Eftirlýst glæpakvendi: Var hún í felum á Íslandi? – Eina konan á lista Europol

Sögð hafa tengst Íslandi gegnum fjölskyldubönd - Fíkniefni, peningaþvætti og kærastinn drepinn fyrir framan hana

Maria var dæmd í sjö ára fangelsi en virðist hafa lagt á flótta áður en hún átti að hefja afplánun.
Eftirlýst Maria var dæmd í sjö ára fangelsi en virðist hafa lagt á flótta áður en hún átti að hefja afplánun.

Á lista Europol yfir eftirlýsta glæpamenn kennir ýmissa grasa. Á listanum, sem nær til þeirra sem Europol leggur ríka áherslu á að finna, má í heildina finna 61 einstakling. Þetta eru einstaklingar sem taldir eru hafa ljóta glæpi á samviskunni; allt frá fíkniefnasmygli og mansali til morða.

Aðeins ein kona er hins vegar á listanum. Hún heitir Maria Tania Arela Otero og 43 ára Spánverji. Sænska blaðið Expressen fjallaði um þetta á dögunum, enda var Tania jafnvel talin hafa haldið til í Svíþjóð. Vísað er í frétt spænska blaðsins El Progreso sem nefnir Svíþjóð sem hugsanlegan dvalarstað hennar en einnig Ísland sem vekur athygli. Þá þykir ekki útilokað að hún haldi til einhversstaðar í Suður-Ameríku.

Efnilegur lögfræðingur í slæmum félagsskap

Saga þessarar 43 ára konu er um margt merkileg en á hennar yngri árum þótti hún efnilegur lögfræðingur. Hún hóf feril sinn sem lögfræðingur fyrir kvennaathvarf í Cambados í Galísíu á Spáni og árið 2004 tók hún að sér að verja David Pérez Lago, sem er sonur mafíuforingjans Laureano Oubina.

Þeir feðgar eru sagðir hafa verið fyrirferðamiklir í innflutningi á fíkniefnum. Eftir að Maria tók að sér verja David urðu þau ástfangin og virðist hún hafa tekið að sér það hlutverk að þvætta peninga fyrir glæpagengi feðganna.

Ákærð í umfangsmiklu máli

Árið 2006 var hún ákærð ásamt fjórtán öðrum í tengslum við umfangsmikið fíkniefnamál, en það varðaði meðal annars innflutning á 1.700 kílóum af kókaíni til Spánar. Var Maria sögð einn af höfuðpaurum málsins og sú sem skipulagði innflutninginn.

Eftir að þau komust í kast við lögin slitnaði upp úr sambandi þeirra. Tania byrjaði í kjölfarið með lögfræðingi sínum í því máli, Alfonso Diaz Monux, og flutti parið saman til Madrídar. Þar dundu ósköpin yfir; leigumorðingjar voru sendir til að drepa Alfonso og var hann skotinn tveimur skotum í höfuðið fyrir framan Töniu árið 2008. Tania særðist ekki í árásinni en lagði á flótta áður en hún var dæmd í sjö ára fangelsi fyrir aðild sína að fíkniefnainnflutningnum. Þá átti hún að vera eitt aðalvitnið í morðmálinu vegna dauða Alfonso en einhverra hluta vegna lagði hún á flótta. Ekkert hefur spurst til hennar í nokkur ár.

Tengslin við Ísland

Frá árinu 2014 hefur hún verið á lista Europol yfir þá glæpamenn sem hvað mest áhersla er lögð á að finna. Í spænskum fjölmiðlum er hún sögð mjög útsmogin og er hún sögð mögulega geta verið í felum í Svíþjóð, Suður-Ameríku og Íslandi af öllum löndum. Í umfjöllun Ondacero sumarið 2016 kom fram að systir hennar hefði verið búsett á Íslandi og þess vegna var Ísland nefnt sem hugsanlegur felustaður. DV er ekki kunngt um það hvort systir hennar sé enn búsett á Íslandi. Ekkert er þó staðfest í þeim efnum sem sést best á því að Maria er enn ófundin og eftirlýst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.