Hringdu á lögreglu um leið og þau fengu reikninginn

Það getur verið dýrt að borða í Feneyjum.
Feneyjar Það getur verið dýrt að borða í Feneyjum.

Borgarstjóri Feneyja á Ítalíu hefur lýst yfir áhyggjum sínum eftir að fjórir japanskir ferðamenn voru rukkaðir um 140 þúsund krónur á veitingastað um helgina.

Halda mætti að ferðamennirnir hafi verið að gæða sér á Kobe-nautakjöti með gullhúðuðum trufflusveppum, en svo var ekki. Um var að ræða fjóra steikarplatta og disk af steiktum fiski, vatnsglös og þjónusta vitanlega.

Í frétt BBC kemur fram að ferðamennirnir, fjórir japanskir námsmenn, hafi heimsótt staðinn sem stendur skammt frá Markúsartorgi í hjarta Feneyja. Þrír aðrir námsmenn, sem tilheyrðu sama hópi, ákváðu að fara á annan veitingastað þetta kvöld og var reikningurinn þar 45 þúsund krónur fyrir þrjá diska af ítölsku sjávarréttarpasta. Býsna hár en þó mikið lægri en á hinum staðnum.

Fjórmenningarnir í fyrri hópnum urðu mjög hneykslaðir þegar reikningurinn kom og brugðu á það ráð að hringja í lögregluna. Ekki liggur fyrir, samkvæmt frétt BBC, hvort ferðamennirnir hafi ekki skoðað verðið á matseðlinum áður en maturinn var pantaður eða hvort forsvarsmenn veitingahússins hafi haft einhver brögð í tafli.

Borgarstjóri Feneyja er ósáttur vegna málsins, enda ekki beint gott til afspurnar fyrir ferðamannabransann sem íbúar Feneyja reiða sig að stóru leyti á. Hét hann því að kryfja málið til mergjar til að koma í veg fyrir okur af þessu tagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.