum, en því miður fáum við ekki að njóta sama „frelsis“, ef svo má að orði komast, og mæður okkar fengu fyrir 28 og 27 árum síðan. Mæður okkar gátu átt okkur og systkini okkar beggja, við góða og örugga heilbrigðisþjónustu hér í Vestmannaeyjum, á árunum 1986 – 2002. Fleiri konur en mæður okkar hafa haft þetta „frelsi“ og það fyrir árið 1986.

Ég og maki minn erum í þeirri stöðu, núna árið 2018, að við þurfum að fara frá okkar heimabyggð, ferðast á næsta fæðingarstað sem býður uppá þá þjónustu sem við þörfnumst til að koma syni okkar í heiminn á sem öruggastan hátt. Við þurfum að vera frá heimili okkar og fjölskyldu um óákveðinn tíma, auk þess sem maki minn verður fyrir vinnutapi og þar með töluverðu launatapi fyrir okkur, sem er ekki eitthvað sem nýbakaðir foreldrar hafa efni á í dag. Til að bæta ofan á þetta launatap, þá þarf að hafa samastað á þeim fæðingarstað sem kosinn er (sem er í flestum tilfellum höfuðborgarsvæðið, þar sem þar er allt sem þarf ef vandræði gera vart við sig í fæðingu). Samastaðurinn getur verið inná vinum og fjölskyldu, ef fólk býr svo vel að eiga fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu. Það er samt sem áður ekki frábær staða fyrir verðandi foreldra að þurfa að vera inná fjölskyldu/vinum. Þar sem flestir verðandi foreldrar vilja helst vera útaf fyrir sig og slaka á fyrir komandi fæðingu og nýtt hlutverk.

Í flestum tilfellum reynist þó samastaðurinn vera íbúðir sem leigðar eru út, enn og aftur um óákveðinn tíma, því ekki getum við stjórnað því hvenær krílin okkar ákveða að koma í heiminn. Þetta eru oftast íbúðir á vegum stéttarfélaga sem reyna að hafa sín kjör sem sanngjörnust fyrir sitt félagsfólk, en verðið er samt rosalegt þegar um er að ræða ferðalag sem verðandi foreldrar eru ekki að kjósa sjálfir. Ég tala nú ekki um ef maður er settur á „óhagstæðum“ tíma, kringum hátíðir eða þess háttar þegar oft reynist erfitt að fá íbúðir hjá stéttarfélögum. Til að gefa ykkur smjörþefinn af kostnaði við íbúðaleigu, get ég nefnt að íbúð í x3 vikur hjá ónefndu stéttarfélagi kostar í kringum 70 þúsund krónur, sem er kannski í sjálfu sér ekki dýrt, en eins og ég segi þegar þetta er ekki OKKAR VAL þá er þetta töluverður aukakostnaður ofan á þær mánaðarlegu greiðslur sem maður er með fyrir, því ekki bíða þær. Þegar þetta hefur verið greitt þá kemur nú auðvitað meiri kostnaður, því ekkert er frítt í dag. Við tekur biðin eftir krílinu og þar af leiðandi auka kostnaður: uppihald á fæðingarstaðnum sjálfum.

Núna hef ég líka bara talað út frá því að fólk er að eiga sitt fyrsta barn. Ég get ekki ímyndað mér óþægindin sem fylgja því að þurfa að „yfirgefa“ eldra barn/börn, enn og aftur um óákveðinn tíma, til að fara að eignast yngra systkinið. Að þurfa að vera frá barninu sínu getur ekki verið auðvelt fyrir foreldra, hvað þá að vera í þeim vandræðum að finna þeim samastað á meðan á biðinni stendur. Í rauninni myndi ég flokka þetta sem auka álag og stress á foreldra sem eru nú þegar undir miklu álagi eða stressi við það að koma nýjum fjölskyldumeðlim í heiminn.

Hér er ég bara búin að nefna helstu og stærstu gallana sem fylgja því að geta ekki átt barnið sitt í sinni heimabyggð. Þeir eru auðvitað mun fleiri og í raun efni í stóra skýrslu. Ekki láta mig byrja á samgöngumálunum eða neyðartilfellum sem myndast oft á tíðum og enda með sjúkraflugi/þyrlu því ekki var hægt að sinna tilfellinu hér. Það hefur nú oft komið í fjölmiðlum að oft reynist erfitt að lenda í Vestmannaeyjum á vetrar mánuðunum og þið ættuð að vita að oft eru tilfellin þannig að hver og ein mínúta skiptir máli!

En hver hefur valdið til að taka þetta val og frelsi af okkur verðandi foreldrum? Af hverju fáum við ekki að njóta sömu réttinda og verðandi foreldrar í stærri byggðarkjörnum fá? Af hverju þurfum við að fórna okkur í að fara frá heimilum, fjölskyldu og vinnu um ÓÁKVEÐINN tíma til þess eins að eiga barnið okkar? Af hverju eru ÞIÐ að setja okkur í þessar erfiðu aðstæður? Það á ekki að mismuna fólki út frá því hvar maður á heima.

Ég veit til þess að það var settur af stað hópur sem kannaði sjúkrahúsið hér í Vestmannaeyjum, aðstöðu þess og með öryggi íbúa að leiðarljósi. Þessi hópur skilaði niðurstöðum þess eðlis að út frá íbúafjölda, byggðarlagi (jú við búum nú á eyju) og aðstöðu sem sjúkrahúsið hafði uppá að bjóða, að hér þyrfti að vera starfandi skurðstofa/fæðingaraðstaða með yfirskriftinni C1. Samkvæmt Landlæknisembætti er þetta skilgreiningin á fæðingaraðstöðu C1:
„Millistærð á fæðingardeild þar sem auk ljósmæðra starfa fæðinga- og kvensjúkdóma-
læknir og/eða skurðlæknir sem hefur þjálfun í bráða- fæðingarhjálp, áhaldafæðingum
og keisaraskurði. Hægt er að bjóða upp á framköllun fæðinga og mænurótardeyfingu.
Bráðaaðgangur að skurðstofu með svæfingarlækni allan sólarhringinn.“

Það hefur ekki mikið skeð í þessum efnum eftir að þessi niðurstaða birtist. Í rauninni hefur afturförin bara haldið áfram og núna í dag geta verðandi foreldrar ekki einu sinni farið í sónar hér í Vestmannaeyjum.
Ekkert mál og gott og blessað, ég er ekki fædd í gær og ég veit að það eru mörg önnur mál sem eru mikilvægari en þetta „lítilvæga vandamál“ okkar Vestmannaeyinga, sem og annarra minni bæjarfélaga á landsbyggðinni. Við viljum samt sem áður svör og krefjumst svara varðandi það af hverju þetta er ekki bætt? Ef svörin eru að „ekki er fjármagn í þetta“, sem mér þykir ekki boðlegt svar, en það er bara mín skoðun, þá legg ég til að þið virkilega skoðið það sem þið eruð að taka af verðandi foreldrum á landsbyggðinni og tjónið sem þið valdið. Það minnsta sem þið, ráðamenn þjóðarinnar, getið gert er þá allavega að standa við bakið á okkur sem augljóslega virðast skipta minna máli en þau sem búsett eru á höfuðborgarsvæðinu. Það væri almennilegt ef þið mynduð taka þátt í kostnaði á einn eða annan hátt, með því til dæmis að halda úti íbúðir fyrir okkur sem þurfum að koma og eiga börnin okkar á öruggum fæðingarstað, fyrst það er ekki í boði fyrir okkur í okkar heimabyggð. Þannig að það auðveldi okkur að slaka á fyrir komandi fæðingu. Veita eða bjóða uppá styrki á einn eða annan hátt: peningarlega, matarlega, bensínlega séð eða bara eitthvað sem myndi hjálpa í erfiðum aukakostnaði út frá aðstöðu sem ÞIÐ eruð að setja okkur í. Mismunun út frá heimili er eins og ég hef sagt ekki boðleg. Við krefjumst svara og endurbóta á stöðu sem ÞIÐ kæru ráðamenn kjósið að setja okkur „sem minna máli skiptum“ í.

Ég er tilbúin í frekara samtal og umræður um þetta mikilvæga og alvarlega mál því ég er ekki tilbúin í að sitja lengur aðgerðarlaus og bíða eftir að síendurteknum loforðum um endurbætur sem er ekki að sjá að séu á dagskránni.

Þetta bréf sendist á alla ráðherra í ríkisstjórn ásamt öllum þingmönnum suðurkjördæmis. Með þessu bréfi fylgir óformlegur nafnalisti þeirra einstaklinga sem taka undir með mér og maka mínum og krefjast svara og endurbóta á þessu grafalvarlega máli. Seinna mun ykkur berast formlegur undirskriftarlisti. Ég veit þó til að árið 2009 var sambærilegur undirskriftarlista afhentur í hendur þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni og ekki hefur ástandið síðan þá breyst. Því krosslegg ég fingur um að ný ríkisstjórn sitji ekki í aðgerðarleysi og grípi frekar til aðgerða sem fyrst á einn eða annan hátt.

Bestu kveðjur
Margrét Steinunn Jónsdóttir og Birkir Helgason fæddir og uppaldir Vestmannaeyingar og verðandi foreldrar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“