Viðar Guðjohnsen: „Leikskólar eru orðnir að geymslum fyrir konur með metnaðargræðgi“

„Mér finnst þessi feminismi vera kominn út í algjört rugl“- Telur stofnanavæðingu fría konur ábyrgð á heimili og börnum

„Ég vil að konur hafi peninga eða efnahag og tíma til að eignast börn og hugsi það áður og sinni þeim,“ segir Viðar Guðjohnsen, frambjóðandi í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar en hann telur illa komið fyrir þeirri kynslóð sem er að alast upp í dag sökum stofnanavæðingar í samfélaginu. Segir hann það einkenni jafnaðarmanna að búa til stofnanir og kerfi á kostnað skattborgara og fría þannig heimilin, og einkum konur, frá ábyrgð á uppeldi barna sinna.

„Með þessum feminisma er verið að að byggja þá hugmyndafræði að konur séu stikkfrí að eiga börn. Þær vilja gera stofnanir. Ef konur ætla að eiga börn þá eiga þær að hafa efni á því, og líka tíma, en ekki reyna að búa til stofnanir eins og jafnaðarmenn vilja gera, að stofnanavæða allt. Það leysir aldrei móðurina af hendi,“ sagði Viðar í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun. Þá bætti hann við að jafnaðarmenn væru „alltaf að hugsa um hvernig þeir gætu ryksugað úr vösunum hjá öðrum en sjálfum sér“ með því að búa til stofnanir og að afleiðingarnar væru „algjört ábyrgðarleysi.“

„Hvað sjáum við núna? Unga fólkið er að verða veikara og veikara og veikara. Það hrannast inn á Landspítalann, þá er ég að tala 13, 14 ára stúlkur. Þær eru að verða veikar af því að þær eru alltaf að glápa á símana sína, þetta er svo þvílíkt ábyrgðarleysi, ,í skólum, utan dyra skólanna og á heimilum.“

Að mati Viðars þarf að bjóða karlmönnum hærri laun til að fá þá til að koma og vinna í grunnskólunum þar sem þá muni hugarfarið innan skólana breytast.

„Það verður ekki svona dómínerandi af kvenhugsun. Af því að þær hugsa öðruvísi en karlmenn.“

Á öðrum stað sagði Viðar að svo virtist sem að konur „elti lág laun.“

Þá benti hann á minnkandi lestrargetu grunnskólabarna og sagði að þar væri um að kenna ábyrgðarleysi heimilanna, og þá einkum útvinnandi mæðra.

„Mér finnst þessi feminismi kominn út í algjört rugl.“

Þegar talið barst að skorti á fjármagni í leikskólakerfinu sagði Viðar að „alls staðar vanti peninga af því að konan er komin á vinnumarkaðinn og svo á að leysa það með stofnun.“ Á öðrum stað kallaði hann leikskóla „geymslu fyrir konur sem eru í einhverri metnaðargræðgi að koma sér út á vinnumarkaðinn.“

„Það á ekki alltaf að henda allri ábyrgð á stofnanir. Það er alltaf verið að hugsa: stofnunin á að leysa þetta. Skattborgarinn á að koma með pening til að búa til eitthvað kerfi og nefnd til að leysa vandamál sem heimilin eiga að lesa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.