fbpx
Fréttir

Brögð í tafli hjá íslenskum Instagram-stjörnum: „Svik og ekkert annað“

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 3. janúar 2018 23:50

Lilja Þorvarðsdóttir vakti á dögunum athygli á samfélagsmiðlastjörnum, eða svokölluðum áhrifavöldum, sem keyptu sér fylgjendur á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega Instagram. Sá leikur er til þess gerður að ýkja vinsældir svo hægt sé auka líkur á því að fyrirtæki auglýsi á samfélagsmiðli viðkomandi. Því er um beina fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir „áhrifavaldanna“ meðan fyrirtæki eyða peningum í auglýsingar sem fáir sjá.

„Ég hef tekið eftir nokkrum íslenskum „áhrifavöldum“ sem eru að kaupa sér fylgjendur á Instagram. Svo eru þessir áhrifavaldar að fá spons #ad sem er svo sem ekkert að, nema það að þetta fólk er með feik fylgni og þá eru fyrirtækin að tapa og aðrir áhrifavaldar,“ skrifaði Lilja í Facebook-hópnum Samfélagsmiðlaspamm og vakti það innlegg mikla athygli.

Sólrún Diego dæmi um eðlilega þróun

Lilja deildi mynd af línuriti af fylgjendum tveggja íslenskra áhrifavalda en hún faldi nöfn viðkomandi. Í öðru tilviki rauk fjöldi fylgjanda upp á skömmum tíma meðan í hinu tilvikinu fjölgaði fylgjendum jafnt og þétt. Línurit sem þessi má finna fyrir alla notendur Instagram á vefnum socialblade.com. Til samanburðar má nefna Þrifsnapparann vinsæla Sólrúnu Lilju Diego en fjöldi fylgjenda hennar fjölgar jafnt og þétt með engum stórkostlegum stökkvum upp á við.

Fylgjendum fjölgar jafnt og þétt.
Sólrún Diego Fylgjendum fjölgar jafnt og þétt.

DV leitaði til fólks sem þekkir vel til auglýsinga á samfélagsmiðlum og svokallaðra áhrifavalda. Þeir nefndu nokkur nöfn þar sem fylgjendum fjölgaði áberandi mikið á stuttum tíma. Þar á meðal má nefna Instagram-síður Móeiðar Svölu Magnúsdóttur, Thelmu Guðmundsen og Ernu Kristínar, sem kennir sig við Ernuland. Allar auglýsa þær ýmsar vörur á Instagram síðum sínum. Rétt er að taka fram að fleiri nöfn voru nefnd. Ýmsar ástæður utan keyptra fylgjenda geta verið fyrir slíkri óvenjulegri fjölgun svo sem leikir, deilingar á erlendum síðum eða viðtöl í fjölmiðlum.

Viðurkenndi falska fylgjendur

Erna viðurkennir fúslega að hafa keypt fylgjendur en segist hafa verið hvött til þess af erlendum söluaðila.
Ernuland Erna viðurkennir fúslega að hafa keypt fylgjendur en segist hafa verið hvött til þess af erlendum söluaðila.

Erna Kristín, sem kennir sig við Ernuland, viðkenndi í athugasemdum við færslu Lilju að hafa keypt sér fylgjendur en hún er með tæplega fjórtán þúsund fylgjendur á Instagram. Hún sagði að í sínu tilviki þá hafi verið óskað eftir því af erlendum söluaðila mynda hennar. „Ég hef prófað að kaupa followers, til að gera langa sögu stutta, þá var það vegna þess að söluaðili minn í Hollandi, sú sem selur myndirnar mínar þar, taldi að viðskiptin myndu ganga betur ef hærri tala væri til staðar, sorglegt en satt, þá virkar það þarna úti, mjööög vel, enda stórt land og allt það. Hún fullyrðir að salan á pósterum hafi aukist hjá sèr eftir að hún keypti follows,“ skrifaði Erna Kristín. Þetta má sjá glögglega á vefnum Socialblade en fylgjendum hennar fjölgar um ríflega þrjú þúsund á fremur stuttum tíma í tveimur stökkvum upp á við.

Hún vildi ekki tjá sig um þessa miklu fjölgun í nóvember.
Móeiður Hún vildi ekki tjá sig um þessa miklu fjölgun í nóvember.

Móeiður Svala er sú sem Lilja tók sem dæmi um áhrifavald sem hefur keypt fylgjendur, þó hún hafi líkt og fyrr segir ekki verið nafngreind innan Facebook-hópsins. Samkvæmt Socialblade fjölgaði fylgjendum hennar skyndilega þann 12. nóvember um ríflega þúsund, fóru úr tæplega þrettán þúsund í tæplega fjórtán þúsund. Tveimur dögum síðar auglýsti hún Special K morgunkorn á síðunni. Móeiður vildi ekki tjá sig um málið þegar DV leitaði viðbragða og sagðist vera á mikilvægu Dale Carnegie námskeiði.

Myndum deilt af stórum fyrirtækjum

Fylgjendum Thelmu Guðmundsen fjölgaði mikið á stuttum tíma um mánaðamót september-október í fyrra, eða um tvö þúsund á um vikutímabili með tveimur áberandi stökkvum. Hún fullyrðir í samtali við DV að þetta séu ekki keyptir fylgjendur. „Mér býðst samstarf við H&M rétt á undan þessum tíma og í því verkefni endurbirta þeir mynd sem var frá mínu Instagrami á sitt Instagram. H&M er með 24 miljónir fylgjendur svo það má búast við fylgi út frá því. Auk þess á svipuðum tíma endurbirti Glamglow official mynd frá mér og kom að stað leik á þeirri mynd, sem gefur til kynna að myndin verður meira sjáanleg með því. Glamglow official er mjög stórt og þekkt húðvörumerki, þeir eru með 652 þúsund fylgjendur á sínu Instagrami. Það er auðvelt að beina svona tölum frá línuriti við keypt fylgi en þegar góð skýring er á bak við tölurnar líkt og þessi þá segir þetta sig að mínu mati sjálft og fyrir þá sem hafa fylgst með mér. Einnig eru þetta tvö stökk á línuriti, tvær myndir en ekki sem hefur átt sér stað frá því ég byrjaði að byggja upp fylgjendahópinn og er heldur ekki stanslaust óstöðugt,“ segir Thelma.

Hún segir að hún hafi óttast að hún yrði sökuð um að hafa keypt sér fylgjendur. „Ég viðurkenni að þetta stressaði mig alveg að fólki myndi detta í hug að þetta væri keypt fylgi, þeir sem vissu ekki af þessum verkefnum. Ég stend meðal annars fyrir því að vera hreinskilin á samfélagsmiðlum eins og í persónulega lífi. Ég var ótrúlega glöð þegar þessar myndir voru endurbirtar, enda í fyrsta skipti sem Íslendingur fær myndina sína birta á báðum þessum stóru miðlum. Tölfræðilega séð er 2 þúsund ekki svo há taka miðað við fylgitölur á þessum Instagram-reikningum, ég er samt sem áður mjög þakklát fyrir það,“ segir Thelma.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Glamglow hafði vissulega birt mynd hennar ásamt leik þann 30. september. Fyrra stökkið áttið sér stað þann 23. september. Á Instagram-síðu H&M mátti þó ekki sjá neina mynd af Thelmu á þessum tíma en þann 12. nóvember deildi fyrirtækið mynd af henni. Í þessu samhengi er þó áhugavert að kanna hvort fylgjendum hennar fjölgaði mikið í kjölfar þeirrar myndbirtingar. Á Socialblade má sjá að fylgjendum fjölgaði eitthvað, um ríflega hundrað, en stökkið er ekkert í líkingu við stökkvin tvö kringum mánaðamótin fyrrnefndu.

„Svik og ekkert annað“

Alda Karen Hjaltalín, sölu- og markaðsstjóri hjá Ghostlamp, íslensku fyrirtækis sem tengir saman áhrifavalda og tilvonandi auglýsendur, segir í samtali við DV að keyptir fylgjendur séu af mörgum notaðir til svika.

Hún segir að Ghostlamp notist við gervigreind til greina hvort raunverulegt fólk sjá auglýsingar áhrifavaldanna. „Við lentum einu sinni í því að við sendum einni ákveðinni, þekktri konu hérna á Íslandi verkefni. Hún var með um tíu þúsund fylgjendur. Hún fékk eitthvað ákveðið greitt, ég man ekki hve mikið, fyrir verkefnið miðað við að hún væri með sjö þúsund fylgjendur. Hún var með þrjú þúsund „fake“ fylgjendur. Við sögðum henni að hún fengi bara greitt fyrir alvöru fylgjendur. Hún var voða hissa yfir því að það mætti ekki kaupa sér fylgjendur,“ segir Alda Karen.

Alda Karen segir að mörg fyrirtæki geri sér ekki grein fyrir þessu: „Það er fullt af „fake“ fylgi og það er ekkert mál kaupa læk. Þess vegna eru fyrirtæki meira að leita til okkar því að það er hægt að grugga mikið í samfélagsmiðlum. Þetta eru bara svik og ekkert annað. Þetta er líka út af því að áhrifavaldur er bara heitasti starfstitilinn í dag, það vilja allir vera áhrifavaldar og fá greitt fyrir að vera á samfélagsmiðlum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“
Fréttir
Í gær

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð
Fréttir
Í gær

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum