Sævar: Lýsti yfir að hann væri Jesús endurfæddur og væri kominn til að frelsa mig

Kio Briggs, Shaken Baby Syndrome og stóra kóktappamálið

„Dómarinn í málinu hafði það á orði að væri heimska refsiverð, þyrftu fórnarlömbin í málinu að dúsa lengi í fangelsi“
Sveinn Andri Sveinsson „Dómarinn í málinu hafði það á orði að væri heimska refsiverð, þyrftu fórnarlömbin í málinu að dúsa lengi í fangelsi“

Lögmenn starfa á átakaflötum þjóðfélagsins þar sem deilt er um staðreyndir og réttar túlkanir á oft óskýrum textum löggjafans. Á borði þeirra lenda því bæði erfið og furðuleg mál, misalvarleg eins og gefur að skilja. DV spurði nokkra af þekktustu lögfræðingum landsins nokkurra spurninga um ferilinn.

Sævar Þór Jónsson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Ég ætlaði mér aldrei að verða lögmaður, ég byrjaði á því að læra tannlækningar en hætti svo því námi og fór í hagfræði. Ég var eitt vorið að leita mér að einhverju nýju til að læra og sá auglýsingu um opnun nýrrar lagadeildar hjá Háskólanum í Reykjavík og ákvað að slá til. Svo hefur eitt leitt af öðru.

Hvert var fyrsta málið þitt?

Fyrsta málið mitt var skattamál sem ég tók að mér fyrir eldri hjón og náði að ljúka með farsælum endi þrátt fyrir að vera erfitt úrlausnar. Ég man hvað ég vildi standa mig vel og hvað ég lagði mikla vinnu í málið þrátt fyrir að hafa ekki fengið alla þá vinnu greidda enda var það ekki aðalmálið heldur að sanna sig og það gerði ég svo sannarlega. Ég á enn afrit af reikningnum sem ég sendi þeim enda var þetta fyrsta málið sem ég vann og rukkaði fyrir.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Öll mál hafa sitt flækjustig og eru auðvitað miserfið. En sum eru erfiðari en önnur. Mér er minnisstæðast eitt mál sem reyndist mjög erfitt bæði fyrir mig persónulega og umbjóðanda, það var skuldamál sem tók mjög á en þar hafði náðst niðurstaða eftir mikla vinnu og umstang en það tók svo á umbjóðanda minn að hann svipti sig lífi í kjölfarið og það hafði mikil áhrif á mig eftir á, enda var búið að leggja mikið á sig í að ná fram niðurstöðu í því sem á endanum reyndist umbjóðandanum ofviða. Þau þurfa ekki að vera flókin lögfræðilega málin til að hafa áhrif á mann líkt og þetta mál gerði.

En furðulegasta málið?

Furðulegasta málið var mál skjólstæðings sem ég hafði á minni könnu og var andlega veikur. Hann hafði þann leiðinlega ávana að ferðast um heiminn án heimildar og oft þurfti að leita á náðir utanríkisráðuneytisins til að fá viðkomandi fluttan aftur heim, en umræddur aðili var mjög veikur og ég var lögráðamaður hans. Það voru oft mjög skrautlegar uppákomurnar og í eitt skipti kom hann inn á skrifstofuna hjá mér til að lýsa því yfir að hann væri Jesús endurfæddur og væri kominn til að frelsa mig og aðila inni á skrifstofunni. Það þurfti að eyða miklum tíma í að sannfæra hann um að hann þyrfti ekki að frelsa lögmanninn enda algjör tímasóun.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Þeir hafa verið margir sigrarnir en flestir hafa verið utan dóms enda er oft betra að ljúka málum fyrir utan dómskerfið. Mér er minnisstætt eitt mál sem sneri að umbjóðanda mínum sem hafði misst húsið sitt á uppboði en fékk leiðréttingu sem ég hafði sótt hart á bankann með. Það kom eitt símtal um að honum yrði aftur afhent húsnæðið en ég var nokkuð lengi að íhuga það hvernig ég ætti að tilkynna honum niðurstöðuna og ákvað að fara heim til hans til að tilkynna honum þetta. Það leyndi sér ekki gleðin en það endaði með því að viðkomandi lyfti mér upp og kyssti mig í bak og fyrir. Það sem er skemmtilegt við þessa sögu er að það var fjölskylduboð heima hjá honum og hann vissi ekki af því að ég væri að koma. Fólkið hans furðaði sig á því að þegar hringt var bjöllunni að húsráðandi gengi út, tæki utan um ungan mann og kyssti hann.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Það er að ná ekki fram tilætluðum árangri. Það er þannig í lögmennskunni að þeir sem vilja standa sig hafa metnað fyrir því að ná fram hagsmunum umbjóðenda sinna og ná árangri en það tekst ekki alltaf og alls ekki af því að lögmaðurinn hafi ekki unnið vinnuna sína. Það er svo sérstakt við starf lögmannsins að hann er milli steins og sleggju þegar kemur að úrvinnslu mála, hann er gegn einhverjum aðila fyrir umbjóðanda sinn og svo með umbjóðandann á bakinu hvað varðar árangur og því miður tekst það ekki alltaf því málstaðurinn er misjafn.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.