Hákon hugðist framleiða íslenska kvikmynd en situr í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að skáksmyglinu: „Allir í sjokki“

Hákon Örn Bergmann, athafnamaður og eigandi Hvíta riddarans, var í upphafi mánaðar handtekinn grunaður um aðild að fíkniefnasmygli sem tengdist eftirminnilega Skáksambandi Ísland. Hákon er jafnframt meðframleiðandi íslenskar hasargrínmyndar sem verður frumsýnd þann 23. febrúar næstkomand, Fullir vasar. Svo kaldhæðnislega vill til að myndin fjallar á gamansaman máta um undirheima Íslands.

Sjá einnig: Sérsveitin braust inn í Skáksamband Íslands og handtók saklausan forsetann: „Þetta var eins og í Hollywood-mynd“

Hákon er grunaður um aðild að innflutningi á nokkrum kílóum af fíkniefnum fyrr í mánuðinum. Fíkniefnin voru falin í kassa sem hafði borist með DHL-sendingu í skrifstofu Skáksambands Íslands. Samkvæmt heimildum DV lagði lögreglan hald á um átta kílógrömm af eiturlyfjum í aðgerðinni. Heimildum blaðsins ber ekki saman um hvort um amfetamín eða kókaín hafi verið að ræða. Ljóst er þó að söluandvirði efnanna á götunni hleypur á tugum, ef ekki hundruð, milljónum króna.

Kom flatt upp á leikstjóra

Kvikmyndin skartar þekktum snöppurum svo sem Hjámari Erni Jóhannssyni, Aroni Má Ólafssyni, Nökkva Fjalari Orrasyni og Agli Ploder Ottósyni svo nokkrir séu nefndir. Í tveimur fréttum á síðasta ári, annars vegar á mbl.is og hins vegar í Mosfellingi, var gefið í skyn að kvikmyndin væri fyrst og fremst framleidd af kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Hákonar, Aktive Productions. „Hugmyndin byrjaði hjá Aktive Productions, sem framleiðir myndina, og þeim Agli og Nökkva og var í framhaldinu leitað til Antons sem samdi einnig handrit myndarinnar,“ segir til að mynda í frétt mbl.is.

Leikstjóri myndarinnar, Anton Sigurðsson, segir í samtali við DV að þó það hafi staðið til að Hákon myndi framleiða myndina þá varð niðurstaðan sú að hann yrði ekki starfsmaður framleiðslunnar og muni þess í stað verða titlaður meðframleiðandi.

„Þetta kom flatt upp á okkur þegar hann var tekinn. Það eru allir í sjokki. Hann er náttúrlega einn af mörgum framleiðendum og verður skráður sem meðframleiðandi að verkinu. Þannig að verkefnið líður ekki fyrir þetta og við höldum okkar striki. Hann er auðvitað bara meðframleiðandi, hann hjálpaði til við ýmsa hluti, við fengum að borða á Hvíta ritddaranum og hann reddaði allskonar hlutum. Hann átti nú að styrkja okkur fjárhagslega en það kom aldrei. Hann átti að koma með pening en við þökkum fyrir í dag að peningurinn kom ekki,“ segir Anton.

Reddaði ýmsu

Anton tekur samt fram að hann viti ekkert um málið utan þess að hann hafi verið handtekinn grunaður um aðild að málinu. Hann segir að stór íslensk fyrirtæki, svo sem Sena og Vodafone, hafi framleitt myndina og því sé víðsfjarri að kvikmyndin hafi verið framleidd fyrir afrakstur fíkniefna. „Nei, það var ekki þannig, við vorum ekki með svarta ruslapoka af reiðufé. Hann er hins vegar vel tengdur í allskonar hluti og gat reddað ýmsu. Hann gat komið okkur inn á tökustaði sem var erfitt að nálgast og hann reddaði bílum til að nota, þetta er klár og öflugur strákur,“ segir Anton.

Stikla kvikmyndarinnar var frumsýnd í gær og má sjá hana hér fyrir neðan en myndinni er lýst svo: „Fjórir menn ræna banka til að eiga fyrir tugmilljóna skuldum eins þeirra við hættulegasta mann Íslands. Þá fer þá af stað ótrúleg atburðarás, sem enginn sá fyrir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.