fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Lögfræðingar rifja upp erfiðustu málin: „Ferlega súrt að sjá saklausan mann dæmdan í fangelsi“

Kio Briggs, Shaken Baby Syndrome og stóra kóktappamálið

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 13. janúar 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmenn starfa á átakaflötum þjóðfélagsins þar sem deilt er um staðreyndir og réttar túlkanir á oft óskýrum textum löggjafans. Á borði þeirra lenda því bæði erfið og furðuleg mál, misalvarleg eins og gefur að skilja. DV spurði nokkra af þekktustu lögfræðingum landsins nokkurra spurninga um ferilinn.

Sveinn Andri Sveinsson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Karl faðir minn, Sveinn Haukur Valdimarsson, var hæstaréttarlögmaður og hvatti mig lengi til að gera eitthvað allt annað en fara í lögfræði. Það var annaðhvort að fara í arkitektúr eða skella sér í lögfræðina. Aðdáun mín á gamla manninum varð síðan til þess að ég ákvað að velja lögfræðina og feta svo í hans fótspor. Það var samt þegjandi samkomulag okkar á milli að ég myndi ekki sækja um vinnu hjá honum.

Nígeríusvindl

Svindlari leiddur fyrir dóm, DV, apríl 2006

Svindlari leiddur fyrir dóm, DV, apríl 2006

Sunday Osemwengie og Nosa Ehiorobo, Nígeríumenn búsettir á Spáni, voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli með 100 þúsund evrur í reiðufé 17. mars árið 2006. Í þeirra fórum fundust einnig svartir miðar í peningaseðlastærð, joð, vaselín, einnota hanska, álpappír og flúorlampi. Þeir voru ákærðir fyrir fjársvik og dæmdir til 15 mánaða fangelsisvistar þann 28. apríl sama ár fyrir að hafa peningana af íslenskum feðginum sem þeir höfðu verið í sambandi við fyrir komuna. Faðirinn pantaði leiguíbúð fyrir þá og dóttirin greiddi fyrir kvöldverð. Þann dag lögðu þau níu milljónir króna inn á reikning sem voru teknar úr í evrum samdægurs. Sögðust mennirnir geta þrefaldað fjárhæðina með efnahvarfi en innan löggæslunnar er talað um „Black money fraud“. Dómurinn fór ekki fyrir Hæstarétt.

Hvert var fyrsta málið þitt?

Eftir útskrift starfaði ég í nokkur ár sem löglærður fulltrúi hjá mætum Ásgeiri Thoroddsen hrl. og Ingólfi Hjartarsyni heitnum. Ég fékk síðan eitt mál upp í hendurnar til að reka fyrir bæjarþingi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu sem ég sótti um sem mitt fyrsta prófmál til að verða héraðsdómslögmaður. Málið hafði allt til að bera til að vera prófmál, en eftir mikinn og vandaðan undirbúning var því hafnað að málið væri tækt sem prófmál. Ég flutti það engu að síður, enda mátti löglærður fulltrúi án lögmannsréttinda flytja mál þá fyrir þeim dómi. Málið varðaði gallaða glerísetningu í sólhýsi heima hjá foreldrum núverandi utanríkisráðherra í Borgarnesi. Málið flutti ég gegn Óla sterka heitnum. Hann sá aldrei til sólar í þessu máli enda hefði ég tekið tekið próf í byggingafræði eftir þennan málflutning.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Það mál sem tekið hefur mest á mig er svokallað SBS-mál (Shaking Baby Syndrome). Það er í endurupptökuferli en ég hef verið að glíma við þetta mál, þar sem dagfaðir var ákærður og dæmdur fyrir að hrista ungabarn til ólífis.

Shaken Baby Syndrome

Sigurður Guðmundsson, DV september 2004

Sigurður Guðmundsson, DV september 2004

Í maí árið 2001 lést níu mánaða gamall drengur í gæslu hjá hjónum sem störfuðu sem dagforeldrar. Dagföðurnum, Sigurði Guðmundssyni, var gefið að sök að hafa hrist drenginn svo harkalega að hann lést tveimur dögum síðar úr heilaáverkum. Í mars 2002 var Sigurður dæmdur í héraði til þriggja ára fangelsisvistar fyrir manndráp af gáleysi og þau hjónin voru einnig dæmd til sektargreiðslu fyrir að hafa of mörg börn í gæslu. Hæstiréttur mildaði dóm Sigurðar í 18 mánuði ári seinna. Sigurður hefur ávallt haldið fram sakleysi og læknar eru ekki á einu máli um dánarorsökina. Farið var fram á endurupptöku árið 2013.

En furðulegasta málið?

Þau hafa mörg furðuleg málin verið í gegnum tíðina. Eitt það einkennilegasta var þegar ég og Vilhjálmur Hans vorum verjendur tveggja Nígeríumanna sem ákærðir voru og dæmdir fyrir fjársvik með því að hafa sannfært íslenska fjölskyldu um að mörg búnt af hvítum bleðlum væru í raun evrur sem aðeins þyrfti að hafa í bréfpoka og sprauta í pokann tilteknum vökva sem þeir voru með, þá myndi hvíta duftið fara af evrunum. Um væri að ræða eina milljón evra sem þeir sannfærðu Íslendingana um að kaupa á 100.000 evrur. Það tæki efnið átta klukkustundir að hvarfast í burtu. Það var akkúrat sá tími sem félagarnir töldu sig þurfa til að komast úr landi. Dómarinn í málinu hafði það á orði að væri heimska refsiverð, þyrftu fórnarlömbin í málinu að dúsa lengi í fangelsi.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Sætasti sigurinn á enn eftir að koma. Það gerist þegar ég vinn sigur í málaferlunum gegn Valitor vegna WikiLeaks. Krafan stendur í sex milljörðum í dag rúmlega.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Það var dómur Hæstaréttar í áðurnefndu SBS-máli. Ferlega súrt að sjá saklausan mann dæmdan í fangelsi, á „af því bara“ forsendum. En það er enn von.

„Oft sagt að þetta sé næst frægasta sakamál Íslandssögunnar á eftir Njálsbrennu“
Helgi Jóhannesson „Oft sagt að þetta sé næst frægasta sakamál Íslandssögunnar á eftir Njálsbrennu“

Helgi Jóhannesson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Þegar ég útskrifaðist sem stúdent úr Verzló fóru langflestir skólafélaganna þar beint í viðskiptafræðina. Mér fannst að ég þyrfti að gera eitthvað öðruvísi og valdi lögfræði. Reyndar kom þá alveg eins til greina að fara í leiklistarskólann og hugsaði ég mikið um það, en ég var líklega of jarðbundinn til að elta þann draum lengra. Eftir laganámið heillaði lögmennskan mig svo meira en til dæmis dómstörf, störf í ráðuneytum eða önnur störf sem lögfræðingar leita í og nú á ég 30 ára starfsafmæli sem lögmaður í vor og mér hefur fundist þetta gaman allan tímann. Ég valdi því sennilega rétt.

Hvert var fyrsta málið þitt?

Það man ég nú ekki, en eins og flestir nýbyrjaðir þá voru það innheimtumálin sem voru langfyrirferðarmest.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Það er erfitt að segja. Auðvitað koma lögmenn oft að málum sem eru full af sorg og mannlegum harmleikjum. Það er oft erfitt að vinna að málum fyrir fólk sem hefur misst fótanna í lífinu og horfir á eftir dýrmætum árum bak við lás og slá eða hefur misst allt sitt í fjármálavafstri. Það eru þess konar mál sem eru erfið og mikilvægt fyrir lögmenn að brynja sig fyrir til að lifa af í þessu starfi.

En furðulegasta málið?

Það eru svo sannanlega mörg mál sem eru óvenjuleg og furðuleg sem rekur á fjöru lögmanna. Oft og tíðum hafa þau spaugilegar hliðar.

Í einu máli voru atvik þau að tveir svilar héldu sameiginlega upp á fertugsafmæli sín. Þeir keyptu aðföng sameiginlega þar á meðal gos til að nota í veisluna. Þá var í gangi tappaleikur og kom bifreið í vinning úr einni flöskunni. Sá aðili sem átti barnið sem opnaði þá flösku vildi meina að hann ætti vinninginn einn en minn umbjóðandi taldi augljóst að þeir ættu hann saman enda keypt til veislunnar í sameiningu. Úr þessu varð dómsmál milli þessara ágætu manna og vann minn umbjóðandi málið og vinningurinn sem sagt talinn sameign. Ég held að þessar deilur hafi því miður sett fleyg í samskipti fólks í þessari fjölskyldu sem er sorglegt, en málið var óvenjulegt.

Ég minnist líka deilna tveggja aðila á Húsavík. Ég var þar að vinna fyrir vin minn en börnin hans voru með kanínur í búrum í hesthúsum þar við bæinn. Kanínurnar sluppu út og nágranni vildi gera minn mann ábyrgan fyrir tjóni sem hann taldi kanínurnar hafa valdið á heyrúllum í hans eigu en ljóst var að kanínurnar höfðu þá fjölgað sér gríðarlega. Upp úr þessu spruttu skemmtileg bréfaskipti og pælingar um hvort minn umbjóðandi gæti borið ábyrgð á óhóflegri fjölgun kanínanna og hvort hann bæri þá ábyrgð á öllum ættboga kanínanna sem sluppu.

Kio Briggs

Úr helgarblaði DV, desember 2002

Úr helgarblaði DV, desember 2002

Þann 1. september árið 1998 var Bretinn Kio Briggs handtekinn í Leifsstöð með yfir tvö þúsund e-töflur í farangri sínum og var hann talinn hafa ætlað að selja þær hér á landi. Málið vakti gríðarmikla athygli og Briggs varð landsþekktur maður og sífellt á síðum dagblaða. Dómarar töldu mögulegt að íslenskur maður sem bar vitni eða einhver á hans vitorði hafi komið efnunum fyrir í farangrinum. Briggs var því sýknaður í héraði 30. júní árið 1999 og sá dómur staðfestur í Hæstarétti rúmum tveimur vikum síðar. Þetta sama ár voru Briggs og íslensk stúlka handtekin í Danmörku fyrir e-töflu smygl. Hlutu þau bæði eins árs fangelsisdóm þar í desember. Síðast var vitað af Briggs árið 2015 í Madríd og var hann þá enn að komast í kast við lögin.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Ætli ég verði ekki að nefna sýknudóm yfir Kio Briggs á árinu 1999. Þetta var og er enn mjög í minnum haft og hef ég oft sagt að þetta sé næstfrægasta sakamál Íslandssögunnar á eftir Njálsbrennu. Enn þann dag í dag, 19 árum síðar, eru menn að minnast á þetta mál enda vakti málið og ákærði mikla athygli hér á landi á þessum tíma.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Ég hef alltaf nálgast lögmennskuna á þann veg að gera allt sem í mínu valdi til að forða málum frá því að fara fyrir dómstóla. Legg ég mig mjög fram um að ná sáttum milli aðila. Það er því svekkjandi ef maður hefur lagt mikla vinnu í slíkt ef málin enda svo þrátt fyrir allt fyrir dómstólum sem felur í sér mikinn kostnað og andlega áþján fyrir þá sem hlut eiga að máli. Það er nefnilega satt sem sagt hefur verið að „mögur sátt er betri en feitur dómur.“

„Í fljótu bragði kemur upp í hugann mál þar sem kínversk kona hafði dottið um gúmmímottu“
Kristín Edwald „Í fljótu bragði kemur upp í hugann mál þar sem kínversk kona hafði dottið um gúmmímottu“

Kristín Edwald

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Lögmennska eða fatahönnun höfðu alltaf heillað mig. Ákvað að vera praktísk og byrja á lögfræðinni. Á fatahönnunina inni.

Hvert var fyrsta málið þitt?

Það var mál sem ég flutti fyrir tvær systur gegn Reykjavíkurborg vegna söluverðmætis íbúðar.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Sakamál sem höfðað var á hendur hjúkrunarfræðingi og Landspítalanum vegna manndráps af gáleysi. Ég flutti málið fyrir hönd Landspítalans en málið tók mjög á þar sem mér fannst og finnst mikið ranglæti í því fólgið að ákæra hjúkrunarfræðinginn, jafnvel þótt hún hefði svo réttilega verið sýknuð að fullu.

Hjúkrunarfræðingur sakaður um manndráp af gáleysi

Ásta kristín sýknuð

Ásta kristín sýknuð

Ásta Kristín Andrésdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, var ákærð fyrir manndráp af gáleysi þegar sjúklingur lést á gjörgæsludeild 3. október árið 2012. Maðurinn var á batavegi eftir hjartaaðgerð og var Ásta Kristín sökuð um að hafa ekki tæmt loft úr kraga barkaraufarrennu er hún tók hann úr öndunarvél. Maðurinn lést vegna öndunarerfiðleika skömmu síðar en dómarar komust að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki getað verið yfirsjón því að um 25 mínútur liðu þarna á milli. Ásta Kristín og Landspítalinn voru sýknuð af öllum kröfum í héraði 9. desember árið 2015 og var málinu ekki áfrýjað. Ekkja mannsins sagði Ástu Kristínu ekki hafa átt sök og fagnaði niðurstöðunni.

En furðulegasta málið?

Í fljótu bragði kemur upp í hugann mál þar sem kínversk kona hafði dottið um gúmmímottu. Þegar hún bar skýrslu fyrir dómi talaði hún lengi á sínu móðurmáli en túlkurinn sem túlkaði yfir á íslensku þýddi næstum alltaf bara með já eða nei. Allir viðstaddir voru vissir um að skýrslugjöfin væri nú ekki að skila sér öll yfir á íslensku en túlkurinn taldi svo vera.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Þeir eru nokkrir en til að nefna einn þann fyrsta af sætustu sigrunum þá er það væntanlega sigurinn í upphaflega Baugsmálinu þar sem umbjóðandi minn var alfarið sýknaður í Hæstarétti.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Það er tvímælalaust dómur í máli sem snerist um eignarnámsbætur vegna vegalagningar á Suðurlandi. Tók mig nokkur ár að geta keyrt um þann vegspotta án þess að pirra mig á dómsniðurstöðunni.

„Í eitt skipti kom hann inn á skrifstofuna hjá mér til að lýsa því yfir að hann væri Jesús endurfæddur“
Sævar Þór Jónsson „Í eitt skipti kom hann inn á skrifstofuna hjá mér til að lýsa því yfir að hann væri Jesús endurfæddur“

Sævar Þór Jónsson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Ég ætlaði mér aldrei að verða lögmaður, ég byrjaði á því að læra tannlækningar en hætti svo því námi og fór í hagfræði. Ég var eitt vorið að leita mér að einhverju nýju til að læra og sá auglýsingu um opnun nýrrar lagadeildar hjá Háskólanum í Reykjavík og ákvað að slá til. Svo hefur eitt leitt af öðru.

Hvert var fyrsta málið þitt?

Fyrsta málið mitt var skattamál sem ég tók að mér fyrir eldri hjón og náði að ljúka með farsælum endi þrátt fyrir að vera erfitt úrlausnar. Ég man hvað ég vildi standa mig vel og hvað ég lagði mikla vinnu í málið þrátt fyrir að hafa ekki fengið alla þá vinnu greidda enda var það ekki aðalmálið heldur að sanna sig og það gerði ég svo sannarlega. Ég á enn afrit af reikningnum sem ég sendi þeim enda var þetta fyrsta málið sem ég vann og rukkaði fyrir.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Öll mál hafa sitt flækjustig og eru auðvitað miserfið. En sum eru erfiðari en önnur. Mér er minnisstæðast eitt mál sem reyndist mjög erfitt bæði fyrir mig persónulega og umbjóðanda, það var skuldamál sem tók mjög á en þar hafði náðst niðurstaða eftir mikla vinnu og umstang en það tók svo á umbjóðanda minn að hann svipti sig lífi í kjölfarið og það hafði mikil áhrif á mig eftir á, enda var búið að leggja mikið á sig í að ná fram niðurstöðu í því sem á endanum reyndist umbjóðandanum ofviða. Þau þurfa ekki að vera flókin lögfræðilega málin til að hafa áhrif á mann líkt og þetta mál gerði.

En furðulegasta málið?

Furðulegasta málið var mál skjólstæðings sem ég hafði á minni könnu og var andlega veikur. Hann hafði þann leiðinlega ávana að ferðast um heiminn án heimildar og oft þurfti að leita á náðir utanríkisráðuneytisins til að fá viðkomandi fluttan aftur heim, en umræddur aðili var mjög veikur og ég var lögráðamaður hans. Það voru oft mjög skrautlegar uppákomurnar og í eitt skipti kom hann inn á skrifstofuna hjá mér til að lýsa því yfir að hann væri Jesús endurfæddur og væri kominn til að frelsa mig og aðila inni á skrifstofunni. Það þurfti að eyða miklum tíma í að sannfæra hann um að hann þyrfti ekki að frelsa lögmanninn enda algjör tímasóun.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Þeir hafa verið margir sigrarnir en flestir hafa verið utan dóms enda er oft betra að ljúka málum fyrir utan dómskerfið. Mér er minnisstætt eitt mál sem sneri að umbjóðanda mínum sem hafði misst húsið sitt á uppboði en fékk leiðréttingu sem ég hafði sótt hart á bankann með. Það kom eitt símtal um að honum yrði aftur afhent húsnæðið en ég var nokkuð lengi að íhuga það hvernig ég ætti að tilkynna honum niðurstöðuna og ákvað að fara heim til hans til að tilkynna honum þetta. Það leyndi sér ekki gleðin en það endaði með því að viðkomandi lyfti mér upp og kyssti mig í bak og fyrir. Það sem er skemmtilegt við þessa sögu er að það var fjölskylduboð heima hjá honum og hann vissi ekki af því að ég væri að koma. Fólkið hans furðaði sig á því að þegar hringt var bjöllunni að húsráðandi gengi út, tæki utan um ungan mann og kyssti hann.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Það er að ná ekki fram tilætluðum árangri. Það er þannig í lögmennskunni að þeir sem vilja standa sig hafa metnað fyrir því að ná fram hagsmunum umbjóðenda sinna og ná árangri en það tekst ekki alltaf og alls ekki af því að lögmaðurinn hafi ekki unnið vinnuna sína. Það er svo sérstakt við starf lögmannsins að hann er milli steins og sleggju þegar kemur að úrvinnslu mála, hann er gegn einhverjum aðila fyrir umbjóðanda sinn og svo með umbjóðandann á bakinu hvað varðar árangur og því miður tekst það ekki alltaf því málstaðurinn er misjafn.

„Ég man líka eftir dálítið skrýtnu máli þar sem tekist var á um gallaðan hest“
Sigurður Kári Kristjánsson „Ég man líka eftir dálítið skrýtnu máli þar sem tekist var á um gallaðan hest“

Sigurður Kári Kristjánsson

Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður?

Ég ætlaði alltaf að verða verkfræðingur. En ætli áhugi minn á þjóðmálum, samfélaginu og stjórnskipuninni, fyrir utan auðvitað lögfræðina sjálfa, hafi ekki gert það að verkum að ég ákvað að læra lögfræði, því þetta helst allt saman í hendur. Þegar leið á laganámið fannst mér lögmennska henta mér betur en önnur lögfræðistörf. Hún er fjölbreytt. Viðfangsefnin eru það líka. Maður fær tækifæri til að vinna með alls kyns fólki auk þess sem málarekstur fyrir dómi er að sínu leyti ákveðin barátta fyrir rétti eða réttindum þess sem þú gætir hagsmuna fyrir. Og einhverra hluta vegna fæ ég eitthvað út úr því að taka slaginn, ekki síst þegar ég hef djúpa sannfæringu fyrir málstaðnum.

Hvert var fyrsta málið þitt?

Það var mitt fyrsta prófmál fyrir héraðsdómi. Mér var falið að sannfæra dómarann um að það væri rétt og lögum samkvæmt að ákveðnum manni bæri skylda til þess að greiða heitavatnsreikninga vegna upphitunar á bílskúr sem einungis var til á teikningum. Það sem þvældist fyrir mér var að bílskúrinn hafði aldrei verið byggður. Ætli það hafi ekki verið ástæðan fyrir því að málið tapaðist.

Hvert reyndist erfiðasta málið?

Þau eru mörg. Það er erfiðast að takast á við mál þar sem undir eru persónulegir hagsmunir og tilfinningar einstaklinga, ekki síst innan sömu fjölskyldu sem eiga það til að liðast í sundur á meðan rekstri dómsmálsins stendur. Það er heldur ekkert gamanmál að upplifa það þegar fólk fær fangelsisdóm sem það þarf að afplána, sérstaklega þegar málið er tvísýnt. Sjálfur hef ég ekki lagt verjandastörf fyrir mig, en það kemur fyrir að maður þarf að sinna þeim og það getur verið erfitt, ekki síst þegar niðurstaðan er manni í óhag.

En furðulegasta málið?

Stóra bílskúrsmálið sem ég nefndi áðan var dálítið furðulegt af því að bílskúrinn sem málið snerist um hafði aldrei verið byggður. Ég man líka eftir dálítið skrýtnu máli þar sem tekist var á um gallaðan hest. Ég vann það mál, þótt ekki sé ég neinn sérfræðingur um gæði hesta sem ganga kaupum og sölum. Svo var stóra Coke-tappamálið stórfurðulegt. Þar tókust mágar á um það hvor þeirra ætti að eignast bíl í svokölluðum Coke-tappaleik, en þeir höfðu keypt gosið og þar með Coke-tappana í tengslum við sameiginlega afmælisveislu sem svo endaði með þessum ágreiningi þeirra á milli. Því miður flutti ég það mál ekki á endanum, heldur Helgi Jóhannesson hrl., sem þá var samstarfsmaður minn.

Sætasti sigurinn á ferlinum?

Maður man alltaf best eftir nýjustu málunum. Ég vann til dæmis afar sætan sigur um daginn þegar við höfðum ríkið undir í Hæstarétti í fordæmisgefandi máli þar sem álagning búnaðargjalds var dæmd ólögmæt. Það er eitthvað sérstakt við það að hafa ríkið undir, ekki síst þegar niðurstaðan hefur þýðingu fyrir einhvern hóp manna. Ég mun heldur aldrei gleyma viðbrögðum föður ungrar stúlku sem ég vann einu sinni fyrir. Stúlkan hafði lent í hræðilegu slysi og mér hafði verið falið að sækja fyrir hana skaðabætur. Það gekk afar vel og viðbrögð föðurins voru eftir því. Það eru svona mál sem geta gefið lögmannsstarfinu ansi mikið gildi.

Mest svekkjandi ósigurinn?

Allir ósigrar eru svekkjandi. Sérstaklega þegar maður þolir ekki að tapa. Og ætli ég verði ekki að játa það á mig að vera haldinn slíku óþoli. En í þessu starfi verður maður víst að sætta sig við að sum mál vinnast ekki. Það er bara þannig. Ef ég ætti að nefna eitthvert eitt mál þá man ég nú eftir einu sem ég rak fyrir mörgum árum. Þar sem ungur maður var dæmdur til refsivistar fyrir brot sem hann var sakaður um að hafa framið. Ég var algjörlega sannfærður um sakleysi hans. Dómarinn var á öðru máli. Mér fannst þessi ungi maður órétti beittur og örlög hans grimm. Það var erfitt að taka því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer
Fréttir
Í gær

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmaður fór dagavillt og því þarf að byrja allt málið upp á nýtt

Lögmaður fór dagavillt og því þarf að byrja allt málið upp á nýtt