fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Bad Breed í Garðabæ orðnir fullgildir aðstoðarmenn Bandidos

„Hagsmunasamtök brotinna manna,“ segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 1. janúar 2018 23:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mótorhjólasamtökin Bad Breed MC, sem hafa aðsetur í Garðabæ, hafa fengið formlega inngöngu í hina svokölluðu rauðu og gylltu fjölskyldu, nokkurs konar stuðningssamtök hinna alræmdu glæpasamtaka Bandidos. Með öðrum orðum, þá eru íslensku samtökin ekki lengur „tilvonandi“ (e. prospect) heldur fullgild og sjálfstæð eining. Þetta kemur fram á Facebook-síðu samtakanna þar sem þau eru furðuvirk í að segja frá nýjustu tíðindum. Til gamans má geta að þar má sjá myndir frá jólahlaðborði íslensku samtakanna árið 2016.

Lögregla hefur áður sagst fylgjast grannt með klúbbnum og sagði til að mynda Runólfur Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í viðtali við RÚV í fyrra að lögregla hefði reglulega afskipti af mönnum merktum Bad Breed. Bandidos eiga að baki blóði drifna sögu sem nær aftur til 1966. Skemmst er að minnast stríðs Bandidos og Hells Angels á Norðurlöndum á tíunda áratugnum sem leiddi til tólf dauðsfalla og tæplega hundrað særðra.

Dóp, sterar og byssur

Ásamt tilkynningunni um að samtökin væru nú fullgild fylgir mynd af Antoni Samúel Sigurðssyni og Karli Þórðarsyni, oft kallaður Kalli málari, sem er forseti klúbbsins samkvæmt umfjöllun Stundarinnar í fyrra. Anton Samúel fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm í fyrra fyrir fíkniefna-, vopnalaga- og lyfjalagabrot. Mótorhjólasamtök, svo sem Hells Angels og Bandidos, eru helst þekkt á heimsvísu fyrir að stunda viðskipti með fíkniefni og vopn.

Anton Samúel var tekinn með um 20 grömm af amfetamíni og ríflega 250 grömm af kannabis á heimili sínu. Ásamt því var hann með nokkurt magn hinna ýmsu tegunda anabólískra stera á heimili sínu. Að lokum var hann dæmdur fyrir að hafa geymt mikið magn skotfæra í ólæstum hirslum, svo sem tvær haglabyssur, sverð, tvo fjaðurhnífa og úðavopn sem lögreglumenn fundu á heimili hans. Í dómi kemur fram að hann hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.

„Rauða og gyllta fjölskyldan“

Þótt margt sé líkt með fullgildingu Bad Breed og þegar Fáfnir fékk inngöngu í Hells Angels fyrir nokkrum árum þá er þó nokkur munur þar á. Bad Breed mun ekki taka upp nafnið Bandidos því fyrrverandi móðursamtökin í Svíþjóð með sama nafni, nú systursamtök, eru svokallaður „aðstoðarklúbbur“ (e. support club). Í löggæslu er þó yfirleitt litið á slíka klúbba sem lepp og framlengingu Bandidos.

Forsíðumynd Red and Gold Family á Facebook sýnir þetta nokkuð vel. Þar má sjá merki ellefu mótorhjólaklúbba í Svíþjóð auk þess íslenska. Fyrst kemur merki Bandidos í Svíþjóð ásamt ellefu „aðstoðarklúbbum“. Munurinn á þessu tvennu má sjá á litavali en Bandidos hafa rauða bókstafi með gylltan bakgrunn meðan það er öfugt hjá aðstoðarklúbbum. Bad Breed á Íslandi eru því nú fullgildur aðstoðarklúbbur sem svarar beint til Bandidos í Svíþjóð.

Hagsmunasamtök brotinna manna

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir í samtali við DV að þótt það sé ekki jákvætt að klúbbar sem þessir skjóti rótum á Íslandi þá sé ljóst að lögregla fylgist gífurlega vel með þeim, enda merktir bak og fyrir. Hann segir að líta megi á klúbba sem þessa sem nokkurs konar hagsmunasamtök brotinna manna. „Þetta er oft og tíðum samtök einstaklinga og hópa sem eru á jaðrinum og eru nokkurs konar regnhlífarsamtök fyrir menn sem hafa komið við sögu lögreglu eða verið á jaðrinum í samfélaginu og stundað smáglæpi. Oft eru þetta einstaklingar sem eru ekkert endilega allir í glæpum. Á Norðurlöndum þekkist það í þessum klúbbum að það er misjafn sauður í mörgu fé eins og annars staðar. Samt sem áður þá eru þarna einstaklingar sem hafa komist í kast við lögin og þeir taka sér bólfestu í hverfum og það er ami af svona klúbbum,“ segir Helgi.

Vel fylgst með þeim

Helgi segir að á Íslandi hafi bæði lögregla og stjórnvöld verið sérstaklega á tánum gagnvart mótorhjólaklúbbum. „Það má segja að það hafi gengið nokkuð vel og það hefur verið hægt að stugga við þessu að mestu leyti. Helst viljum við vera laus við svona söfnuð en á móti má segja að íslenskt samfélag er fámennt og stjórnvöld hafa alla burði til að fylgjast vel með þessu og það hefur verið fylgst vel með meðlimum þessara klúbba. Þá veltir maður fyrir sér, þessir klúbbar merkja sig vel, þeir eru í einkennisklæðnaði, sjálflýsandi á götunum, sem gerir það auðveldara að fylgjast með þeim. Þá veltir maður fyrir sér hvert sé aðdráttaraflið, hvers vegna vilja menn endilega vera merktir samtökum sem þessum?“ spyr Helgi.

Ferð að finna til þín í búningi

Hann segir að mörg svör geti átt við þessu en yfirleitt sé það til að virka sem karl í krapinu. „Oft er það þannig að jaðarhóparnir að einhverju leyti finna til sín en þarna eru þeir allt í einu orðnir karlar í krapinu, komnir í alvöru klúbba með alvöru karlmönnum. Gildakerfið er svolítið öðruvísi en hjá venjulegum borgurum, sem myndu ekki vilja tengjast þessu á neinn hátt, en ef þú ert búinn að vera á jaðrinum og kannski utan okkar samfélags og finnst þú kannski aldrei hafa fengið neitt frá þessu samfélagi, jafnvel bitur, þá ferðu að finna til þín þegar þú ert kominn í einkennisbúnað og fólk horfir á þig óttablöndnum augum. Fyrir fólk sem hefur aldrei komist almennilega inn í samfélagið þá verður þetta allt í einu vegsauki,“ segir Helgi að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Í gær

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work
Fréttir
Í gær

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Í gær

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“