fbpx
Fimmtudagur 24.janúar 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fáðu DV í áskrift

Þú getur valið prentáskrift eða vefáskrift

Sjá nánar eða Lesa blaðið
Fréttir

Hreggviður: „Hann reyndi að drepa mig“ – ævintýralegar nágrannadeilur

Deilur milli ábúenda að Langholti 1 og 2 hafa staðið yfir í áratug

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 8. janúar 2018 09:00

„Hann reyndi að drepa mig,“ segir Hreggviður Hermannsson, bóndi að Langholti 1b í Árnessýslu. Hreggviður sakar nágranna sinn, Ragnar Val Björgvinsson, sem býr í Langholti 2, um að hafa reynt að keyra yfir hann á bifreið. Hin meinta árás átti sér stað þann 21. desember síðastliðinn. Hreggviður hefur lagt fram kæru vegna málsins en það hafa nágrannar hans, Ragnar Valur og eiginkona hans, Fríður Sólveig Hannesdóttir, einnig gert. DV hefur þó ekki heimildir fyrir því í hverju kæra þeirra felst en að sögn lögmanns þeirra vilja þau ekki reka málið í fjölmiðlum. Deilurnar milli nágrannanna hafa staðið yfir í rúman áratug og oftsinnis ratað í fjölmiðla.

Reyndi að koma í veg fyrir meint skemmdarverk

„Ég var að vinna inni í skúr á minni landareign og sá þá að þau hjónin voru að koma að vírgirðingu sem aðskilur landareignirnar. Þau hafa þann sið að eyðileggja girðinguna og taka hana með sér og það var akkúrat það sem gerðist þarna. Fríður tók vírgirðinguna og dró hana með sér heim að bænum,“ segir Hreggviður í samtali við DV. Hann var með hamar í hönd þegar atvikið átti sér stað og tók hann með sér á vettvang.

Hann segist hafa gengið að og ætlað að koma í veg fyrir skemmdarverkið. „Ég var á eftir henni og var að reyna að stíga á vírspottann. Ragnar reyndi þá að keyra í veg fyrir mig en ég komst fram fyrir hann,“ segir Hreggviður. Skyndilega hafi þá Ragnar keyrt á eftir honum og fann Hreggviður að hann var að lenda undir bifreiðinni.

Áverkar Hreggviðs eru töluverðir en hann slapp blessunarlega við beinbrot.
Beygður en ekki brotinn Áverkar Hreggviðs eru töluverðir en hann slapp blessunarlega við beinbrot.

Mynd: Hreggviður Hermannsson

Leið út af yfir kvöldmatnum

„Hann reyndi að keyra mig niður en ég stökk þá upp á húddið til að bjarga mér. Ég reyndi að halda mér þar með annarri hendi en á meðan keyrði Ragnar hring á lóðinni og meðal annars í gegnum limgerði,“ segir Hreggviður. Hann missti loks takið, valt yfir húddið og féll til jarðar. Þá tók ekki betra við því Hreggviður sakar Ragnar um að hafa keyrt yfir fæturna á honum. Sýnir hann blaðamanni myndir af áverkum sínum því til sönnunar.

Eftir hina meintu árás staulaðist hann blóðugur heim til sín þar sem eiginkona hans og dóttir tóku á móti honum og hjúkruðu honum. „Fyrst um sinn var ég merkilega hress og kenndi mér ekkert sérstaklega meins. Líklega hefur adrenalínið haldið manni gangandi. Síðan leið smá tími og þegar kom að því að setjast við kvöldmatarborðið þá leið ég bara út af yfir matnum,“ segir Hreggviður. Heimilisfólk hringdi þá umsvifalaust í sjúkrabíl og var Hreggviður færður til aðhlynningar. „Ég var sem betur fer óbrotinn en mjög marinn. Þessi árás náðist á upptöku sem lögregla hefur undir höndum,“ segir Hreggviður.

Hreggviður fullyrðir að Ragnar Valur hafi keyrt yfir fætur hans á bifreið sinni.
Marinn Hreggviður fullyrðir að Ragnar Valur hafi keyrt yfir fætur hans á bifreið sinni.

Mynd: Hreggviður Hermannsson

Deila um veiðiréttindi kveikti ófriðarbál

Hin meinta árás er nýjasta uppákoman í nágrannaerjum, sem hafa staðið í rúman áratug. Hreggviður, sem er 67 ára gamall, er borinn og barnfæddur að Langholti 1 en Ragnar flutti að Langholti 2 árið 1990. Næstu fimmtán ár voru samskiptin ágæt en halla fór á ógæfuhliðina árið 2005. „Þá fór Ragnar í mál við mig út af veiðiréttindum í Hvítá. Það var algjör vitleysa enda vann ég málið fyrir dómstólum. Síðan þá hafa samskiptin ekki verið söm og Ragnar og eiginkona hans, Fríður Sólveig Hannesdóttir, reyna allt hvað þau geta til þess að ná sér niðri á mér,“ segir Hreggviður.

Deilurnar undanfarin ár hafa snúist um landamerki spildu sem eitt sinn tilheyrði jörð Ragnars. Árið 1987 fékk Hreggviður spilduna í makaskiptum fyrir aðra jafnstóra spildu úr sínu landi. Hreggviður hefur síðan staðið í vegabótum að bæ sínum en Ragnar og Fríður telja að Hreggviður hafi seilst inn á þeirra lóð. Þar stendur hnífurinn í kúnni en deilurnar hafa verið ævintýralegar í meira lagi.

Hreggviður segir að nágrannar sínir eyðileggi ítrekað girðingu sem liggi milli landareignanna. Hann hafi ætlað sér að stöðva slíkt skemmdarverk þegar hin meinta árás átti sér stað.
Vírgirðingin Hreggviður segir að nágrannar sínir eyðileggi ítrekað girðingu sem liggi milli landareignanna. Hann hafi ætlað sér að stöðva slíkt skemmdarverk þegar hin meinta árás átti sér stað.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ítrekað kærður til lögreglu

Hreggviður heldur því fram að hann sé ítrekað kærður til lögreglu fyrir litlar sakir, að eigin sögn, og vill hann meina að Ragnar og Fríður séu að misnota tengsl sín inn í lögreglu- og sýslumannsembættið í umdæminu. „Dóttir Fríðar starfar sem fulltrúi hjá lögreglunni, þau hringja linnulítið í lögregluna út af minnstu smáatriðum og alltaf bregst lögreglan strax við. Samkvæmt minni talningu hafa þeir komið hingað 170 sinnum, stundum þrisvar á dag. Þau hafa síðan kært mig fyrir hin minnstu smáatriði og njóta þar liðsinnis yfirvalda. Málin eru síðan alltaf felld niður,“ segir Hreggviður.

Hann segist hafa oft þurft að koma fyrir dómara en aðeins einu sinni hlotið dóm en það var þá vegna þess að hann hafði lagt gröfunni sinni vitlaust. „Þeir urðu eiginlega að dæma mig því þetta var orðið svo vandræðalegt,“ segir Hreggviður, sem ver sig ætíð sjálfur. Von er á úrskurði héraðsdóms vegna samtínings fjölda meintra brota Hreggviðs. „Dómurinn átti að vera kveðinn upp 20. desember en það bólar ekkert á honum,“ segir Hreggviður. Þá er búið að þingfesta landamerkjadeiluna og telur Hreggviður að sú deila verði langvinn.

DV hafði samband við nágranna Hreggviðs, Ragnar Val og Fríði, en þau vísuðu á lögfræðing sinn, Jónínu Guðmundsdóttur. Hún sendi eftirfarandi yfirlýsingu til DV vegna málsins:

„Öllum ásökunum Hreggviðs Hermannssonar á hendur umbjóðanda mínum er hafnað sem röngum sem og því að þau beri ábyrgð á þeim áverkum sem hann sýnir fjölmiðlum. Umbjóðendur mínir telja ekki rétt að reka málið í fjölmiðlum enda séu málin til rannsóknar hjá lögreglu, þar með talin kæra þeirra á hendur Hreggviði fyrir mjög alvarleg brot gegn þeim í umrætt sinn. Því telja þau að rannsóknarhagsmunir mæli gegn því að þau segi sína hlið málsins enda er skýrslutökum ekki lokið. Fyrirliggjandi sönnunargögn tali sínu máli. Brot Hreggviðs gagnvart umbjóðendum mínum eru ítrekuð, langvarandi og alvarleg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Guðni hjólar í hannyrðakonu – Sá hana í sjónvarpinu: „Asnaspörk frá athyglissjúkum listamönnum“

Guðni hjólar í hannyrðakonu – Sá hana í sjónvarpinu: „Asnaspörk frá athyglissjúkum listamönnum“
Fréttir
Í gær

Domino´s svarar fyrir æsinginn á Stöð 2: „Ótrúlegt að þessi fyrirtæki styrki þessa eitruðu karlmennsku“

Domino´s svarar fyrir æsinginn á Stöð 2: „Ótrúlegt að þessi fyrirtæki styrki þessa eitruðu karlmennsku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Æsingur á Stöð 2 Sport: „Kulnun í starfi er leti!“ – „Þess vegna eru slysasjóðir VR bara tæmdir!“

Æsingur á Stöð 2 Sport: „Kulnun í starfi er leti!“ – „Þess vegna eru slysasjóðir VR bara tæmdir!“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimmtungur Íslendinga með húðflúr – Konur í meirihluta

Fimmtungur Íslendinga með húðflúr – Konur í meirihluta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mikið annríki hjá lögreglunni – Þurfti að forgangsraða verkefnum þrátt fyrir vel mannaða vakt

Mikið annríki hjá lögreglunni – Þurfti að forgangsraða verkefnum þrátt fyrir vel mannaða vakt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tvær rútur fóru út af á Kjalarnesi

Tvær rútur fóru út af á Kjalarnesi