fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Jón Einar lést daginn eftir umdeilda brottvísun

Kynferðisbrot og óttastjórnun í Krýsuvík – „Ég dey í kvöld“ – Engir starfsmenn eftir klukkan fjögur – Gríðarleg starfsmannavelta – Fjölskylda og vinir stjórna meðferðarstöðinni – Óeðlilegt samneyti starfsmanna við skjólstæðinga

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 15. janúar 2018 09:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgeir Ólason er forstöðumaður meðferðarheimilisins.
Þorgeir Ólason Þorgeir Ólason er forstöðumaður meðferðarheimilisins.

Óttastjórnun, starfsmaður kærður fyrir alvarlegt kynferðisbrot, óviðeigandi samskipti yfirmanns við kvenkyns skjólstæðinga og andlát sem aldrei hefði átt að eiga sér stað. Þetta eru atvik sem koma við sögu á síðustu tveimur árum á meðferðarstöðinni og tengjast rekstri Krýsuvíkursamtakanna á meðferðarheimili í Krýsuvík.

Að mínu mati á að loka þessari stofnun

„Ég dey í kvöld,“ sagði ungur maður, Jón Einar Randversson, við vini sína og ráðgjafa meðferðarheimilisins þegar honum var vísað úr meðferð í byrjun október. Jón Einar hafði dvalið í níu vikur í Krýsuvík. Hann hafði ekki lokið meðferð sem tekur sex mánuði. Samkvæmt heimildum DV hafði Jón Einar staðið sig með miklum sóma og þótti starfsfólki og öðrum skjólstæðingum meðferðarheimilisins brottvísunin afar ósanngjörn. Daginn eftir var Jón Einar látinn.

Gríðarleg starfsmannavelta

Þetta er aðeins eitt dæmi af nokkrum sem virðast benda til þess að pottur sé brotinn í málefnum meðferðarheimilis Krýsuvíkursamtakanna. Heimildir DV herma að nokkrir stjórnenda og starfsmanna heimilisins hafi síðustu misserin átt óviðeigandi samskipti og sambönd við skjólstæðinga heimilisins og hefur einn þeirra kært fyrrverandi starfsmann til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Þá þykir stjórnun nokkurra helstu starfsmanna hafa verið mjög harðneskjuleg og ósanngjörn, bæði í garð skjólstæðinga og undirmanna. DV hefur rætt við ótal starfsmenn og skjólstæðinga vegna þeirra mála sem upp eru komin.

„Að mínu mati á að loka þessari stofnun,“ segir fyrrverandi ráðgjafi sem starfaði hjá Krýsuvíkursamtökunum um hálfs árs skeið. Hún segist hafa verulegar efasemdir um að þar innandyra sé unnið faglegt starf og að árangurinn, sem stjórnendur hreykja sér af, sé í besta falli ýktur. „Þann tíma sem ég var þarna þá held ég að það sé einn sem sé enn edrú, sem tókst að bjarga. Aðrir eru á kafi í neyslu eða látnir,“ segir hún. Þá segir hún að aðrar meðferðarstofnanir, til dæmis SÁÁ, nái mun betri árangri að hennar mati. Þá sé starfsmannaveltan gríðarleg, þvert á það sem stjórnendur halda fram.

Fjölskylda og vinir stjórna meðferðarstöðinni

Krýsuvíkursamtökin reka áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fólk af báðum kynjum frá 18 ára aldri. Skjólstæðingarnir eru rúmlega 22 hverju sinni og eru jafnan þeir sem hafa átt í hve mestum vandræðum að fóta sig í samfélaginu og á öðrum meðferðarstofnunum.

Lovísa  er framkvæmdastjóri meðferðarheimilisins og móðir Þorgeirs forstöðumanns.
Lovísa Christiansen Lovísa er framkvæmdastjóri meðferðarheimilisins og móðir Þorgeirs forstöðumanns.

Í kringum 15 manns starfa fyrir samtökin og tengjast þau sterkum fjölskyldu- og vinaböndum. Framkvæmdastýra samtakanna er Lovísa Christiansen en sonur hennar, Þorgeir Ólason, er forstöðumaður meðferðarheimilisins. Á skrifstofunni starfar einnig mágkona Þorgeirs og meðal annarra lykilstarfsmanna hafa valist nánustu vinir Þorgeirs. Hafa nýir starfsmenn fundið fyrir því á eigin skinni að falli þeir ekki inn í þá fjölskyldustemningu og þann kúltúr sem hefur myndast á heimilinu þá verði þeir ekki langlífir í starfi. Þorgeir heldur fram að starfsmannavelta sé lítil sem engin en heimildir DV segja allt aðra sögu. Starfsmenn hafa flúið eða verið reknir skyndilega og er þar fyrst og fremst skorti á faglegri umgjörð um að kenna varðandi ógöngurnar í stjórnun Krýsuvíkursamtakanna. Þá séu þeir látnir fara sem hafa út á starfshætti yfirmanna að setja.

Óeðlilegt samneyti starfsmanna við skjólstæðinga

Blaðamenn DV hafa síðustu daga átt samtöl við ótal einstaklinga sem hafa komist í kynni við samtökin síðustu misserin, einkum fyrrverandi starfsmenn. Þeir hafa allir staðfest að samskipti ýmissa starfsmanna og yfirmanna við skjólstæðinga hafi verið óeðlileg og ósiðleg. Að minnsta kosti tveir starfsmanna hafi átt í lengra sambandi, ástarsambandi, við að minnsta kosti þrjá skjólstæðinga, á meðan þeir hafi verið í meðferð á heimilinu. Rétt er að hafa í huga að skjólstæðingar Krýsuvíkurheimilisins eru alla jafna afar illa settir andlega, og jafnvel líkamlega, og oftar en ekki flytja þeir þangað inn af götunni. Þá greiða skjólstæðingar fyrir vistina.

Í raun og veru er þetta landsliðið í neyslu, fólkið sem er við það að fara að deyja

„Í raun og veru er þetta landsliðið í neyslu, fólkið sem er við það að fara að deyja. Það voru ógnvekjandi aðstæður og ég fékk á engan hátt nægilegan stuðning né þjálfun til þess að sinna því starfi. Enginn sem þarna starfar er með menntun við hæfi. Það kemur læknir einu sinni í viku sem og ráðgjafi varðandi kynferðisbrot. Að öðru leyti eru starfsmenn að mestu ómenntaðir,“ segir fyrrverandi starfsmaður. Þá segist hún strax hafa tekið eftir skrýtnum vinnubrögðum og áherslum forstöðumannsins, Þorgeirs Ólasonar. „Hann sat á fundum, alltaf aðeins hærra uppi en við og horfði valdsmannslega yfir okkur. Ef við vorum að ræða um einhvern skjólstæðing þá gerði hann oft athugasemdir eins og „eigum við ekki að reka hann?“ eða „er hann ekki bara að klæða sig í jakkann í þessum töluðu?“. Ég hugsaði oft hvernig hann gæti eiginlega hagað sér svona,“ segir annar starfsmaður.

Björn kærður fyrir kynferðisbrot

Samkvæmt heimildum DV eru skýrar reglur gegn samneyti starfsmanna við skjólstæðinga, rétt eins og á öðrum meðferðarstofnunum. Heimildarmenn DV upplýstu hins vegar um að þegar í eitt skiptið komst upp um slíkt brot starfsmanns þá hafi hann verið leystur frá störfum sem ráðgjafi en að hann hafi skömmu síðar verið ráðinn aftur sem bílstjóri fyrir heimilið. Jafnvel þó að þá hafi þegar verið starfandi bílstjóri en hann var látinn fara til að koma hinum brotlega starfsmanni aftur til starfa. Sögðu heimildarmenn DV að þetta væri aðeins eitt af mörgum dæmum um frændhygli stjórnenda. Umræddur starfsmaður var ekki löngu síðar aftur bendlaður við ósæmilegt athæfi gagnvart skjólstæðingi og hefur hann nú vegna þess verið kærður til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Konan staðfesti við DV að hafa kært manninn.

Maðurinn, sem heitir Björn Ragnarsson, er um sextugt en skjólstæðingurinn um tvítugt. Í samtali við DV við Björn gengst hann við því að hafa farið út fyrir siðferðisleg mörk í samskiptum sínum við skjólstæðinga en neitar alfarið að hafa brotið gegn þeim kynferðislega eða að hafa átt við þá kynferðislegt samneyti. Svör hans í heild má lesa á öðrum stað í umfjölluninni.

Hann var látinn fara og ég hef engan áhuga á að vita hvar hann er niðurkominn.

„Ég lagði fram kæru,“ segir konan sem kveðst þrátt fyrir það sem á undan hafi gengið elska Krýsuvík og segir meðferðina hafa bjargað lífi hennar. „Ég veit ekki hvar kæran er stödd í kerfinu. Hann var látinn fara og ég hef engan áhuga á að vita hvar hann er niðurkominn.“

Auðvelt sé að misnota sér traust skjólstæðinga.

„Það er svo auðvelt að verða hrifinn af ráðgjafanum sínum. Það verður svo mikil nánd á milli ráðgjafa og skjólstæðinga og fólk treystir þér fyrir lífi sínu og öllum áföllum sem það hefur orðið fyrir og hefur jafnvel aldrei treyst öðrum fyrir. Maður ert skyndilega bjargvættur þeirra og skjólstæðingarnir dýrka mann, þeir elska mann út af lífinu. Maður ert fyrsta manneskjan sem viðurkennir þá. Þess vegna eru mjög strangar siðareglur,“ segir fyrrverandi starfsmaður og bætir við: „Þessar reglur eru bara ekki virtar.“

Nokkrir starfsmenn og skjólstæðingar sem DV hefur rætt við telja að yfirmaður meðferðarheimilisins, Þorgeir, hafi átt í óeðlilegum samskiptum við skjólstæðing. Þorgeir, sem er um fimmtugt, er sagður eiga í sambandi við konu á þrítugsaldri sem hefur verið án vímuefna í skamman tíma. Rík áhersla er lögð á það í meðferðum bæði á Krýsuvík og hjá SÁÁ að fólk einbeiti sér að eigin bata eftir meðferð og forðist sambönd fyrst í stað. Þykir fyrrverandi starfsfólki Þorgeir ekki vera góð fyrirmynd í þeim efnum, bæði fyrir ráðgjafa og skjólstæðinga hans.

„Ég dey í kvöld“

Fyrrverandi starfsmenn gagnrýna brottvísun Jóns Einars. Degi síðar fannst hann látinn.
Jón Einar Randversson Fyrrverandi starfsmenn gagnrýna brottvísun Jóns Einars. Degi síðar fannst hann látinn.

Heimildarmenn DV upplýstu blaðamenn um annað sláandi og sorglegt dæmi um að reglum heimilisins hafi verið beitt í þágu vildarvina stjórnenda. Meðal skjólstæðinga heimilisins á síðasta ári var áðurnefndur Jón Einar Randversson, rúmlega þrítugur maður sem stóð sig vel í meðferðinni og var á réttri leið. Skömmu síðar kom kona í meðferð á heimilið en hún var frænka eins lykilstarfsmanns. Hún og Jón Einar áttu sér forsögu sem par en reglur eru hins vegar stífar um samneyti skjólstæðinga. Tekið skal fram að þau höfðu verið par þegar þau voru á unglingsaldri.

Þegar slíkar eða aðrar svipaðar aðstæður eru uppi setur heimilið jafnan upp samskiptabann milli skjólstæðinga og brot gegn þeim varðar brottrekstur. Samkvæmt heimildum DV leitaði konan engu að síður eftir því að ná samskiptum við Jón Einar og var að lokum tilkynnt um að þau hefðu átt í samskiptum á heimilinu. Fyrrverandi starfsmenn sem DV hefur rætt við segja heimilið lítið og á sex mánaða tímabili sé ekki hjá því komist að eiga í einhverjum samskiptum.

Vegna tengsla konunnar við áður nefndan lykilstarfsmann heimilisins var hins vegar ákveðið að líta framhjá brotinu. Í kjölfarið kom betur í ljós að konan var hinn mesti vandræðagripur á heimilinu og fór að lokum svo að stór hluti annarra skjólstæðinga óskaði eftir að vera settur í samskiptabann við hana. Þá var ákveðið að taka gamla brotið aftur upp og vísa henni af heimilinu. Hins vegar var jafnframt ákveðið að vísa Jóni Einari á brott en sem fyrr greinir hafði hann að öðru leyti staðið sig með prýði í meðferðinni og var á réttri leið. Samkvæmt heimildum DV mun hann hafa brotnað niður við tíðindin og grátið sín örlög að viðstöddum öðrum skjólstæðingum og starfsmönnum. Mun hann þá meðal annars hafa sagt: „Ég dey í kvöld.“ Sama dag var ekið með Jón Einar frá heimilinu og hann skilinn eftir við bensínstöð í Hafnarfirði. Daginn eftir lést Jón Einar vegna of stórs skammts af eiturlyfjum.

„Jón Einar var búinn að standa sig rosalega vel. Það var aldrei vesen. Hann var búinn að vera í meðferð í níu vikur þegar honum var fórnað til þess að réttlæta aðra brottvikningu,“ segir fyrrverandi skjólstæðingur. Jón Einar brotnaði algjörlega saman. Hann hágrét og sagði „ég dey“.“

Þessi strákur átti ekki að deyja

Jón Einar ræddi við félaga sína á staðnum. „Að mínu viti var ekkert vesen á honum. Hann brotnaði niður fyrir framan okkur alla og sagði: „Ég á ekki eftir að meika þetta. Ég mun deyja.“ Hann var síðan keyrður á bensínstöð í Hafnarfirði og skilinn þar eftir með dótið sitt. Hann fór og dó. Þetta hefði ekki átt að gerast.“

Þá var aðstandendum Jóns Einars ekki kunnugt um af hverju hann var látinn farinn. „Fólk hefur haldið að þarna væri vandræðagemlingur og hann hefði gert upp á bak. Það var langur vegur frá. Þessi strákur átti ekki að deyja,“ segir annar heimildarmaður sem þekkir vel til í Krýsuvík.

Stóraukin framlög frá ríkinu síðustu ár

Stóraukin framlög frá ríkinu síðustu ár

Meðferðarheimilið hefur um árabil notið framlaga frá ríkinu samkvæmt fjárlögum. Á bilinu 2010 til 2015 nam árlegt framlag um og yfir 70 milljónum króna. Í viðtali við Sigurlínu Davíðsdóttur, formann og einn stofnenda samtakanna, í Bítinu á Bylgjunni árið 2015, kom fram að hún teldi að framlag ríkisins dygði ekki til og að samtökin þyrftu að draga saman seglin. Varpaði hún því fram að nægilegt væri ef framlögin hækkuðu í 105 milljónir króna á ári en að ríkisvaldið þyrfti annars að fara að gera það upp við sig hvort það vildi að starfsemin héldi áfram. Árið 2016 var framlag ríkisins hækkað í 106 milljónir króna. Í fyrra var það 112 milljónir króna og samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018 verður það 114 milljónir króna.

Utan framlaga ríkisins eru margir styrktarfélagar í samtökunum sem rétta fram hjálparhönd þegar á þarf að halda auk samtaka á borð við Lions, Kiwanis og Oddfellow.

Að auki greiðir hver skjólstæðingur um 100 þúsund krónur á mánuði fyrir vistina í Krýsuvík en DV hefur ekki fengið staðfestingu á nákvæmri upphæð.

Erfitt er að fá upplýsingar um fjárhagsstöðu samtakanna en þar sem um félagasamtök er að ræða þurfa Krýsuvíkursamtökin ekki að skila ársreikningum.

Óttastjórnun og einstaklingsbundnar reglur

Stjórnunarháttum og hegðun lykilstarfsmanna í garð skjólstæðinga hafa heimildarmenn DV einnig lýst sem harðneskjulegum og á köflum mjög grófum. Í viðtali í 30 ára afmælisriti samtakanna árið 2016 lýsti Þorgeir Ólason meðferðinni meðal annars þannig að í henni fælist mikill innri sveigjanleiki. Meðferðarúrræðið væri byggt á tilteknum grunni sem síðan væri sérsniðinn hverjum og einum skjólstæðingi.

Samkvæmt heimildum DV virðist þessi sveigjanleiki einnig gilda um hvernig skjólstæðingum ber að umgangast húsreglurnar eða aðrar meðferðarreglur. Hafa fyrrverandi starfsmenn lýst því að stjórnendur og ráðgjafar beiti óspart óttastjórnun gagnvart skjólstæðingum og hóti þeim sífellt brottrekstri ef þeir haga sér ekki eins og kröfur eru gerðar um. Þeir hiki jafnframt ekki við að standa við þær hótanir og oft fyrir litlar sakir. Hins vegar sé allur gangur á því hvaða eða hvers kyns brot á reglum teljist leiða til brottreksturs. Sumum skjólstæðingum leyfist meira en öðrum og fá að halda meðferð áfram þrátt fyrir eitt eða fleiri brot á reglum.

Í öðrum tilfellum nægi hins vegar ef skjólstæðingur misstígur sig einu sinni, til dæmis missir af eða skrópar á einn hópfund. Oftast sé þá um að ræða skjólstæðinga sem stjórnendum þykir af einhverjum ástæðum óæskilegir og er þá gengið á lagið til að losna við þá af heimilinu við fyrsta brot. Samkvæmt tölum sem samtökin hafa sjálf birt hefur fjöldi skjólstæðinga sem útskrifa sig sjálfir innan þriggja mánaða eða eru reknir ávallt verið mikill, það átti sem dæmi við um 60 prósent allra skjólstæðinga heimilisins árið 2013.

Ég fór út fyrir öll mörk varðandi samskipti mín við skjólstæðinga.

Að sögn fyrrverandi ráðgjafa má líkja framkomu ráðgjafa og stjórnenda við andlegt ofbeldi.

„Það var götustelpa sem hafði komið áður inn. Í þetta skipti var hún mjög veik, bæði af neyslu og undirliggjandi sjúkdóm. Hún var sem sagt mjög brotin og sat í setustofunni fyrir framan eldhúsið og fékk sér kaffi. Það var verið að ræða daginn og veginn en allt í einu var byrjað að ræða almennt hreinlæti og þá sagði stelpan að hún hefði alltaf verið duglega að halda sér hreinni á meðan hún var á götunni. Þá kom einn ráðgjafi þarna og hreytti í hana að það væri djöfulsins kjaftæði. Hann hefði séð hana í því ástandi, hún hefði verið ógeðsleg með klepra í hárinu og meikklessur á andlitinu. Þarna var síðasta arðan af sjálfsáliti og reisn rifin af stelpunni. Ég var agndofa,“ segir konan.

„Það er mikil starfsmannavelta á Krýsuvík. Það er eitt og annað vel gert en ég tel nauðsynlegt að rétta skútuna af,“ segir Berglind Ólafsdóttir sem starfaði í eitt og hálft ár á Krýsuvík. Hún telur að hægt sé að gera mun betur í meðferðarstarfinu. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hinar alvarlegu ásakanir annarra, fyrrverandi starfsmanna og skjólstæðinga.

Skilin eftir á bensínstöð á aðfangadag

„Mín hlið skiptir engu máli“

Sá sem var kærður fyrir meint kynferðisbrot heitir Björn Ragnarsson og var náinn vinur Þorgeirs Ólasonar forstöðumanns. Hann starfaði fyrst sem ráðgjafi um tíma en var vikið frá störfum fyrir meint ástarsamband við skjólstæðing.

Hann var síðan ráðinn aftur nokkrum mánuðum síðar og þá sem bílstjóri fyrir skjólstæðinga. Á meðan hann gegndi þeirri stöðu var hann sakaður um nauðgun og var honum því sagt upp störfum. Í samtali við DV gengst Björn við óeðlilegum samskiptum við skjólstæðinga Krýsuvíkursamtakanna en vísar ásökunum um kynmök og kynferðisbrot alfarið á bug.

„Ég fór út fyrir öll mörk varðandi samskipti mín við skjólstæðinga. Það voru óeðlileg samskipti, daður, faðmlög og léttir kossar á kinn og eitt sinn á háls. Það er hins vegar af og frá að ég hafi stundað þeim kynlíf,“ segir Björn. Hann segist fyrir löngu hafa áttað sig á því að hann sé berskjaldaður gagnvart ásökunum. „Mín hlið skiptir engu máli, ég er búinn að átta mig á því. Ég er miðaldra karlmaður og því á ég engan séns,“ segir Björn, sem segist upplifa fullkomna útskúfun frá sínum gamla vinnustað og vinnufélögum.

Hann segist hafa hrunið gjörsamlega eftir uppsögnina. „Ég er búinn að eiga mjög erfitt og meðal annars reynt að svipta mig lífi tvisvar. Ég er bara á núlli, á byrjunarreit og er að reyna að púsla lífi mínu saman,“ segir Björn.

Þá segist hann vera afar feginn að vera laus úr þessum aðstæðum hjá Krýsuvíkursamtökunum. „Ég kaus að fara í aðstæður sem ég réð ekki við án þess að hafa nægilegan stuðning. Ég er sjálfur alkóhólisti og þarf að glíma við mína bresti og siðleysi tengt því, það gerði eflaust að verkum að ég sá ekki hvað ég var að gera rangt á sínum tíma. Þessar aðstæður sem skapast, þegar þú ert sjálfur veikur og ert að reyna að meðhöndla þá allra veikustu, eru mjög erfiðar og að mínu mati verða að endingu allir jafn veikir, starfsfólk og skjólstæðingar, ef ekkert er að gert. Þú þarft að hafa góðan stuðning, einhvern til þess að fylgjast með og pikka í þig og spyrja hvað sé í gangi,“ segir Björn.

Hann segir að upphaflega hafi verið boðið upp á handleiðslu fyrir ráðgjafa en því hafi verið hætt fyrir rúmum tveimur árum. Þá hafi fljótt molnað undan honum. „Ástandið var alveg brjálað þarna og eins og í öllum alkóhólistafjölskyldum þá eru allir meðvirkir, starfsmenn og stjórnarmenn. Þetta er mjög lasið andrúmsloft,“ segir Björn.

Eins og áður segir viðurkennir Björn fúslega að hafa farið yfir strikið með tveimur skjólstæðingum en vísar því alfarið á bug að kynmök eða kynferðisbrot hafi átt sér stað. „Það myndast mjög náið samband milli skjólstæðinga og ráðgjafa og auðvelt að fara út fyrir mörk í þeim efnum. Sumar stúlkur döðruðu við mann og gáfu til kynna að þær hefðu mikinn áhuga á manni. Það kitlaði að sjálfsögðu en að sama skapi þarf maður að hafa í huga það brenglaða valdajafnvægi sem þarna er í gangi milli ráðgjafa og skjólstæðings. Ég fór út fyrir mörk í samskiptum en ég er ekki kynferðisafbrotamaður. Allar ásakanir um slíkt eru lygi,“ segir Björn.

Þá hafi ákvarðanir um að vísa fólki úr meðferð verið mjög handahófskenndar og oft borið keim af skorti á umburðarlyndi og samkennd.

„Þeir skjólstæðingar sem koma í meðferð í Krýsuvík eru yfirleitt mjög veikir. Þetta er fólk sem kann ekki að vera í meðferð og kann jafnvel ekki að fara eftir reglum. Við þurfum að hafa reglur og aga en samt umburðarlyndi, kenna þeim og halda betur utan um þau,“ segir ráðgjafi. Því hafi verið sárt að sjá einstaklinga rekna burt fyrir litlar sakir og sérstaklega þegar hún var í böðulshlutverkinu. „Ég var á vakt og var beðin um að reka eina stelpu úr meðferð. Hún var nýlega komin og var þá mjög veik, bæði vegna neyslu og út af undirliggjandi sjúkdómi. Ástæðan fyrir brottrekstrinum var sú að hún hafði ekki fylgt dagskránni í einu og öllu, til dæmis ekki mætt í tvo fyrirlestra. Mér fannst það rosaleg grimmd að vísa henni á dyr en ég hafði engan annan kost en að framfylgja skipununum,“ segir hún. Hún þurfti því að færa stúlkunni hinar nöturlegu fréttir sem og að skutla henni til Reykjavíkur. „Ég keyrði hana svo á bensínstöð við Smáralind og hjálpaði henni út með pokana sína, það litla sem hún átti. Síðan skildi ég hana eftir þar og keyrði í burtu. Þetta var hrikalega erfitt. Það er gott að hafa aga og reglur en mannúðin verður að vera í fyrirrúmi.“

Að hennar sögn beið ekkert þeirra sem vísað var úr meðferð. Það er ekkert sem tekur við hjá slíkum einstaklingum. Þau fá að hringja og athuga með pláss annars staðar, til dæmis hjá SÁÁ, Draumasetrinu eða á geðdeild. Síðan er þeim bara sparkað út á götuna,“ segir konan. „Réttlætið skiptir mig miklu máli, það sem þarna fer fram á ekkert skylt við réttlæti.“

Oftast er ráðgjafa viðkomandi skjólstæðings falið það verkefni að tilkynna um brottreksturinn og jafnvel að keyra viðkomandi í bæinn og skilja hann þar eftir.

Eitt dapurlegasta dæmið sem blaðamenn DV voru upplýstir um var þegar eldri kona var fyrir nokkrum árum rekin af heimilinu fyrir litlar sakir á aðfangadag jóla og ráðgjafi látinn keyra hana síðdegis þann dag á bensínstöð í Hafnarfirði. Þar tók enginn á móti henni og hún átti ekki í nein hús að venda.

„Það er rosalega ofnotað að hóta brottrekstri,“ segir fyrrverandi starfsmaður. „Endalausar hótanir ýta undir kvíða og vinna gegn bata. Auðvitað reyna alkóhólistar að ganga eins langt og þeir geta en það þarf að gæta að því að bera líka virðingu fyrir fólki. Yfirleitt eru þeir sem koma á Krýsuvík komnir í andlegt þrot og það er hægt að tuska þá til og hella sér yfir þá og hundskamma þá. Þeir eru vanir því að vera í þannig umhverfi. Þeir eru líka á brotnum stað, þeir myndu aldrei leita réttar síns.“

Þeir fyrrverandi ráðgjafar sem DV hefur rætt við telja að á Krýsuvík hafi einnig verið unnið gott starf en of miklir hnökrar séu á starfsháttum.

„Sigurlína Davíðsdóttir, andlit og formaður Krýsuvíkursamtakanna. Hún veit af öllu. Það vita allir um þetta en hún sópar öllu undir teppið. Hugmyndin og meðferðin er mjög flott ef það væri ekki svona mikið rugl í gangi og allir tengdir,“ segir einn heimildarmanna DV. „Þetta er eins og meðvirk fjölskylda. Þú ert með fínt kerfi á heimilinu á pappír en það er enginn sem fer eftir því. Það er öllu sópað undir teppið.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Einir eftir klukkan fjögur

Fyrrverandi starfsmenn gagnrýna jafnframt að klukkan fjögur yfirgefi starfsmenn meðferðarheimilið og skjólstæðingarnir séu þá einir á heimilinu. „Það er algjört rugl. Þarna eru veikir einstaklingar í stífu prógrammi á skrifstofutíma en eru síðan eftirlitslausir utan hans. Maður getur rétt ímyndað sér hvað fer í gangi. Samkvæmt heimildum DV bauðst velferðarráðuneytið til þess að útvega vaktmann á kvöldin en það hafi stjórnendur ekki þegið. „Stjórnendur vilja ekki að utanaðkomandi einstaklingar fái innsýn inn í starfið,“ segir einn af mörgum heimildarmönnum blaðsins.

DV reyndi að ná sambandi við Þorgeir. Slökkt var á síma hans. DV ræddi stuttlega við móður hans, Lovísu Christiansen sem er framkvæmdastjóri. Hún vildi ekki ræða við blaðamann DV eða aðstoða blaðamann að komast í samband við son hennar. Sagðist hún ekki mega gefa upp símanúmer hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips