Heimsmeistari opnar kebab stað

Knattspyrnumaðurinn Lukas Podolski, sem er pólskur að uppruna og varð heimsmeistari með Þýskalandi árið 2014, hefur opnað kebab stað í heimaborg sinni Köln. The Local í Þýskalandi greinir frá þessu.

Podolski er 32 ára gamall og spilar með félagsliðinu Vissel Kobe í Japan. Áður spilaði hann meðal annars með Bayern Munchen, Arsenal og Galatasaray. Hjá síðastnefnda liðinu í Istanbul í Tyrklandi komst Podolski upp á lagið með að borða kebab.

Staðurinn mun heita Mangal Döner og eru tveir aðrir eigendur að honum. Knattspyrnustjarnan mun þó taka virkan þátt í rekstri staðarins og gestir geta hitt hann þar þegar hann er ekki að spila í Japan.

Mangal Döner er ekki fyrsti veitingastaðurinn sem Podolski opnar. Fyrir skemmstu opnaði hann ísbúð, einnig í Köln. Þar er hann einnig með puttana í rekstrinum og hannar meira að segja ísréttina sjálfur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.