Aðstandendur Elsu ósáttir við Vífilsstaði: „Ég var eiginlega eins og oft áður miður mín eftir þessa heimsókn margra hluta vegna“

Aðstandendur Elsu ósáttir við Vífilsstaði - Ekki skipt um buxur þótt þær hefðu ítrekað blotnað - Verður að tryggja að fólk fái að deyja með reisn

Var tæplega 83 ára þegar hún lést. Aðstandendur hennar eru ósáttir við þá meðferð sem hún fékk á Vífilsstöðum.
Elsa Unnur Var tæplega 83 ára þegar hún lést. Aðstandendur hennar eru ósáttir við þá meðferð sem hún fékk á Vífilsstöðum.

„Hún er búin að vera í sömu buxunum, sem ég benti starfsfólki á um helgina að væru skítugar. Blússubolurinn er einnig haugskítugur. Tennurnar eru afar afar skítugar! Mér finnst þetta ekki hægt. Ég var eiginlega eins og oft áður miður mín eftir þessa heimsókn margra hluta vegna.“

Þannig hljómar dagbókarbrot aðstandenda Elsu Unnar Guðmundsdóttur, 82 ára konu sem lést í febrúar 2017 eftir baráttu við krabbamein. Elsa hafði átt góða ævi, en hennar síðustu dagar reyndust sorglegir, bæði fyrir hana og aðstandendur. Dætur hennar segja farir sínar ekki sléttar eftir dvöl hennar á öldrunardeild Vífilsstaða í Garðabæ. Snýr óánægjan meðal annars að þeirri umönnun sem hún fékk og segja þær að lágmarkshreinlæti hafi ekki verið sinnt. Þeim þykir sárt að hugsa til þess að Elsa hafi ekki fengið að deyja með reisn, eins og þær orða það.

Heilsunni hrakaði hratt

Elsa greindist með heilaæxli þann 18. desember 2016 en áður en að því kom hafði hún verið mjög heilsuhraust og ekið bíl örfáum vikum áður. „Hún var alla tíð afar virk og félagslynd,“ segja dætur Elsu í viðtali við DV.

Haustið 2016 var ljóst að heilsu Elsu var tekið að hraka. Í desember það ár fór hún í rannsókn á Landspítalanum og í höfuðmyndatöku kom stórt heilaæxli í ljós sem ekkert var hægt að gera við. Börnum Elsu var í fyrstu sagt að hún ætti ekki langt eftir, hugsanlega nokkra daga, kannski vikur. Aðstandendur hennar vildu að hún fengi inni á líknardeild enda átti hún ekki að eiga langt eftir. Eitthvað virtist greining á stöðu Elsu breytast því lagt var til að hún færi á hjúkrunarheimili.

Ekki nógu veik fyrir líknardeildina

„Þeir sögðu að hún væri ekki með nógu mikil einkenni til að fara á líknardeild af því að hún virtist ekki vera mjög kvalin,“ segja dætur hennar, Hrönn, Guðfinna og Arna Bára Arnarsdætur, og úr varð að fjölskyldan var látin velja hjúkrunarheimili.

„Við búum tvær systurnar í Garðabænum og hún hafði verið í starfi eldri borgara í Sjálandi í mörg ár. Þannig að við vildum að hún færi á Ísafold sem er þarna á sama planinu,“ segja dæturnar og bæta við að vegna langs biðlista hafi verið lagt til að hún færi á Vífilsstaði meðan hún væri að bíða. Þær segja að umönnunin sem móðir þeirra fékk á Landspítalanum í Fossvogi hafi verið góð – þrátt fyrir plássleysi – en á Vífilsstöðum væri heimilislegra umhverfi og eitthvað í boði fyrir vistmenn sem ekki er í boði í Fossvogi. Úr varð að hún fór á Vífilsstaði í lok janúar 2017.
Dætur Elsu settust niður með blaðamanni vegna óánægju þeirra með þá meðferð sem móðir þeirra fékk á Vífilsstöðum. Augljóst er að þeim er enn mikið niðri fyrir nú þegar tæpt ár er liðið síðan Elsa lést. „Við áttum eiginlega ekki til orð. Við vorum bara miður okkar. Við vorum í sjokki þegar við komum og í ennþá meira sjokki þegar við fórum,“ segja þær.

Tjá sig ekki um mál einstakra sjúklinga

Tjá sig ekki um mál einstakra sjúklinga

Ingibjörg Tómasdóttir sagðist ekki kannast við mál Elsu Unnar en kvaðst þó hafa verið hjúkrunardeildarstjóri á þeim tíma. „Ég er bara ekki klár á því, ég hreinlega man það ekki,“ sagði Ingibjörg. „Svona spurningar fara allar í gegnum fjölmiðlafulltrúa Vífilsstaða og Landspítalann. Það er sér deild sem sér um samskipti við fjölmiðla […] Ég myndi aldrei tjá mig um málefni sjúklings við dagblað.“

DV hafði samband við deildarstjóra samskiptadeildar Landspítalans, Stefán Hrafn Hagalín. Aðspurður hvort hann kannaðist við mál Elsu Unnar Guðmundsdóttur neitaði Stefán.

„Hér eru 103 þúsund sjúklingar á ári, 250 deildir og 108 byggingar. Við tjáum okkur aldrei um málefni einstakra sjúklinga.“

Benda þær á að fyrsta daginn sem ein þeirra heimsótti móður þeirra hafi hún setið í hjólastól inni í herberginu sínu. „Þá sagðist hún vera alveg að pissa í sig,“ segir dóttir hennar en tvær konur, starfsmenn á Vífilsstöðum, sögðu að hún þyrfti ekki að fara með hana á klósettið – þær væru nýbúnar að því. „Ég segi við þær: „Ef manneskjan segir við mig að hún þurfi að fara á klósettið þá fer ég með hana.“ Og hún þurfti svo sannarlega að fara á klósettið. Ég get ímyndað mér að það sé ekki auðvelt fyrir fólk sem hefur aldrei þurft aðstoð, að pissa fyrir framan ókunnuga. Ég er ekkert að rengja að þær hafi verið nýbúnar að fara með hana,“ segir dóttirin sem bætir við að þetta sé aðeins lítið dæmi af mörgum um að umönnun hafi stundum verið ábótavant og ákveðið skilningsleysi ríkt.

„Það var öllu fögru lofað, henni yrði sinnt um leið og heimsóknum lyki en það varð alls ekki raunin.“

Í því samhengi nefna þær að ekki var passað upp á að taka tillit til lágmarksþarfa hennar, hún látin afskiptalaus þegar hún þurfti verulega á aðstoð að halda.

Lágmarkshreinlæti og þörfum ekki sinnt

Það var dætrum Elsu áfall að upplifa það að lágmarkshreinlæti og þörfum var ekki sinnt þennan mánuð sem hún dvaldi á Vífilsstöðum. Segja þær að þrátt fyrir að buxur hennar blotnuðu ítrekað og fötin væru skítug hafi ekki verið skipt um. Benda þær á að starfsfólk hafi ítrekað verið beðið um að sinna henni varðandi hreinlæti en talað hafi verið fyrir daufum eyrum. „Það var öllu fögru lofað, henni yrði sinnt um leið og heimsóknum lyki en það varð alls ekki raunin. Dag eftir dag var reynt að fá starfsfólk til þess að hjálpa henni en ekkert var gert. Þrátt fyrir ítrekuð loforð starfsfólks breyttist ekkert. Dag einn var hún þó sett í hreinar buxur, næfurþunnar buxur, allt of litlar af öðrum vistmanni þrátt fyrir fullan skáp af hreinum fötum. Rúmið hennar var beint undir opnum glugga í köldu febrúarveðri en það var plássleysi og tveimur rúmum komið fyrir í eins manns herbergi,“ segja þær.

Þegar nokkrir dagar höfðu liðið án þess að Elsu væri hjálpað með hreinlæti og föt, var enn og aftur lofað að henni yrði sinnt um leið og heimsóknum til hennar lyki. „Strax á leið heim frá Elsu, hringdi ein okkar í Vífilsstaði til þess að fullvissa sig um að verið væri að sinna þessu lágmarkshreinlæti en það var ekki fyrir því að fara frekar en fyrri daginn.“ Tvær af dætrunum ákváðu að koma aftur seint um kvöldið. „Enn var ekkert búið að gera,“ segja þær en að þarna hafi þær fengið endanlega nóg. Þær hafi tekið upp á því sjálfar að færa hana í hrein föt, en það reynst erfitt, enda kunnu þær ekki réttu handtökin eins og starfsfólk átti að gera. „Við börnin hennar hefðum gjarnan viljað sinna þessu sjálf en móðir okkar var komin í það ástand að til þurfti tvær manneskjur sem kunnu til verka.“

Hrönn, Arna Bára og Guðfinna Arnarsdætur.
Ósáttar Hrönn, Arna Bára og Guðfinna Arnarsdætur.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Myndi ekki láta nokkra manneskju í svona aðstæður

Dæturnar segja að á meðan á dvöl móður þeirra á Vífilsstöðum stóð hafi allt farið lóðrétt niður. „Þetta var hræðilegur tími. Við hefðum óskað þess að hún hefði fengið að vera áfram á Landspítalanum hefðum við vitað þetta. Það fór vel um hana þar og það var komið fram við hana af virðingu. En þarna, ég myndi ekki láta nokkra manneskju í svona aðstæður,“ segja þær og bæta við að þær hafi íhugað að taka mynd af móður sinni en ekki haft það í sér. „Það er meira en að segja það að taka mynd af manneskju sem þér þykir vænt um í svona aðstæðum.“
Þær systur segja að til að gæta allrar sanngirni þá hafi hlutirnir virst vera í lagi hjá þeim sjúklingum sem voru í lagi, ef svo má segja, það er, þeir sem gátu látið vita af sér og beðið um aðstoð. Elsa hafi verið orðin það lasin að hún gat það ekki.

„Hún gat ekkert af þessu og var þar af leiðandi bara afgangsstærð. Látum vera að þetta hafi gerst í eitt skipti, en ítrekað?“ segja þær og bæta við að í nokkur skipti hafi aðstandendur komið að Elsu þar sem hún hékk fram úr hjólastólnum sínum eftir að hafa borðað kvöldmat. Að loknum mat hafi fólk verið tekið frá borðinu og sett út á mitt gólf. „Þeir hafa ætlast til þess að hún myndi rúlla sér sjálf frá borðinu en hún var aldeilis ekki fær um það á þessum tímapunkti.“

Hefðu viljað afsökunarbeiðni en fengu ekki

Þær segja að það sé eitt að missa ættingja, Elsa hafi lifað góðu lífi í 82 ár, eignast mörg börn, verið farsæl á sínum starfsferli og í einkalífinu og aðstandendur geti verið þakklátir fyrir það. „En það er ömurlegt að þurfa að horfa upp á einhvern í svona niðurlægingu sína síðustu daga. Við hefðum viljað fá formlega afsökunarbeiðni, frá Landlækni eða sjúkrahúsinu, og þá hefðum við orðið sáttari. Bara að þeir passi upp á að þetta gerist ekki aftur og skoði hvernig vinnubrögðum er háttað. Við hefðum orðið sáttari við það,“ segja þær en á því ári sem liðið er síðan hefur engin afsökunarbeiðni borist. „Landlæknisembættið hefur beðið um svör frá Vífilsstöðum eða Landspítalanum en engin svör hafa borist. Málið er sagt í athugun og svo framvegis.“

„Manni finnst að fólk hljóti að eiga rétt á því að halda þolanlegri reisn þegar það liggur fyrir dauðanum.“

Elsa lést þann 24. febrúar 2017 eftir að hafa fengið lungnabólgu. Hún hefði orðið 83 ára í maí það ár. Dæturnar gagnrýna það einnig að aðstandendur hafi ekkert fengið að vita um hvað væri verið að gera til að gera líf Elsu bærilegra síðustu vikurnar, til dæmis hvað varðar lyfjagjöf. „Hún var hálfblind, búin að vera á morfíni allan tímann á Vífilsstöðum, plástrum og sprautum og við höfðum ekki hugmynd um það,“ segja þær.

„Þegar við spurðum þá fengum við ekkert að vita, við vorum nánustu aðstandendur. Við vorum þau einu sem hún þekkti. Hún gat ekki tjáð sig um neitt,“ segja þær. „Við höfðum beðið ítrekað um fjölskyldufund bæði munnlega og í tölvupósti til yfirhjúkrunarfræðings á Vífilsstöðum til þess að fara yfir ástand mála með móður okkar. Við töluðum fyrir daufum eyrum, fjölskyldufundur var þó daginn sem hún dó. Á þeim fundi sagði læknir okkur að það hefði aldrei staðið til að hún færi á hjúkrunarheimili, hún myndi deyja á Vífilsstöðum þar sem, samkvæmt mati læknis á Landspítala, hún ætti ekki langt eftir. Til hvers var þá verið að láta okkur velja hjúkrunarheimili og ræða að hún myndi verða í nokkrar vikur á Vífilsstöðum? Hvers vegna var hún þá ekki tæk á líknardeild Landspítala?

Þeim dætrum finnst sárt að hafa þurft að horfa upp á þennan aðbúnað. „Það hvernig var hugsað um hana, að hún fengi ekki að lifa þessa síðustu daga þannig að lágmarksþörfum væri sinnt. Ef þú færir með hundinn þinn á hundahótel og færir til útlanda, kæmir aftur og sæir hann svona vanhirtan og skítugan þá yrðirðu fúll. Og þetta var manneskja,“ segja þær, en segjast ekki hafa orðið þess áskynja að undirmönnun væri um að kenna. „Við vonum hreinlega að þetta hafi verið óheppni eða tilviljun. Við viljum ekki vera með það á bakinu að maður hafi ekki lagt sitt af mörkum til að þetta breyttist og fleiri lentu ekki í svipuðum aðstæðum, þetta veki fólk til umhugsunar, sérstaklega þá sem skipuleggja starf á svona stofnunum að það sé fylgst með því og þessir hlutir séu í lagi. Við gerðum okkur grein fyrir því að hún væri veik, hún myndi deyja en það er vont að kveðja hana og horfa upp á þetta. Manni finnst að fólk hljóti að eiga rétt á því að halda þolanlegri reisn þegar það liggur fyrir dauðanum. Það verður að tryggja að fólk sem komið er á þennan stað í lífinu njóti þokkalegrar umönnunar og fái að kveðja með reisn. Það er einnig svo óskaplega mikilvægt að síðustu minningar aðstandenda séu ekki litaðar af reiði og vanmætti varðandi síðustu stundir ástvina þeirra,“ segja dæturnar að lokum.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.