Áttaði sig á hrekknum eftir dauða eiginkonunnar

Það er nauðsynlegt að halda í húmorinn.
Húmor Það er nauðsynlegt að halda í húmorinn.

Allt frá því að eiginkona hans, Phedre, lést árið 2013 eftir baráttu við krabbamein hafði Nigel séð um að vökva blómið sem Phedre hélt svo mikið upp á.

Ekki þarf að vökva blóm sem eru úr plasti.
Gerviblóm Ekki þarf að vökva blóm sem eru úr plasti.

Nigel gerði þetta samviskusamlega með reglulegu millibili, enda vildi hann sjá til þess að blómið myndi lifa áfram þó Phedre hafi þurft að játa sig sigraða, 69 ára gömul.

Nigel, sem er 73 ára, og Phedre ráku saman dagheimili í Suður-Afríku, en Nigel er nú sestur í helgan stein.
Áður en Phedre lést tók hún loforð af Nigel að hann myndi vökva blómið. Eins og að framan greinir gerði hann það samviskusamlega en á dögunum, þegar kom að því að flytja úr húsinu og í þjónustuíbúð fyrir aldraða, áttaði hann sig á því að eiginkonan hafði leikið hann grátt: Blómið var ekki alvörublóm heldur gerviblóm.

Nigel segir að hann hafi ekki velt blóminu sérstaklega fyrir sér, hvort það væri gervi eða alvöru, en hann hafi þó stundum verið hugsi yfir vatninu sem virtist leka úr pottinum.

Dóttir þeirra hjóna, Antonia Nicol, deildi þessari sögu á Twitter og er óhætt að segja að hún hafi snert hjörtu margra. Antonia segir að þetta hafi verið einkennandi fyrir foreldra hennar; þau hafi grínast mikið og hrekkt hvort annað sakleysislega. Þó að erfitt hafi verið fyrir fjölskylduna að kveðja Phedre sé það gleðilegt að hún hafi ekki misst húmorinn, þó hún vissi í hvað stefndi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.