Myndband sýnir starfsmenn Dominos á Íslandi stíga á deig á skítugum skónum og klæða sig í það: „Alls ekki við hæfi“

Í myndbandi sem DV hefur höndum má sjá starfsmenn Dominos á Íslandi leika sér við bæði deig og tilbúnar pizzur á mjög ógeðfelldan hátt. Meðal annars má sjá starfsmennina stíga á deig, klæðast deiginu eins og ponsjó og pota í tilbúnar pizzur.

Einn starfsmaður Dominos birti myndbandið sjálfur á Snapchat en líkt og sjá má kallar hann sig FrikkiSnappari. Samkvæmt heimildum DV var myndbandið tekið á veitingastað Dominos í Fitjum í Reykjanesbæ.

Birgir Örn Birgisson, upplýsingafulltrúi Dominos, segir að málið sé nú þegar í ferli og harmar hegðun þessara starfsmanna.

„Okkur sýnist þetta vera nýlegt. Við sáum þetta bara í gær og þetta er gegn öllum vinnureglum og kröfum sem við ætlumst til af starfsmönnum fyrirtækisins. Við berum ábyrgð og starfsmenn bera ábyrgð. Þetta er alls ekki við hæfi. Þetta er í ferli og við erum með mjög skýra ferla innan fyrirtækisins hvernig er tekið á svona hlutum,“ segir Birgir Örn.

Hann segir að stjórnendur viti hvaða starfsmenn um ræðir.

„Þetta var vara sem fór ekki út, þetta var ekki notað á neinn hátt. Þetta var vara sem þeir voru að leika sér að og eftir því sem ég best veit fór beint í ruslið. Við munum vinna í þessu en allt svona er algjört forgangsmál hjá okkur. Við sem fyrirtæki berum ábyrgð,“ segir Birgir Örn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.