IKEA biður konur um að pissa á nýja auglýsingu

Nýleg auglýsing húsgagnarisans Ikea sem birtist í sænska tímaritinu Amelia hefur vakið töluverða athygli. Ástæðan er sú að auglýsingin gegnir einnig hlutverki þungunarprófs.

„Ef þú pissar á þessa auglýsingu þá gæti það breytt lífi þínu“ stendur í textanum en neðst á síðunni má sjá strimil. Ef að þunguð kona pissar á strimilinn birtist þar sérstakur afsláttarkóði sem hægt er að nýta í til að kaupa rimlarúm í versluninni.

Það er sænska auglýsingastofan Åkestam Holst á heiðurinn af þessari óvenjulegu auglýsingu sem hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Svo virðist sem flestir taki vel í þessa nýbreytni í markaðsetningu en þó eru aðrir sem kalla auglýsinguna „ógeðslega.“ Þá vakna einnig upp spurningar um það hvernig starfsmenn IKEA komi til með að taka á móti jákvæðu þungunarprófi og þá eru aðrir sem spyrja hvers vegna það sé ekki bara nóg að mæta með hefðbundið jákvætt þungunarpróf í verslunina til að fá afsláttinn.

Í samtali við Independent segir Evelina Rönnung, listrænn stjórnandi Åkestam Holst-auglýsingastofunnar:

„Það er magnað augnablik í lífi fólks þegar þungunarpróf kemur út jákvætt. En það eru aðrir áríðandi hlutir sem þarf að huga að á því augnabliki. Eins og til dæmis rimlarúm á afslætti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.