fbpx
Fréttir

Norsk kona bað um smá greiða – Það var upphafið að þriggja ára martröð

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 10. janúar 2018 07:58

Lotte Cornelia Fagerheim, 26 ára, er þekktur bloggari í Noregi. 2014 bað hún lesendur sína um smá greiða. Það var upphafið að þriggja ára martröð þar sem ofbeldi, hótanir og stanslausar njósnir um hana voru daglegt brauð.

Dag einn þurfti Lotte aðstoð við að prenta út samning. Hún spurði því lesendur sína hvort einhver gæti hjálpað henni með það. Maður á þrítugsaldri gaf sig strax fram. Hann var sjarmerandi og yfir honum hvíldi ákveðin dulúð. Lotte féll strax fyrir honum og fljótlega byrjuðu þau að búa saman. Eftir nokkurra vikna sambúð fór hún að taka eftir því að eitthvað var að.

„Það var eitthvað skrýtið við hann. Hann vildi alltaf vita hvar ég var. Ég gat ekki farið út án þess að hann kæmi með. Ef ég fór í göngutúr birtist hann bara skyndilega. Það var eins og hann gæti rakið hvar ég var.“

Sagði hún í samtali við TV2. Hann sagðist vera með geðhvarfasýki og að það skýrði hegðun hans. Á þeim þremur mánuðum sem þau voru par réðst hann ítrekað á hana.

„Hann réðst á mig bæði líkamlega og andlega. Stundum lét hann eins og hann væri að skera mig í magann. Augu hans urðu alveg svört og mött. Ég varð skelfingu lostin. Síðan byrjaði hann að gráta þegar hann sá hvað ég var hrædd. Þetta var sjúkt.“

Hún lýsti sambandinu af hreinskilni á blogginu sínu en hún byrjaði að reyna að losa sig út úr því eftir aðeins þrjár vikur.

„Ég áttaði mig á að hann var í raun hættulegur og að ég varð að komast í burtu en ég var hrædd við hvað myndi gerast ef ég myndi binda enda á sambandið. Ég byrjaði að vera drusluleg, leiðinleg, eldaði ekki mat og svaraði honum bara í hálfkæringi í þeirri von að hann yrði þreyttur á mér og myndi binda enda á sambandið en hann hélt áfram að vera óhugnanlegur og vinalegur og við vorum saman í smá tíma í viðbót.“

Dag einn sá hún að kötturinn hennar var með 10 sm skurð. Hana grunaði að kærastinn hefði verið að verki en hann þrætti fyrir það og sagði að kötturinn hefði velt hnífastatífinu um koll og fengið hníf í sig við það.

Eftir þrjá mánuði tókst Lotte þó að binda enda á sambandið en ekki leið á löngu áður en maðurinn stóð á þröskuldinum hjá henni.

„Þegar ég opnaði dyrnar greip hann í mig og grýtti mér niður á malbikið. Ég missti meðvitund.“

En þetta var ekki eina tilvikið því við tók margra ára áreiti frá manninum þar sem hann njósnaði um Lotte og réðst jafnvel á hana.

Lotte og fyrrum sambýliskona mannsins, sem hann hafði einnig beitt ofbeldi, kærðu hann til lögreglunnar og í haust var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að hafa beitt þær ofbeldi. Auk þess var hann sakfelldur yfir morðhótanir, dýraníð, líkamsmeiðingar og ölvunarakstur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af