Svipti sig lífi á Íslandi: Fjölskyldan rukkuð - „Við þurfum að fá greiðslu í dag eða snemma á morgun“

Opinn og vinamargur - Lögreglumenn í fríi – Óumbeðin þjónusta

Hinn 21 árs gamli Connel Arthur kom hingað til lands í ágústmánuði sem skiptinemi frá Skotlandi. Hann þekkti engan en eignaðist strax fjölda vina enda opinn og skemmtilegur strákur.

Hann starfaði sem barþjónn á krá í miðborg Reykjavíkur og eignaðist þar eins konar fjölskyldu. Fjórum dögum fyrir jól svipti hann sig lífi og þegar móðir hans, stjúpfaðir og systir komu til landsins til að sækja hann mætti þeim ekkert nema ómanneskjulegt skilningsleysi og peningaplokk að þeirra mati.

„Það er alltaf erfitt að nefna það í svo sorglegu máli, en við þurfum að fá greiðslu í dag eða snemma á morgun. Heildarupphæðin er 698.802 IKR og bankanúmerið er xxx“

Fjallað var um mál fjölskyldunnar í helgarblaði DV en þar kom meðal annars fram að það kostar um eina milljón króna að flytja lík erlends ríkisborgara til heimalands.

Skólastjóri háskólans í Glasgow hafði samband við fjölskylduna að fyrra bragði og bauðst til þess að skólinn borgaði flutninginn. En þegar útfararþjónustan sendi þeim reikningsyfirlit yfir annan kostnað brá þeim heldur betur í brún því hann hljómaði upp á 700 þúsund krónur.

Sumt af því sem þar var listað kom þeim ekki á óvart, svo sem smurning líksins. En þegar þau skoðuðu yfirlitið sáu þau að rukkað var fyrir hluti sem þau höfðu ekki beðið um eða datt aldrei í hug að yrði rukkað fyrir. Þau voru rukkuð fyrir hvern tölvupóst og hvert orð í hverjum tölvupósti, túlkaþjónustu á hvern tölvupóst og hvert orð í hverjum tölvupósti, hvert símtal (talið í 30 sekúndna einingum), þýðingu á dánarvottorði, túlkaþjónustu þó að aldrei hafi verið neinn túlkur á svæðinu, líkskyrtu sem þau báðu aldrei um, lögfræðiþjónustu án þess að vita að þau væru að tala við lögfræðing og fleira. Þeim var einnig sagt að ef þetta yrði ekki staðgreitt áður en þau færu úr landi færi Connel ekki með þeim.

Tim, Chloe og Nathalie
Fjölskylda Connel Tim, Chloe og Nathalie

Fjölskyldan sá Connel í síðasta skipti 4. janúar áður en kistunni var lokað. Þá var önnur útför í gangi í kapellunni í næsta herbergi og lögfræðingur útfararstofunnar var inni á skrifstofu að senda Tim tölvupóst með ítrekun á innheimtunni: „Það er alltaf erfitt að nefna það í svo sorglegu máli, en við þurfum að fá greiðslu í dag eða snemma á morgun. Heildarupphæðin er 698.802 IKR og bankanúmerið er xxx.“

Fjölskyldan komst heim til Skotlands með Connel þann 6. janúar eftir samningalotu við útfararstofuna og Háskólann í Glasgow. Hann verður jarðaður á næstunni í athöfn sem send verður út á Apple TV svo fjölmargir vinir hans víða um heim geti fylgst með.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.