Öfgar í veðri - Nístingskuldi í Bandaríkjunum og nær óbærilegur hiti í Ástralíu

Óhætt er að segja að miklar öfgar séu í veðurfari í Norður-Ameríku og Ástralíu þessa dagana. Á meðan íbúar víða í Norður-Ameríku skjálfa úr kulda og berjast við mikið snjófargan svitna Ástralir hressilega vegna mikilla hita sem herja nú á landið.

Kaldasti staðurinn í Bandaríkjunum í gær var Mount Washington, sem er 1.916 metra yfir sjávarmáli, en þar mældist frostið 38 gráður og jafn kalt var í Armstrong í Ontario í Kanada. Ef vindkæling er tekin með í reikninginn var frostið 69 gráður og voru þetta því köldustu staðirnar á jörðinni í gær.

Kuldinn hefur haft mikil áhrif á flugsamgöngur og sett þær mikið úr skorðum. Rúmlega 3.000 flugferðum hefur verið aflýst vegna kuldans, bæði innanlandsflugi sem og flugi til og frá Norður-Ameríku. Að minnsta kosti 19 manns hafa látist í kuldakastinu.

Í Ástralíu er staðan allt önnur því þar er hitinn mikill og í gær mældist hitinn 47,3 gráður í Penrith, sem er úthverfi í Sydney. Aldrei fyrr hefur svo mikill hiti mælst í hverfinu. Hitametið í Sydney féll þó ekki en það er 47,8 gráður sem mældust á Richmond station 1939 en sú stöð er ekki lengur notuð við veðurmælingar. Gærdagurinn var sá heitasti í borginni í 79 ár.

Gróðureldar hafa kviknað í námunda við Sydney vegna hinna miklu hita en viðvaranir höfðu verið gefnar út um mikla eldhættu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.