fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Safna gróða og leyfa sér lúxus með því að níðast á erlendu vinnuafli

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 12. september 2018 06:52

Kolbrún Bergþórsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það eru engin ný tíðindi að komið sé svívirðilega fram við erlent starfsfólk hér á landi. Á liðnum árum hafa sögur af slæmum aðbúnaði þess og smánarlegum launum iðulega ratað í fréttir. Öllu sómasamlegu fólki ofbýður en ekkert breytist, einfaldlega vegna þess að of lítið hefur verið aðhafst. Þar hefur verkalýðshreyfingin ekki staðið sig sem skyldi, en henni til afsökunar má segja að við ofurefli hafi verið að etja.“

Svona hefst pistill eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Í honum fjallar hún um níðingslega framkomu sumra atvinnurekenda við erlent vinnuafl. Hún segir að svo virðist sem breyting sé að verða á aðkomu verkalýðsfélaganna að þessum málum því þau séu að stórauka vinnustaðaeftirlit sitt. Hún segir einnig að stjórnmálamenn þurfi að ranka við sér og megi ekki byggja á hentistefnu einni saman.

„Hinn byltingarsinnaði formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, segir að meira þurfi til, þar á meðal afskipti stjórnmálamanna. Þetta er rétt hjá honum. Fólk skiptir máli og ef stjórnmál byggjast á einhverju öðru en hentistefnu hverju sinni, þá eiga stjórnmálamenn að ranka við sér við fréttir af illri meðferð á erlendu starfsfólki. Þeir eiga ekki að láta eins og þarna séu einungis á ferð dæmigerð mál sem verkalýðsforystan eigi ein að leita lausna á.“

Segir Kolbrún og víkur því næst orðum sínum að gráðugum og ósvífnum vinnuveitendum sem maka krókinn á erlendu vinnuafli.

„Þeir eru þarna alls staðar á kreiki, einstaklingarnir sem fá stjörnur í augun í hvert sinn sem þeir hugsa um gróðann sem þeir geta gengið að með því að koma hópi erlendra starfsmanna sinna fyrir í herbergiskytru og draga 100.000 króna húsaleigu á mánuði af hverjum og einum þeirra. Það tekur því alls ekki að gera samning við þetta starfsfólk því það er hér bara í stuttan tíma. Ónauðsynlegt er svo að sýna formfestu eins og þá að fylgja reglum um hvíldartíma. Fólkið er hvort sem er viljugt til að vinna og þá er um að gera að leyfa því að vinna sem mest vitanlega fyrir sem lægst laun. Þannig er hægt að safna gróða og leyfa sér alls kyns unaðslegan lúxus með því að svína á öðrum. Auðvitað er það ekkert annað en níðingsháttur að líta á starfsfólk eins og þræla og koma fram við það eins og það eigi vart tilverurétt.“

Segir Kolbrún og segir að ýmislegt sé athugavert við siðferðiskennd þeirra sem hegða sér svona. Það sé ekki að sjá að samviskan hrjái þá. Helsta hugsunin sem læðist að þessum mönnum sé líklegast hræðslan við að upp um þá komist.

„Þá glata þeir mannorðinu, sem þeim virðist reyndar standa nokkurn veginn á sama um, en missa annað sem skiptir þá öllu máli, sem er gróðinn. Það þýðir örugglega lítið að benda þessum holdgervingum græðginnar á að ganga annan og betri veg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu