fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Davíð Oddsson bjargaði lífi Guðmundar Inga

Þarf að endurgreiða örorkubætur eftir að hann komst á þing – Vill að aðrir stjórnmálamenn skilji kerfið

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 1. janúar 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gráhærður maður á hækjum fer hratt og örugglega yfir Austurvöll. Hann er hávaxinn, klæddur í svarta úlpu og er með bakpoka. Líklegast myndi engum detta í hug að þarna væri á ferðinni þingmaðurinn sem ætlar sér ekki aðeins að bæta kjör allra þeirra sem þiggja bætur á Íslandi heldur ætlar hann að núllstilla almannatryggingakerfið. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, var öryrki í 24 ár áður en hann var kjörinn á þing í lok október, hann er glaður á svip þegar hann hittir blaðamann DV.

Guðmundur var lögreglumaður á Suðurnesjum á sjöunda áratugnum og starfaði svo í verslun Brynju við Laugaveginn þar til hann lenti í bílslysi. „Ég lenti í fyrsta bílslysinu 1993 og það sem verra var þá lenti ég líka á biðlista. Þegar ég var loksins búinn í aðgerð og var að jafna mig þá fór mjóbakið, þá þurfti ég að fara í aðra aðgerð. Ég var búinn að æfa stíft, búinn í námi og kominn á gott skrið í desember 1999 þegar ég lenti í seinna slysinu; eldri ökumaður fór yfir á rangan vegarhelming og skall beint framan á bílinn minn.“ Guðmundur segir að hann sé stálheppinn að vera á lífi. „Miðað við það sem læknarnir sögðu mér á sínum tíma þá hefði ég átt að verða hjólastólsmatur fyrir meira en áratug. En ég gefst ekki upp, ég þjálfa líkamann og fer reglulega í sund, það heldur mér gangandi, bókstaflega,“ segir Guðmundur og hlær. „Ég veit hins vegar að hryggurinn er hægt og rólega að síga niður, það sést á röntgenmyndum. Það er vont, en það venst.“

Guðmundur sagði í viðtali við DV ári síðar að eftir að hann talaði við Davíð hafi hjólin loks farið að snúast.
Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra í beinni línu DV í mars 1995 Guðmundur sagði í viðtali við DV ári síðar að eftir að hann talaði við Davíð hafi hjólin loks farið að snúast.

Barátta Guðmundar við kerfið hófst þegar hann var á biðlista eftir aðgerð á árunum 1993 til 1995. „Ég var búinn að vera meira en ár á biðlista þegar ég hringdi inn í beina línu DV í Davíð Oddsson og hann sagði að ég ætti ekki að vera á biðlista, þá fékk ég loksins að fara í aðgerðina. Þá var heflað af hryggnum, settar tvær stálplötur, bein úr mjöðm og átta skrúfur. Læknirinn sagði að ef ég hefði hnerrað þá hefði ég hæglega getað lamast. Það má segja að Davíð Oddsson og DV hafi bjargað lífi mínu.“

Þegar ég get ekki unnið þá get ég kallað inn varamann, það er ekki hægt á almennum vinnumarkaði.

Heppinn að hafa ekki þurft að leita til Fjölskylduhjálparinnar

Segja má að Guðmundur sé sjálflærður sérfræðingur í almannatryggingakerfinu. Hann fór að berjast fyrir bótaþega og gegn fátækt á Íslandi sem formaður samtakanna Bót. Í mótmælum fyrir utan Alþingishúsið hitti Guðmundur Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata, sem kom honum inn í endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar. Inga Sæland gaf sig ekki fyrr en hann samþykkti að fara í framboð fyrir Flokk fólksins og nú situr Guðmundur fyrir hönd flokksins í velferðarnefnd Alþingis. „Ég gæti ekki verið í betri vinnu, nú er ég loksins kominn á stað þar sem ég get talað fyrir breyttu kerfi þannig að í mér sé heyrt og þegar ég get ekki unnið þá get ég kallað inn varamann, það er ekki hægt á almennum vinnumarkaði.“

Þú hefur verið í baráttu í á þriðja áratug, hefur ekkert áunnist á þeim tíma?

„Dropinn holar steininn. Í byrjun aldarinnar barðist ég fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að afnema tekjutengingu maka við bæturnar, það þýðir að tekjur konu minnar skerða ekki bæturnar mínar, þess vegna hef ég verið það heppinn að þurfa ekki að leita á náðir Fjölskylduhjálparinnar fyrir jólin.“

Guðmundur segir mannvonsku innbyggða í kerfið eins og það er í dag.
Sérfræðingur í almannatryggingakerfinu Guðmundur segir mannvonsku innbyggða í kerfið eins og það er í dag.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mannvonska innbyggð í kerfið

Guðmundur segir að mannvonska sé innbyggð í kerfið eins og það er í dag. „Það vill enginn vera á bótum, maður þarf alltaf að passa sig og sem öryrki fékk ég alltaf hroll þegar einhver sagði að það ætti að leggja heilmikið fé inn í eitthvað tengt almannatryggingakerfinu, því ég veit að þá verður peningurinn tekinn af okkur annars staðar. Það er alltaf verið að plata, þess vegna eru svo margir skelfingu lostnir gagnvart kerfinu. Tökum bara dæmi: eldri borgara fengu 25 þúsund króna frítekjumark á allar tekjur frá lífeyrissjóðnum, en hvernig náðu þeir þessu til baka? Jú, með því að skerða lífeyrissjóðinn um 45 prósent. Þarna var búið að færa til tekjur og ríkið þurfti ekki að setja krónu inn í þetta. Svona virkar þetta alltaf. Ég get ekki trúað öðru en að þeir sem hafa viðhaldið svona kerfi allan þennan tíma viti að þetta virki svona, en ég leyfi þeim að njóta vafans þangað til annað kemur í ljós.“

Sem öryrki fékk ég alltaf hroll þegar einhver sagði að það ætti að leggja heilmikið fé inn í eitthvað tengt almannatryggingakerfinu.

Hvernig viltu breyta kerfinu?

„Það þarf að núllstilla þetta og einfalda til muna. Vandinn er að þeir vilja hafa þetta flókið og sauma bútasaum inn í þetta kerfi. Allir flokkar hafa komið að þessu, allar ríkisstjórnir undanfarinna ára og meira að segja vinstristjórnin sem sagðist vilja gera gott mót hefur bara bætt við þetta kerfi. Ég segi, núllstillum þetta kerfi svo ekki verði lengur hægt að leika sér með þetta það til setja inn pening á einum stað og taka hann út á öðrum. Það verður að vera kristaltært fyrir alla landsmenn – því hver sem er getur lent inni í kerfinu hvenær sem er – hvernig þetta virkar í raun og veru. Það gengur ekki lengur að stinga höfðinu í sandinn og tala um einstaka liði í risastórum bútasaum.“

Guðmundur segir það ekki vera neitt mál að útrýma sárafátækt á Íslandi.
Berst gegn fátækt Guðmundur segir það ekki vera neitt mál að útrýma sárafátækt á Íslandi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ekkert mál að útrýma sárri fátækt

Guðmundur segir að það eina sem þurfi sé vilji til að breyta kerfinu, það sama gildi um fátækt. „Fyrsta verkefni okkar þingmanna er að útrýma sárri fátækt á Íslandi. Það er ekkert mál, það þarf bara að gera örlitlar breytingar á skattkerfinu, láta persónuafsláttinn fjara út þegar fólk er vel launað og hætta að skattleggja þá sem eru með tekjur undir 300 þúsund krónum á mánuði. Það þarf að breyta hugsunarhættinum. Tökum sem dæmi listamannalaun: Þráinn Bertelsson var á fullum listamannalaunum þegar hann sat á þingi, allt í lagi með það, en ég þarf að skila öllum mínum tekjum það sem af er þessu ári því nú er ég með svo há laun. Bara af því að ég er öryrki. Sem þingmaður fæ ég líka 180 þúsund krónur í jólauppbót. Þegar ég var öryrki fékk ég 6.000 krónur. Ég skil ekki rökin að baki þessu, ég myndi glaður sætta mig við minna ef þeir sem þurfa þetta í raun og veru fá meira. Ég mun ekki linna látum fyrr en ég fæ skýringu á þessu öllu saman.“

Getur skapað úlfúð ef hælisleitendur fá frekar húsnæði

Flokkur fólksins hefur verið harðlega gagnrýndur þegar kemur að hælisleitendum, var flokkurinn meðal annars sakaður um að stilla bótaþegum upp á móti hælisleitendum. Hver er þín skoðun á þessu máli?

„Mín skoðun er skýr, við eigum að taka á móti öllum sem þurfa hjálp. En varðandi hælisleitendur frá öruggum ríkjum, – á meðan við getum ekki hugsað um okkar eigin fólk – þá getum við ekki tekið á móti endalausum fjölda fólks. Þótt við fegin vildum. Við eigum ekki húsnæði nú þegar, fólk býr í húsbílum í Laugardal, það mun bara skapa úlfúð í samfélaginu ef við látum hælisleitendur frá öruggum ríkjum fá húsnæði en ekki þau. Það á ekki við um þá sem eru að flýja stríð, þeim eigum við alltaf að hjálpa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis